William Petty, jarl af Shelburne

(Endurbeint frá Shelburne lávarður)

William Petty, fyrsti markgreifinn af Lansdowne, (2. maí 1737 – 7. maí 1805), kallaður jarlinn af Shelburne frá 1761 til 1784, var írsk-breskur stjórnmálamaður úr röðum Vigga sem var innanríkisráðherra árið 1782 og síðan forsætisráðherra Bretlands frá 1782 til 1783 á síðustu mánuðum bandaríska frelsisstríðsins. Honum tókst að semja um frið við Bandaríkjamenn og er það talið hans helsta afrek.[1] Hann var líka vel þekktur sem forngripa- og listaverkasafnari.[2]

Jarlinn af Shelburne
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
4. júlí 1782 – 2. apríl 1783
ÞjóðhöfðingiGeorg 3.
ForveriMarkgreifinn af Rockingham
EftirmaðurHertoginn af Portland
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. maí 1737
Dublin, Írlandi
Látinn7. maí 1805 (68 ára) Berkeley Square, Westminster, Middlesex, Bretlandi
ÞjóðerniBreskur
StjórnmálaflokkurViggar
MakiSophia Carteret (g. 1765; d. 1771)
Louisa FitzPatrick (g. 1779; d. 1789)
Börn3
HáskóliChrist Church (Oxford)

Shelburne lávarður fæddist í Dublin árið 1737 og ólst upp í Írlandi. Hann gekk í Oxford-háskóla og gegndi herþjónustu í sjö ára stríðinu. Hann barðist í orrustunum við Rochefort og Minden. Fyrir frammistöðu sína í orrustunni við Kloster Kampen var Shelburne gerður að aðstoðarmanni Georgs 3. Bretlandskonungs. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum og gekk á breska þingið árið 1760. Eftir að faðir hans lést árið 1761 erfði hann aðalstitil hans og gekk á lávarðadeild þingsins. Hann varð forseti viðskiptaráðsins í ríkisstjórn George Grenville en sagði af sér eftir nokkra mánuði og gekk í bandalag við William Pitt eldri.

Þegar Pitt varð forsætisráðherra árið 1766 var Shelburne útnefndur ríkisritari fyrir suðurdeildir Bretaveldis og gegndi því embætti í tvö ár. Hann sagði af sér eftir að Frakkar innlimuðu Korsíku og gekk til liðs við stjórnarandstöðuna. Ásamt Pitt vildi Shelburne leita sátta við nýlendur Bretlands í Ameríku og gagnrýndi stefnumál ríkisstjórnar North lávarðar harðlega. Eftir að ríkisstjórn North hrundi gekk Shelburne í ríkisstjórn Rockingham lávarðar. Shelburne varð forsætisráðherra árið 1782 eftir að Rockingham lést á meðan bandaríska frelsisstríðinu var enn ekki lokið. Stjórn Shelburne hrundi vegna skilmála Parísarsáttmálans sem batt enda á stríðið. Skilmálarnir þóttu mjög örlátir í garð Bandaríkjanna þar sem þeir létu af hendi stjórn á öllu landsvæði handan Appalasíu til hins nýstofnaða ríkis. Shelburne ímyndaði sér að Bretland myndi til lengri tíma litið græða á þessu með verslun við Bandaríkin án þess að þurfa að berjast um landeignir í vestri.

Eftir að Shelburne lét af embætti sínu árið 1785 glataði hann öllum völdum og áhrifum. Shelburne harmaði að ferill sinn hefði verið til einskis þrátt fyrir öll embættin sem hann hafði gegnt á fjörutíu árum. Hann kenndi lélegri menntun sinni um – þótt hún væri reyndar ekkert síðri en flestra annarra stjórnmálamanna – og sagði að vandi sinn væri sá að „örlög mín hafa verið þau að efna til snjallra en óvinsælla sambanda.“ Sagnfræðingar hafa þó bent á að persónuleiki hans hafi verið fráhrindandi og hann hafi ekki átt auðvelt með að eignast vini. Samtímamenn hans totryggðu hann jafnan og þótti hann útsmoginn og svikull. Hann náði hátindi ferils síns of snemma og vakti öfund jafningja sinna, sérstaklega þar sem litið var á hann sem írskan uppskafning. Hann skildi ekki völd neðri deildar þingsins né hvernig hann gat samið við leiðtoga hennar. Shelburne studdi ýmsar umbætur um verslunarfrelsi, trúfrelsi og kjördæmaskipan. Hann var um margt á undan sínum samtíma en tókst ekki að afla sér stuðnings þar sem honum var vantreyst af félögum sínum. Hann vantreysti þeim á móti og reyndi að inna öll verk af hendi sjálfur svo þau yrðu gerð rétt.[3]

Tilvísanir

breyta
  1. „Past British Prime Ministers“. British Government. Sótt 14. október 2012.
  2. Bignamini, I.; Hornsby, C. (2010). Digging And Dealing in Eighteenth-Century Rome. bls. 321–322.
  3. John Cannon, "Petty, William, second earl of Shelburne and first marquess of Lansdowne (1737–1805)", Oxford Dictionary of National Biography, (Oxford University Press, 2004)


Fyrirrennari:
Markgreifinn af Rockingham
Forsætisráðherra Bretlands
(4. júlí 17822. apríl 1783)
Eftirmaður:
Hertoginn af Portland