Ronald Ernest „Ron“ Paul (f. 20. ágúst 1935) er bandarískur stjórnmálamaður. Paul, sem er repúblíkani, sat í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir 14. kjördæmi Texas frá 1997 til 2013. Paul sóttist eftir tilnefningu sem forsetaframbjóðandi Repúblíkanaflokksins fyrir kosningarnar 2008 og kosningarnar 2012. Sonur hans Rand Paul bar sigur úr býtum í kosningunum 2. nóvember 2010 sem öldungadeildarþingmaður Kentucky.

Ron Paul.

Paul sem er menntaður læknir hóf fyrst afskipti af stjórnmálum þegar hann bauð sig fram til þings fyrir 22. kjördæmi Texas 1974. Paul tapaði þá fyrir demokratanum Robert Casey, sem hafði verið þingmaður kjördæmisins síðan 1959. Eftir að Casey lét af þingstörfum 1976 sigraði Paul sérstakar aukakosningar til að fylla sætið þar til næsta þing kæmi saman í janúar 1977. Paul tapaði kosningunum í nóvember 1977 naumlega en bar sigur úr býtum 1980 og 1982. Paul var fyrsti repúblíkaninn sem náði kjöri í þessu kjördæmi.

Í kosningunum 1984 bauð Paul sig fram til Öldungadeildarinnar fyrir Texas en beið lægri hlut fyrir Phil Gramm í prófkjöri Repúblíkanaflokksins. Eftirmaður Paul sem þingmaður 22. kjördæmis Texas var Tom DeLay, sem síðar varð þingflokksformaður Repúblíkana í fulltrúadeildinni. Eftir ósigurinn sneri Paul sér aftur að læknisstörfum.

Í forsetakosningunum 1988 bauð Paul sig fram sem fulltrúi Frjálshyggjuflokksins. Paul sagði að tilgangur framboðsins hefði ekki endilega verið að sigra, heldur frekar að vekja athygli á hugmyndum frjálshyggjumanna, sérstaklega meðal ungs fólks. Árið 1996 bauð Paul sig fram til 14. þingsætis Texas sem fulltrúi Repúblíkanaflokksins og bar sigur úr býtum. Paul tók þátt í prófkjöri Repúblíkanaflokksins fyrir forsetakosningarnar 2008 og kom mörgum á óvart fyrir það að afla sér mikils stuðnings í gegnum grasrótarsamtök og á internetinu. Hann reyndi að fá tilnefningu repúblikana fyrir forsetaframboð árið 2012 en tapaði fyrir Mitt Romney.