Sæunn Jónsdóttir
Sæunn Jónsdóttir (fædd um 1790 á Geitaskarði í Langadal, dáin 28. maí 1862 í Víðidalstungu) var íslensk vinnukona sem talaði sitt eigið tungumál sem var kallað „Sæunnarmál.“ Hún var dóttir Ingveldar Sigurðardóttur en talið var að Sæunn hafi verið rangfeðruð. Séra Þorlákur Magnússon, sem var prestur í Þingeyraklaustursprestkalli og systursonur Bjarna landlæknis, dvaldi á Geitaskarði eftir að hafa þurft að segja af sér embætti vegna sjónleysis og var hann sagður faðir Sæunnar. Hann gifti Ingveldi Sigurðardóttur og Jóni Gíslasyni og skömmu síðar fluttust þau hjón að Illugastöðum á Vatnsnesi. Saman eignuðust þau fimm börn og ólu einnig upp eitt stúlkubarn sem var bróðurdóttir Jóns Gíslasonar. Hún hét Ingibjörg og var litlu yngri en Sæunn. Á Illugastöðum átti Sæunn góða æsku. Hún fluttist svo til Ingibjargar uppeldissystur sinnar og manns hennar á Þorkelshóli í Víðidal, var þar vinnukona alla ævi og giftist aldrei.[1]
Um Sæunnarmál
breytaSæunn talaði lítið fyrr en hún var á sjöunda ári en þá fór hún að tala furðulegt mál sem hún skapaði sjálf. Það þróaðist með árunum og þegar hún var á tíunda ári var hún altalandi en íslensku talaði hún aldrei og skildi hana illa. Ýmis dæmi eru þekkt um slíkt tungutal en sjaldgæft að fólk tali ekkert annað mál en það sem það býr sér til. Málið hljómaði eins og algjört babl. Til dæmis hét Guð Iffa og englar hétu Iffa ku-ku á þessu furðulega máli. Börnin sem léku við Sæunni áttu auðveldara með að skilja mál hennar en foreldrar hennar en Sæunn notaði bendingar og látbragð til þess að foreldrarnir gætu skilið hana. Sæunn var sögð vel gefin og minnisgóð. Hún var trúrækin en fékk ekki að fermast fyrr en hún var komin á 28. aldursár og svaraði þá bróðir hennar spurningum prestsins fyrir hana. Það var Geir Vídalín biskup sem leyfði ferminguna eftir að hann fékk langt bréf frá séra Sæmundi Oddsyni á Tjörn.[1]
Sæunnarmál varð þekkt út fyrir landsteinana og voru skrifaðar tvær greinar um Sæunni og tungutak hennar í blöð í Danmörku. Svo virðist vera sem í málinu hafi einungis verið nafnorð, lýsingarorð, sagnorð og töluorð, en engin fornöfn og engar beygingar voru notaðar. Sæunn notaði tvö ólík sagnorð um sama hlut, eftir því hvort setningin var jákvæð eða neikvæð, í stað þess að nota orð sem samsvaraði ekki. Sum orð í Sæunnarmáli voru eins og afbökun á íslenskum orðum (fiskur var til dæmis fikk) en önnur algjörlega óskyld.
Orð og setningar í Sæunnarmál
breytaBaldvin Arason, sonur uppeldissystur Sæunnar, skráði niður slatta of orðum og setningum sem voru í Sæunnarmál, meðal annars:
- Iff-iff = ljós
- Iffa-umha úfa-hara = sólin
- Ho-fakk = nótt
- Úfa-hara ho-fakk = tunglið
- Úta-da-da ho-dakk = stjörnurnar[1]
Tilvísanir
breytaHeimildir
breyta- „„Tungutal."“. Morgunblaðið, 6. júní 1983.
- „„Iffa um fúffa ibb gatigga."“. Tíminn, 16. júlí 1988.