Salvador Dalí
Salvador Domingo Felipe Jacinto Dalí i Domènech (11. maí 1904 – 23. janúar 1989) var spænskur myndlistarmaður sem aðallega er þekktur fyrir fíngerð súrrealísk málverk en fékkst einnig mikið við höggmyndalist, ljósmyndun og fleira. Hann hafði lag á að draga að sér athygli vegna sérviskulegrar framkomu og lífstíls.
Dalí fæddist í Figueres í Katalóníu og lærði við Real Academia de Bellas Artes de San Fernando í Madríd. Þar kynntist hann Pepín Bello, Luis Buñuel og Federico García Lorca sem allir tengdust framúrstefnuhópnum Ultra. Þar heillaðist hann líka af Prado-safninu sem hann heimsótti reglulega alla ævi. Á þessum tíma varð hann fyrir áhrifum frá kúbisma. Árið 1926 fór hann til Parísar þar sem hann kynntist löndum sínum Pablo Picasso og Joan Miró sem kynnti hann fyrir súrrealismanum. Á þessum tíma lét Dalí sér vaxa vel snyrt yfirvaraskegg, undir áhrifum frá Diego Velásquez, sem æ síðan var einkennismerki hans. Árið 1929 tók hann þátt í gerð stuttmyndar Buñuels, Un Chien Andalou, og um svipað leyti kynntist hann rússnesku fyrirsætunni Gölu, sem síðar varð eiginkona hans. Árið 1931 málaði hann eitt af þekktustu verkum sínum La persistència de la memoria með bráðnandi vasaúrum. Hann bjó í Frakklandi á meðan Spænska borgarastyrjöldin geisaði og flutti til Bandaríkjanna 1940. Þar naut hann töluverðrar velgengni, hélt sýningar, gaf út bækur og skrifaði balletta og tók þátt í kvikmyndagerð. Árið 1948 fluttu þau Gala aftur til Spánar, til Port Ligat í Katalóníu. Þar fékk hann aukinn áhuga á kaþólskri trú og vann mörg trúarleg verk. Hann studdi ríkisstjórn Francos opinberlega sem olli því að margir gamlir vinir hans sneru við honum baki. Á hans síðari árum naut hann þess að popplistamenn eins og Andy Warhol litu á hann sem mikilvægan innblástur.
Á löngum ferli fékkst Dalí við alls konar miðla auk málverksins. Hann teiknaði, gerði vatnslitamyndir, grafíkverk, höggmyndir, kvikmyndir og ljósmyndir, og fékkst við hönnun. Meðal þekktustu bóka hans eru hin sjálfsævisögulega The Secret Life of Salvador Dalí frá 1942 og súrrealíska matreiðslubókin Les dîners de Gala frá 1973. Hann teiknaði humarinn á hinn fræga humarkjól eftir Elsu Schiaparelli árið 1937. Endurtekin viðfangsefni í verkum hans eru draumar og undirmeðvitundin, kynhvötin, trú, vísindi og náin persónuleg tengsl. Sérviskulegur persónuleiki hans og áberandi framkoma áttu það til að draga athyglina frá list hans, sem ergði marga af helstu aðdáendum verka hans. Stuðningur hans við ríkisstjórn Francos og orðrómur um að hann hafi stundað að undirrita verk eftir aðra, hafa valdið deilum um arfleifð hans. Líf hans og verk hafa haft mikil áhrif á súrrealismann, popplistina og síðari tíma konseptlistamenn eins og Damien Hirst og Jeff Koons.
Tvö söfn eru helguð list Dalís: Dalí-leikhússafnið í Figueres á Spáni, og Salvador Dalí-safnið á Flórída.