Pourquoi-Pas ?

(Endurbeint frá Pourquoi-pas?)

Pourquoi-Pas ? (sem þýðir: „hvers vegna ekki?“ á íslensku, borið fram Púrkva-pa) var heiti sem franski vísindamaðurinn Jean-Baptiste Charcot notaði á nokkur rannsóknarskip sín. Frægast þessara skipa var Pourquoi-Pas ? IV sem var smíðað fyrir hann í Saint-Malo og sem hann ætlaði sér að nota í annan leiðangur sinn til Suðurskautslandsins. Smíði skipsins hófst 1907 og því var hleypt af stokkunum 18. maí 1908. Pourquoi-pas? var 825 tonna þrímastra barkskip með gufuvél, 57 metrar að lengd. Skipsskrokkurinn var allur styrktur með stál- og sinkþynnum. Á skipinu var gríðarlega hár strompur og það hýsti þrjár fullbúnar rannsóknarstofur og bókasafn.

Líkan af Pourquoi-Pas ? IV.

Könnunarleiðangrar um Suður- og Norðurhöf

breyta

1908 til 1909 sigldi Charcot á skipinu til Suðurskautslandsins þar sem hann kannaði Bellinghausenshaf og Amundsenshaf, Loubetsland, Margrétarflóa og Charcotseyju sem var heitin eftir honum.

1912 varð skipið fyrsta skólaskip franska flotans. Á næstu árum, til 1925, sigldi Charcot skipinu í fjölda leiðangra um Norður-Atlantshaf, Ermarsund og Miðjarðarhaf og kom meðal annars til Færeyja. Rannsóknir hans snerust fyrst og fremst um steinafræði og jarðfræði neðansjávar.

1925 lét Charcot af stjórn skipsins vegna aldurs, en var áfram um borð sem leiðangursstjóri. 1926 kannaði skipið austurströnd Grænlands þar sem þeir söfnuðu steingervingum.

1928 hélt skipið ásamt skipinu Strasbourg í leiðangur til að leita að stóru Latham 47-sjóflugvélinni sem hafði farist ásamt, með öðrum, Roald Amundsen. Leitin varð árangurslaus.

1934 sigldi Pourquoi-Pas ? aftur til Austur-Grænlands með mannfræðileiðangur Paul-Émile Victor sem ætlaði að búa í Angmassalik. Árið eftir snýr skipið þangað aftur til að sækja leiðangursmenn og kortleggja í leiðinni ströndina.

Skipið ferst

breyta
 
Kort sem sýnir staðsetningu skersins Hnokka undan Álftanesi þar sem skipið fórst.

Árið 1936 sneri Pourquoi-Pas ? aftur til Grænlands til að fara með leiðangurstæki til leiðangurs Paul-Émile Victor sem ætlaði sér að fara yfir Grænlandsísinn á fimmtíu dögum. Á bakaleiðinni, 3. september, stoppaði skipið í Reykjavík til að láta gera við ketilinn. 15. september lagði það svo af stað til Saint-Malo. Daginn eftir lenti það í ofviðri á Faxaflóa og fórst við Álftanes á Mýrum. Fjörutíu fórust og einungis fundust lík 23 leiðangursmanna. Aðeins einn komst af.

Tenglar

breyta