Reykir í Tungusveit

Reykir í Tungusveit er bær og kirkjustaður í Reykjatungu í vestanverðum Skagafirði og stendur á bakka upp frá Svartá. Bærinn er fornt höfuðból.

Í landi Reykja og nágrannajarðarinnar Steinsstaða og raunar víðar í Reykjatungu er jarðhiti mjög víða og það svo að oft hefur verið vandamál að finna kalt neysluvatn. Margar laugar eru umhverfis bæinn á Reykjum og jafnvel jarðhiti í kirkjugarðinum, sem sagður er eini upphitaði grafreiturinn í heiminum.

Minnst er á laugarnar í ýmsum gömlum heimildum. Í Sturlungu segir frá því að Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi lágu með her sinn við Skíðastaða- og Reykjalaug fyrir bardagann á Örlygsstöðum.

Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, sem fæddur var á Steinsstöðum 1762, lýsir laugunum við Reyki svona árið 1792: „Rétt fyrir austan kirkjuna á Reykjum er köld uppspretta, sem hefur verið löguð fyrir baðtjörn. Er hægt að hita vatnið í henni að vilja hvers og eins með því að hleypa í hana vatni úr heitum lauga­læk, sem rennur fram hjá henni.“

Á Reykjum er timburkirkja sem var byggð 1896 og endurbyggð 1976. Hún er friðuð.

Heimildir

breyta
  • Hallgrímur Jónasson. Árbók Ferðafélags Íslands. Skagafjörður. Ferðafélag Íslands.
  • Sveinn Pálsson (1945). Ferðabók Sveins Pálssonar: dagbækur og ritgerðir 1791-1797. Snælandsútgáfan.

Tenglar

breyta