Les faiseurs de silence
Les faiseurs de silence (íslenska: Hljóðsugan) er 32. Svals og Vals-bókin og sú þriðja og síðasta eftir Nic og Cauvin. Hún kom út á frönsku árið 1984 en hefur enn ekki verið gefin út á íslensku.
Söguþráður
breytaSagan hefst skömmu eftir að La boîte noire lýkur. Valur útbýr tæki eftir einni af míkrófilmunum úr svarta kassanum. Tækið er nokkurs konar hljóðsuga sem gleypir öll umhverfishljóð úr sínu nánasta umhverfi. Sá er þó galli á gjöf Njarðar að tæma þarf tækið reglulega með tilheyrandi ógnarhávaða.
Svalur og Valur prófa tækið, en það veldur fjölda óhappa svo sem árekstra þegar fólk bregst furðu lostið við að heyra engin hljóð. Þrjótarnir Alexander og Kalloway rekast á Val á förnum vegi, stela tækinu og nota til að fremja bankarán.
Yfirmaður þeirra félaga skipar þeim að brjótast inn hjá Sval og Val til að ná Svarta kassanum. Þegar þangað er komið uppgötva þrjótarnir að afhlaða þarf tækið sem er orðið fullt. Þeir flýja í dauðans ofboði og skilja tækið eftir.
Svalur og Valur ákveða að farga tækinu með því að steypa það inn í klump og varpa í sjóinn. Svo undarlega vill til að klumpurinn fellur á snekkju þeirra Alexanders og Kalloways sem sekkur. Svalur og Valur bjarga þeim úr sjónum en loftfar þeirra verður þá of þungt svo það lendir í áreksti. Allir mennirnir fjórir enda því á spítala, talsvert lemstraðir.
Fróðleiksmolar
breyta- Fléttan um tæki sem sogar til sín hljóð hafði verið notuð áður í teiknimyndasögu í bók um stúlkuna Sophie eftir Jidéhem. Þrjótarnir eru einmitt látnir átta sig á því hvernig tækið virkar með því að lesa þá bók heima hjá Sval og Val.
- Í teiknimyndablaðsútgáfu sögunnar var tækið látið springa á hafsbotni með gríðarlegri hljóðbylgju sem olli dauða tuga stórhvela. Því var breytt fyrir bókarútgáfuna þar sem það þótti ekki samræmast náttúruverndarhugmyndum lesenda.