Silvía Nótt er persóna í þáttunum Sjáumst með Silvíu Nótt sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni Skjá einum. Persónan er leikin af Ágústu Evu Erlendsdóttur leik- og söngkonu. Persónan er nokkurs konar háðsádeila á þá staðalímynd sem stundum er kölluð gelgja (hugtak sem notað er um unglinga á gelgjuskeiði en oft einnig til að lýsa ákveðinni staðalímynd) og einkennist af frekju, hroka, kækjum, eigingirni, málspjöllum og þjarki. Silvía Nótt tekur í þáttunum viðtöl við ýmsa þekkta einstaklinga og spyr oftast dónalegra og nærgöngulla spurninga en viðtalið endar oft á umræðu sem snýst um Silvíu sjálfa. Einnig gerir hún sér upp sambönd við frægt fólk og talar opinskátt um það til að upphefja sjálfa sig.

Silvía Nótt byggir á hugmyndinni um fávísa spyrilinn (sbr. Ali G. og Johnny Naz) sem læst vera heimskur og nýtir sér sókratíska kaldhæðni til að draga fram veikleika í afstöðu viðmælandans. Það sem einkennir Silvíu Nótt er þó fremur takmarkalítil sjálfhverfa þar sem viðfangsefni ádeilunnar er íslenska stjörnukerfið og fjölmiðlar. Viðmælandinn verður þannig nokkurs konar leikmunur í sýningu sem snýst um þáttarstjórnandann sjálfan, fremur en að afstaða hans eða verk skipti nokkru máli.

Eurovision

breyta

Árið 2006 var lag Silvíu Nætur (má einnig beygja sem Nóttar[1]) kosið sem framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (Eurovision) sem haldin var í Aþenu í Grikklandi.

Miklar deilur spunnust út af því þegar lag Silvíu lak á netið, en samkvæmt reglum RÚV mega lög keppninar ekki fara í spilun fyrr en eftir frumflutning þeirra í beinni útsendingu. Kristján Hreinsson lagði fram stjórnsýslukæru á hendur RÚV, en henni var vísað frá. Páll Magnússon útvarpsstjóri RÚV tók þá ákvörðun að dæma Silvíu ekki úr keppni. Vegna alls þess fjaðrafoks sem varð vegna lekans verða reglur nú líklegast endurskoðaðar. Þar verður að öllum líkindum komist að þeirri niðurstöðu að dreifing á internetinu geti ekki talist til opinbers flutnings.

Silvía Nótt fékk 70.190 greidd atkvæði í úrslitum forkeppninar sem sýnd var á RÚV 18. febrúar, en lögin í öðru og þriðja sæti fengu 30.018 og 9.942 atkvæði. Lagið heitir „Til hamingju Ísland“ en höfundur þess er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Textann samdi Silvía sjálf og er af mörgum talinn gegnsýrður af sjálfsdýrkun og lýsingum á eigin ágæti. Silvía Nótt flutti lagið „Til hamingju Ísland“ í staðfærðri útgáfu á ensku undir nafninu „Congratulations“ í forkeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Aþenu 18. maí 2006. Lagið fékk slæma útreið og komst ekki áfram í úrslit keppninnar. Í fyrsta sinn í sögu keppninnar var púað á keppanda áður en hann tók til söngs, þó að árið 1981 hafi framlag Breta verið púað af sviði.

Tilvísanir

breyta

Tenglar

breyta