Pilote var franskt teiknimyndablað sem gefið var út á árunum 1959 til 1989. Það var á sínum tíma eitt áhrifamesta blað sinnar tegundar og barðist um hylli lesenda við teiknimyndablöðin Tinna og Sval. Ýmsir af kunnari teiknimyndasöguhöfundum Evrópu birtu verk sín í blaðinu.

Sagan breyta

Hópur teiknimyndasöguhöfunda hóf útgáfu Pilote á árinu 1959. Það voru höfundarnir René Goscinny og Jean-Michel Charlier og teiknararinn Albert Uderzo við fjórða mann. Útgáfa blaðsins lenti fljótlega í fjárhagslegum erfiðleikum og varð úr að útgáfufyrirtækið Dargaud keypti reksturinn.

Þeir Goscinny og Uderzo kynntu snemma til sögunnar Ástrík gallvaska sem varð flaggskip blaðsins. Árið 1968 barst blaðinu góður liðsauki þegar Lukku Láki færði sig um set frá teiknimyndablaðinu Sval.

Jean-Michel Charlier kynnti til sögunnar ævintýrin um einfarann Blástakk (f. Blueberry) úr Villta-vestrinu, sem þótti brjóta blað í sögu raunsæislegra teiknimynda. Lesendahópur Pilote var enda nokkru eldri en Tinna og Svals.

Minnkandi teiknimyndasala í Frakklandi á níunda áratugnum varð að lokum til þess að útgáfan varð aflögð.

Kunnar teiknimyndasögur breyta

Meðal kunnra teiknimyndasagna sem birst hafa í Pilote í gegnum tíðina má nefna: Ástrík gallvaska, Blástakk, Valerían & Lárelínu, Lukku-Láka, Mac Coy, Fláráð stórvesír og Alla Kalla.