Manfred von Richthofen

Þýskur herflugmaður, kallaður rauði baróninn (1892–1918)
(Endurbeint frá Rauði baróninn)

Manfred Freiherr von Richthofen (fæddur undir nafninu Manfred Albrecht Freiherr von Richthofen; 2. maí 189221. apríl 1918), einnig þekktur sem „rauði baróninn“ var flugmaður í þýska flughernum í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann er oft talinn besti flugmaður stríðsins en á meðan því stóð voru honum eignaðir áttatíu sigrar í loftbardögum.

Manfred von Richthofen
Rauði baróninn
Fæddur2. maí 1892
Dáinn21. apríl 1918 (25 ára)
Vaux-sur-Somme, Frakklandi
StörfHerflugmaður
ForeldrarK­unigunde og Al­brecht von Richt­hofen
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Manfred von Richthofen fæddist til prússneskrar aðalsfjölskyldu í Breslau. Friðrik mikli Prússakonungur hafði sæmt fjölskylduna riddaratign um öld fyrir fæðingu Manfreds og var meðlimum hennar því leyft að kalla sig fríherra, eða baróna. Manfred var sendur í herskóla í Wahlstatt þegar hann var 11 ára en undi því illa. Þrátt fyrir að kunna illa við sig í skólanum var Manfred góður nemandi og þótti bera af í fimleikum, reiðum og skotfimi.

Richthofen var orðinn meðlimur í riddaraliðssveit þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á. Riddaralið voru á þessum tíma að glata mikilvægi sínu í hernaði vegna mikilla tækniframfara svo Richthofen fékk lítið að gera þar til hann færði sig yfir í flugherinn árið 1915. Hann varð einn fyrsti meðlimurinn í annarri þýsku flugherdeildinni árið 1916. Hann vann sér fljótt inn frægð og frama sem herflugmaður og varð árið 1917 leiðtogi elleftu þýsku flugherdeildarinnar og síðan fyrstu herflugvéladeildarinnar. Sú síðarnefnda varð fljótt betur þekkt sem „sirkusinn fljúgandi“' eða „sirkus Richthofens“ vegna þess hve litríkar flugvélar deildarinnar voru og ef til vill einnig sökum þess hvernig flugvélarnar voru færðar frá einni vígstöð til annarrar – líkt og farandsirkus á lestum sem setti oft upp tjöld á bráðabirgðaflugvöllum. Árið 1918 var Richthofen hylltur sem þjóðhetja í Þýskalandi og var virtur og dáður jafnvel af óvinum sínum. Viðurnefni Richthofens sjálfs var fundið upp af Bandamönnum og stafaði af rauðri herflugvél hans.

Richthofen var skotinn niður og drepinn á flugi nálægt Vaux-sur-Somme þann 21. apríl árið 1918. Mikið hefur verið rætt og deilt um ýmsa þætti í ferli hans, sérstaklega um kringumstæður dauða hans. Hann er enn einn þekktasti herflugmaður allra tíma og hefur birst í fjölmörgum bókum, kvikmyndum og öðrum skáldskap.

Tenglar

breyta
  • Flosi Þorgeirsson (29. apríl 2018). „Rauði baróninn“. Kjarninn. Sótt 6. febrúar 2024.
  • Kristinn Hlíðar Grétarsson; Ásgeir Sölvi Sölvason; Margrét Björk Sigurðardóttir (1. ágúst 2006). „Hver var rauði baróninn?“. Vísindavefurinn. Sótt 6. febrúar 2024.