Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur var stofnuð 20. apríl 1928 en þá komu saman 22 konur, fulltrúar frá 10 kvenfélögum, á fund að Kirkjutorgi 4 í Reykjavík. Félögin voru: Kvenréttindafélag Íslands, Bandalag kvenna, Félag íslenskra hjúkrunarkvenna, Hvítabandið, eldri og yngri deild, Hið íslenska kvenfélag, Lestrarfélag kvenna, Kvenfélagið Hringurinn, Thorvaldsensfélagið og Verkakvennafélagið Framsókn. Einnig sátu fundinn fulltrúar Barnavinafélagsins Sumargjafar og Hjúkrunarfélagsins Líknar.

Þann 27. febrúar 1928 varð sjóslys þegar togarinn Jón forseti strandaði við Stafnes en í því slysi drukknuðu 15 skipverjar og var félagið stofnað til að koma að koma ekkjum og föðurlausum börnum til hjálpar. Laufey Valdimarsdóttir var kjörin formaður og sama vor opnaði nefndin skrifstofu í húsi Guðspekifélagsins í Reykjavík. Auður Auðuns starfaði í mörg ár fyrir félagið.

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur úthlutar matvælum hvern miðvikudag en fatnaði og ýmsum smávörum fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði. Þá hefur nefndin veitt fermingarstyrki á hverju vori og einnig styrki til barna til dvalar í sumarbúðum og vegna þátttöku í leikjanámskeiðum. Og nýfædd börn fá vandaða gjafapakka með fatnaði og öðrum nauðsynjum. Sérstök jólaúthlutun er fastur liður í starfseminni og hefur hún hin síðustu ár verið í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar, innanlands, og Rauða kross Íslands. Árið 2012 var Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar stofnaður og styrkir sjóðurinn tekjulágar konur til náms.

Við úthlutanir nefndarinnar starfa sjálfboðaliðar, venjulega um 20 eldri konur, sem sumar hafa starfað launalaust í mörg ár hjá nefndinni. Þær eru fulltrúar þeirra sjö kvenfélaga sem nú standa að nefndinni, en það eru: Kvenréttindafélag Íslands, Thorvaldsensfélagið, Hvítabandið, Félag háskólakvenna, Hvöt, félag sjálfstæðiskvenna, Kvenfélag Alþýðuflokksins og Félag framsóknarkvenna.

Tengill

breyta