Annað meginlandsþing Bandaríkjanna

(Endurbeint frá Second Continental Congress)

Þann 10. maí 1775 kom Annað meginlandsþingið (enska: Second Continental Congress) saman í Philadelphiu, Pennsylvaníu. Fyrsta meginlandsþingið hafði verið haldið í Philadelphia árið áður. Helsta viðfangsefni þingsins var að ræða samhæfðar hernaðaraðgerðir nýlendnanna og nauðsyn þess að nýlendurnar kæmu sér upp þjálfuðu herliði. Bandaríska byltingin hafði þá þegar hafist. Þingið sat með hléum frá 10. maí 1775 til 1. mars 1781, þegar Sambandsþing Bandaríkjanna (e. Congress of the Confederation) tók við.

Málverk eftir Edward Savage og/eða Robert Edge Pine frá árinu 1776
sýnir Annað meginlandsþingið að störfum.

Verkefni þingsins

breyta

Mikilvægasta verkefni þingsins var að samhæfa hernaðaraðgerðir nýlendnanna. Þar til að meginlandsþingið tók að sér yfirstjórn herja nýlendnanna hafði byltingin verið næsta skipulagslaus. Þann 14. júní 1775 myndaði þingið Meginlandsherinn (e. Continental Army). George Washington var skipaður yfirmaður hersins.

Afrek þingsins

breyta

Mikilvægasta afrek þingsins var þó ótvírætt samþykkt Sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna þann 4. júlí 1776. Þingið lagði einnig grunn að varanlegu stjórnskipulagi Bandaríkjanna með því að samþykkja fyrstu stjórnarskrá landsins — Sambandsskrána (e. The Articles of Confederation) þann 15. febrúar 1777. Það tók ríkin langan tíma að samþykkja Sambandsskrána, en hún var loks undirrituð af fulltrúum allra nýlendnanna þrettán þann 1. mars 1781. Í kjölfarið er talað um þing Bandaríkjanna sem Sambandsþingið.

Kosningaréttur

breyta

Þó um fimmtíu fulltrúar hafi setið bæði Annað meginlandsþing Bandaríkjanna og sömu leiðis Sambandsþing Bandaríkjanna, var atkvæðisréttur á báðum þingum í höndum ríkjanna og því voru aðeins 13 fullgild sæti á báðum þingum. Bæði á Öðru meginlandsþinginu og Sambandsþinginu hafði hvert ríki neitunarvald. Það var ekki fyrr en Sambandsskráin vék árið 1789 fyrir Stjórnarskrá Bandaríkjanna sem sætum var fjölgað á þinginu og atkvæðagreiðslur með meirihlutavægi teknar upp á þinginu.

Fulltrúar á þinginu

breyta

Meðal þekktra fulltrúa á öðru meginlandsþingi Bandaríkjanna voru Benjamin Franklin, Thomas Jefferson og John Hancock, sem seinna meir tóku þátt í að skrifa stjórnarskrá Bandaríkjanna og teljast til Landsfeðra Bandaríkjanna (e The Founding Fathers). John Hancock var kjörinn forseti þingsins 24 maí 1775.