Sirius-sveitin
Sirius-sveitin er 14 manna hersveit danska hersins sem hefur aðalaðsetur í Daneborg (77° 29′ 0″ N, 69° 20′ 0″ V) í Þjóðgarði Grænlands. Þessi hersveit gegnir sérkennilegu hlutverki og er um flest á annan hátt en aðrar hersveitir í heiminum.
Hlutverk
breytaHlutverk sveitarinnar er þríþætt:
- Að viðhalda dönskum yfirráðarétti yfir norður og norðaustur Grænlandi
- Að vera þjóðgarðsverðir í stærsta þjóðgarði heims, Þjóðgarði Grænlands.
- Að hafa hernaðarlegt eftirlit, aðallega með hundasleðum, yfir strandsvæði norður og norðaustur Grænlands, um 160 000 km² að flatarmáli og 16000 km langri strandlengju.
Sveitin
breytaÞátttakendur í Sirius-sveitinni eru herskyldir Danir á þrítugsaldri. Allir sem vilja innan þessa hóps geta sótt um að verða hluti af sveitinni þó fáir séu útvaldir. Þjónustan varir í rúmlega tvö ár, frá júlí til ágúst tveimur árum seinna. Á þessum tíma hafa hermennirnir engin frí heldur eru í þjónustu alla daga og eru um 8 mánuði á ári á ferðalagi. Samanlagt eru 14 manns í sveitinni samtímis, 12 með aðsetur í Daneborg og tveir í Mestersvig. Sveitin hefur um 110 sleðahunda til að ferðast um svæðið. Birgðaskip kemur í ágúst einu sinni ári. Yfir sumartímann eru fjölmargir vísindaleiðangrar á svæðinu en stærsta hluta ársins er ekkert samband við umheiminn nema fjarskiptasamband. Þó er oftast komið með jólagjafir og jólasælgæti í desember og er þá varpað niður í fallhlíf. Sveitin er hluti af sjóher Dana og er undir stjórn herstöðvarinnar í Kangilinnguit (eða Grønnedal).
Forsaga
breytaÞað eru tvær meginástæður fyrir því að Sirius-sveitin var stofnuð 1950. Annars vegar voru deilur við Norðmenn um yfirráðarétt á Grænlandi og hins vegar tilraunir Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni að koma sér upp aðstöðu á norðaustur Grænlandi.
Allt frá því að ríkjasamband Danmerkur og Noregs rofnaði 1814 og fram til 1933 voru miklar deilur milli landanna um veiðirétt og yfirráðarétt yfir norður og norðaustur Grænlandi. Árið 1932 hertóku norskir hermenn hluta af Austur-Grænlandi sem þeir nefndu Eirik Raudes Land. Milli 12. júlí 1932 og 5. apríl 1933 var það setið af norskum hermönnum og embættismönnum. Var það Vidkun Quisling, sem þá var norskur varnarmálaráðherra, sem hafði skipað fyrir um hersetuna. Undu Danir illa við og skutu málinu til Alþjóðadómstólsins í Haag, sem úrskurðaði að þetta landsvæði tilheyrði Danmörku og voru þá norsku hermennirnir kallaðir heim. Í dómsniðurstöðum segir einnig að Danir verði, ef þeir vilji hafa yfirráðaréttinn áfram, að hafa meiri umsvif á svæðinu. Nokkrar veðurathugunarstöðvar voru settar á laggirnar á árunum næst á eftir.
Í ágúst 1942 (tveimur árum eftir hertöku Danmerkur) tókst Þjóðverjum í laumi að setja upp veðurathugunarstöð á norðaustur Grænlandi í svo kallaðri Operation Holzauge -áætlun. Bandamenn uppgötvuðu ekki stöðina fyrr en í mars 1943 þegar Dönsk hersveit rakst á hana. Þjóðverjum tókst að drepa foringja Dananna og handsama hina að einum undanskildum, sem tókst að komast einn síns liðs 600 km að mestu yfir jökul til næstu stöðva Bandamanna. Árás var gerð á þýsku stöðina í maí og hún lögð í rúst. Þegar fór að líða á kalda stríðið fóru dönsk og bandarísk yfirvöld að óttast að Sovétmenn mundu reyna að leika sama leik og setja upp leynistöðvar á norður eða norðaustur Grænlandi og leiddi það til stofnunar Sirius-sveitarinnar.
Heimildir
breyta- Weiß, Gottfried: Das arktische Jahr ISBN 3-89228-535-7
- Encyclopedia of the Arctic, Routledge, 2004, ISBN 978-1-57958-436-8
Ítarefni
breyta- Slædepatruljen SIRIUS Geymt 7 ágúst 2007 í Wayback Machine
- Um veðurathugunarstöðvar og seinni heimstyrjöldina Geymt 2 mars 2007 í Wayback Machine