Rigoberta Menchú Tum

(Endurbeint frá Rigoberta Menchu Tum)

Rigoberta Menchú Tum (f. 9. janúar 1959) er gvatemalskur aðgerðasinni, rithöfundur og stjórnmálamaður af ætt Quiché-frumbyggja. Hún hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1992 fyrir baráttu sína í þágu réttinda kvenna og frumbyggja á tíma borgarastyrjaldarinnar í Gvatemala (1960–1996). Menchú er í dag góðgerðasendiherra fyrir UNESCO og hefur lengi verið virk í stjórnmálum Gvatemala. Hún bauð sig fram til forseta árin 2007[1] og 2011 en náði litlu fylgi.

Rigoberta Menchú Tum
Rigoberta Menchú árið 2009.
Fædd9. janúar 1959 (1959-01-09) (65 ára)
ÞjóðerniGvatemölsk
StörfAðgerðasinni, rithöfundur, stjórnmálamaður
TrúKaþólsk
MakiÁngel Canil (g. 1995)
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1992)

Æviágrip

breyta

Rigoberta Menchú fæddist til frumbyggja af Quiché-þjóðerni í Laj Chimel í Quiché-sýslu í Gvatemala. Herforingjar höfðu tekið völdin í landinu fáeinum árum áður en hún fæddist og borgarastyrjöld braust út gegn einræðisstjórninni þegar hún var tæplega tveggja ára. Sem barn og unglingur vann hún við jarðyrkju ásamt fjölskyldu sinni á hálendinu og við Kyrrahafsströnd Gvatemala. Hún varð snemma virk í félagsumbótastörfum kaþólsku kirkjunnar í landinu og varð áhrifamikil innan kvennahreyfinga í kirkjunni. Störf hennar mættu andstöðu gvatamalskra stjórnvalda þar sem Rigoberta og samstarfsmenn hennar lágu undir grun um að starfa með skæruliðasveitum uppreisnarmanna sem voru virkar á svæðinu. Faðir hennar var um hríð fangelsaður og pyntaður vegna ásakana um að vera aðili að uppreisnarhreyfingum.[2]

Rigoberta gekk ung ásamt föður sínum í einingarsamtök gvatemalskra bænda. Eftir að faðir hennar, móðir og bróðir voru handtekin, pyntuð og líflátin af öryggissveitum stjórnvalda fyrir meint andóf gerðist Rigoberta æ virkari innan einingarsamtakanna. Hún lærði bæði spænsku og tungumál annarra þjóðflokka Maja-indíána og stóð ásamt öðrum verkalýðsleiðtogum fyrir stórtæku verkfalli landbúnaðarverkamanna árið 1978. Þann 1. maí árið 1981 tók hún þátt í mótmælagöngu gegn stjórninni og gekk í andófshreyfingu sem kenndi sig við 31. janúar.[2] Nafn hreyfingarinnar (spænska: Frente patriotico 31 de enero) var komið til vegna þess að þann 31. janúar árið 1980 höfðu stjórnvöld Gvatemala brennt spænska sendiráðið í Gvatemalaborg eftir að bændur af frumbyggjaættum tóku það yfir til að mótmæla mannránum og morðum hersins. Faðir Rigobertu, Vicente, hafði verið meðal 36 manns sem létust í brunanum.[3]

Hlutverk Menchú í hreyfingunni var að kenna verkamönnum af frumbyggjaættum að verjast árásum hersins. Árið 1981 neyddist hún til að fara í felur og síðan til að flýja til Mexíkó. Þaðan skipulagði hún á næstu árum réttindabaráttu gvatemalskra bænda og tók þátt í stofnun sameinaðrar andófshreyfingar gegn einræðisstjórninni árið 1982. Árið 1983 samdi hún ásamt Elisabeth Burgos-Debray ævisöguna Ég, Rigoberta Menchú, þar sem hún lýsti hlutskipti frumbyggja í Rómönsku Ameríku og voðaverkum einræðisstjórnarinnar í Gvatemala.[2] Bókin vakti mikla athygli á ævi og störfum Menchú og stuðlaði að því að árið 1992 var hún sæmd friðarverðlaunum Nóbels.

Eftir að borgarastríðinu í Gvatemala lauk árið 1996 var meðal annars stuðst við framburð Menchú í réttarhöldum yfir herforingjunum sem höfðu ráðið yfir landinu síðustu áratugina.[1] Hún talaði fyrir því að réttað yrði yfir meðlimum ríkisstjórnarinnar fyrir stríðsglæpi á spænskum dómsstólum.[4]

Gagnrýni á frásögn Menchú

breyta

Bókin Ég, Rigoberta Menchú hefur í seinni tíð orðið umdeild vegna ásakana um að Menchú hafi farið frjálslega með staðreyndir við gerð hennar. Í bók sinni hélt bandaríski mannfræðingurinn David Stoll því fram að flestar reynslusögur Menchú væru tilbúningur[1] og að hún hefði ýkt þátt sinn í tilteknum atburðum eða logið því að hafa verið viðstödd atburði sem hún kom hvergi nærri. Aðrir hafa staðfest að nokkur ósannindi sé að finna í bók Menchú (m.a. að hún hafi sjálf verið vitni að morði bróður síns) en telja þó að myndin sem hún dregur upp af aðstæðum frumbyggja í borgarastyrjöldinni sé í megindráttum sönn.[5] Málsvarar Menchú benda einnig á að hún hafi með bókinni verið að skrifa sig inn í hið suður-ameríska testimonio til að gefa yfirsýn af atburðum og að staðreyndavillurnar í bókinni séu í samræmi við stílbrögð slíkrar sagnahefðar.[6]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 Ásgeir Sverrisson (26. febrúar 2007). „Friðarverðlaunahafi í framboð“. Morgunblaðið. Sótt 16. júní 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 Guðrún Agnarsdóttir (1. desember 1992). „Heill þér Rigoberta Menchú“. Vera. Sótt 16. júní 2019.
  3. Greg Grandin. „Rigoberta Menchú Vindicated“ (enska). The Nation. Sótt 16. júní 2019.
  4. „Activist Asks Spain to Pursue Guatemala Case“ (enska). Los Angeles Times. 3. desember 1999. Sótt 16. júní 2019.
  5. Grandin, Greg. "It Was Heaven That They Burned", The Nation, 8. september 2010. 27. nóvember 2017.
  6. Gunnþórunn Guðmundsdóttir (1. október 2006). „Blekking og minni“. Ritið: tímarit Hugvísindastofnunar. Sótt 16. júní 2019.