Sólveig Pétursdóttir

Íslensk stjórnmálakona

Sólveig Pétursdóttir (f. 11. mars 1952) er íslenskur lögfræðingur, fyrrverandi alþingismaður, dóms- og kirkjumálaráðherra og forseti Alþingis.

Sólveig var kjörin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi árið 1991 og sat á þingi til ársins 2007. Hún var dóms- og kirkjumálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar frá 1999-2003 og forseti Alþingis frá 2005-2007.

Foreldrar Sólveigar eru Pétur Hannesson deildarstjóri og kona hans Guðrún Margrét Árnadóttir húsmóðir. Eiginmaður Sólveigar var Kristinn Björnsson (1950-2015) lögfræðingur og fyrrverandi forstjóri Skeljungs hf. og eignuðust þau þrjú börn.

Nám og störf

breyta

Sólveig lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1972 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1977. Hún hlaut réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 1980.

Hún starfaði hjá embætti borgarfógeta í Reykjavík frá 1977-1978, var fulltrúi á lögmannsstofu Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns frá 1979-1981, kennari við Verslunarskóla Íslands frá 1983-1986 og um tíma var hún lögfræðingur Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. Sólveig var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá 1986-1990, sat í félagsmálaráði Reykjavíkur og byggingarnefnd heilsugæslustöðva í Reykjavík frá 1986-1990. Hún var formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 1986-1991, sat í tryggingaráði 1987-1995 og var formaður nefndar forsætisráðherra um blýlaust bensín og umhverfisáhrif 1989. Hún var alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá 1991-2007, dóms- og kirkjumálaráðherra frá 1999-2003 og forseti Alþingis frá 2005-2007.[1]

Tilvísanir

breyta
  1. Alþingi, Æviágrip - Sólveig Pétursdóttir (skoðað 24. júní 2019)