Pedro 2. Brasilíukeisari

(Endurbeint frá Pedro II Brasilíukeisari)

Dom Pedro 2. (2. desember 18255. desember 1891), kallaður „hinn hugprúði“[1] var annar og síðasti keisari Brasilíu og gegndi þeirri stöðu í 58 ár. Pedro fæddist í Rio de Janeiro, sjöunda barn Pedro 1. Brasilíukeisara og Maríu Leópoldínu og var því meðlimur Brasilíukvíslar Bragança-ættarinnar. Skyndileg afsögn föður hans og brottför til Evrópu árið 1831 gerði Pedro að keisara þegar hann var fimm ára og átti hann því einmanalega æsku og uppvaxtarár. Pedro var skyldugur til að eyða öllum sínum tíma í nám og undirbúning fyrir keisaratíð sína og fékk fá tækifæri til að skemmta sér eða kynnast jafnöldrum sínum. Reynsla Pedros af valdaspilinu innan hirðarinnar og stjórnmáladeilum á þessu tímabili mótuðu persónu hans mjög; hann varð á fullorðinsárum sínum skyldurækinn maður og trúr þjóð sinni en þó í sífellt auknum mæli gramur gagnvart einvaldsembætti sínu.

Skjaldarmerki Bragança-ætt Keisari Brasilíu
Bragança-ætt
Pedro 2. Brasilíukeisari
Pedro 2.
Ríkisár 7. apríl 183115. nóvember 1889
SkírnarnafnPedro de Alcântara João Carlos Leopoldo Salvador Bibiano Francisco Xavier de Paula Leocádio Miguel Gabriel Rafael Gonzaga
Fæddur2. desember 1825
 Rio de Janeiro, Brasilíu
Dáinn5. desember 1891 (66 ára)
 París, Frakklandi
GröfDómkirkjunni í Petrópolis, Brasilíu
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Pedro 1. Brasilíukeisari
Móðir María Leópoldína af Austurríki
KeisaraynjaTeresa Cristina af Sikileyjunum tveimur (g. 1843; d. 1889)
BörnAfonso, Isabel, Leopoldina, Pedro

Þegar Pedro komst til valda var keisaradæmið við það að liðast í sundur en honum tókst sem keisara að gera Brasilíu að efnilegu alþjóðaveldi. Þjóðin skar sig brátt úr hópi nágranna sinna í rómönsku Ameríku vegna stjórmálalegs stöðugleika, málfrelsis, virðingu við mannréttindi, kröftugs efnahags og sérstaklega vegna stjórnarfyrirkomulagsins: Skilvirks þing- og stjórnarskrárbundins keisaraveldis. Brasilía bar einnig sigur úr býtum í þremur stríðum (gegn Argentínu, Úrúgvæ og Paragvæ) og í ýmsum öðrum milliríkjadeilum. Pedro 2. barðist af hörku fyrir því að þrælahald yrði bannað í Brasilíu þrátt fyrir andóf áhrifamikilla stjórnmála- og efnahahagsvalda. Pedro var sjálfur fræðimaður og gat sér góðan orðstír sem ákafur stuðningsmaður bættrar menntunar, menningarstarfsemi og vísinda. Hann vann sér inn virðingu og aðdáun fræðimanna á borð við Charles Darwin, Victor Hugo og Friedrich Nietzsche og var sjálfur vinur Richards Wagner, Louis Pasteur og Henry Wadsworth Longfellow meðal annarra merkismanna.

Þrátt fyrir að flestir Brasilíumenn hafi ekki sóst eftir breyttu stjórnskipulagi var keisaranum steypt af stóli í valdaráni árið 1889. Valdaránið naut nánast einskis stuðnings annarra en fáeinna hernaðarleiðtoga sem vildu koma á lýðveldi undir stjórn einræðisherra. Pedro var þá orðinn lúinn á keisarastólnum og vonlítill um framtíð keisaraembættisins þrátt fyrir víðtækan stuðning almennings. Hann leyfði valdaræningjunum að hafa sína hentisemi og reyndi ekki að endurreisa einveldið. Hann eyddi síðustu tveimur árum ævi sinnar í útlegð í Evrópu og bjó einn við fremur fátæklegar aðstæður.

Valdatíð Pedros lauk því á óvenjulegan máta: Honum var steypt af stóli á hátindi vinsælda sinna og mörg helstu afrek hans voru fljótt gerð að engu á meðan við tók löng röð veikburða ríkisstjórna og hrina stjórnsýslu- og efnahagskreppna. Mennirnir sem höfðu gert Pedro útlægan fóru fljótt að líta á hann sem fyrirmynd sem brasilíska lýðveldið ætti að tileinka sér. Fáeinum áratugum eftir andlát hans var orðstír hans enn haldið hátt á lofti og mikill fögnuður braust út um land allt þegar líki hans var skilað til Brasilíu. Sagnfræðingar hafa ætíð haft mikið mat á keisaranum og jafnvel talið hann einn merkasta Brasilíumann fyrr og síðar.

Tilvísanir

breyta
  1. Barman, Roderick J. (1999). Citizen Emperor: Pedro II and the Making of Brazil, 1825–1891. Stanford: Stanford University Press. Bls. 85