Raoul Cauvin (f. 26. september 1938, d. 19. ágúst 2021) var belgískur myndasöguhöfundur sem kom að fjölda vinsælla myndasagna, má þar nefna Bláfrakkana, Samma & Kobba og Sval & Val.

Raoul Cauvin (2012).

Ferill

breyta

Raoul Cauvin fæddist í Antwerpen árið 1938 . Hann lauk námi í steinprenti en uppgötvaði fljótlega eftir útskrift að starfsmöguleikarnir í þeirri iðn voru litlir. Hann gekk til liðs við Dupuis-útgáfuna árið 1960 og vann að gerð teiknimyndaþátta fyrir sjónvarp um Strumpana. Með tímanum sneri hann sér að því að semja myndasögur fyrir ýmsa af teiknurum útgáfufélagsins og birtust þær í myndasögublaðinu Sval.

Árið 1967 flutti Morris, höfundur Lukku Láka sig um set frá Dupuis til franska samkeppnisblaðsins Pilote. Til að bregðast við brotthvarfi hinnar vinsælu söguhetju, skapaði Cauvin nýjan sagnaflokk, Bláfrakkana, um sveit í riddaraliðinu á tímum bandaríska borgarastríðsins. Hefur bókaflokkurinn, sem fyrst var teiknaður af Louis Salvérius en síðar listamanninum Lambil verið einn sá vinsælasti í sögu fransk/belgísku myndasögunnar.

Árið 1972 hóf Cauvin ritun annars vinsæls sagnaflokks, um einkaspæjarana Samma og Kobba, sem teiknaðir voru af Berck. Sögurnar gerast í Chicago á bannárunum.

Snemma á níunda áratugnum samdi Cauvin í samstarfi við teiknarann Nic Broca þrjár sögur um Sval og Val: Kuldakastið, Svarta kassann og Hljóðsuguna. Þær sögur hafa þó almennt hlotið fremur rýr eftirmæli.

Af öðrum þekktum sögum eftir Cauvin mætti nefna bækurnar um barnunga prakkarann Cedric, Agent 212 sem fjallar um treggáfaðan lögregluþjón, Les Femmes en Blanc sem gerast á sjúkrahúsi og Cupidon um seinheppinn ástarengil.