Pablo Escobar

Kólumbískur eiturlyfjabarón (1949-1993)

Pablo Emilio Escobar Gaviria (1. desember 19492. desember 1993) var kólumbískur eiturlyfjabarón.

Pablo Escobar
Fangamynd af Pablo Escobar í Medellín árið 1977.
Fæddur1. desember 1949
Dáinn2. desember 1993 (44 ára)
Medellín, Kólumbíu
StörfEiturlyfjasali
MakiMaria Victoria Henao (g. 1976)
BörnSebastián Marroquín (1977)
Manuela Escobar (1984)

Pablo Escobar má telja í hópi atkvæðamestu glæpamanna 20. aldar. Um tíma var hann mjög fyrirferðarmikill í kókaínviðskiptum, auðgaðist gríðarlega og fjöldi mannrána og morða skrifast á hans reikning.

Æviágrip

breyta

Æskuár

breyta

Pablo Emilio Escobar Gaviria fæddist í þorpinu Rionegro, sem er í stjórnsýsluumdæminu Antioquia í Kólumbíu, en hann ólst upp í Envigado sem er útborg borgarinnar Medellín. Faðir hans hafði verið bóndi en starfaði við öryggisgæslu eftir að hann flutti úr sveitinni. Móðirin var kennari.

Skólaganga Escobars varð endaslepp. Hann var vart af barnsaldri þegar hann fór að selja tollsviknar sígarettur og falsaða lottómiða á götum Medellín. Sagt var að Escobar hefði stolið legsteinum af leiðum, slípað þá og selt síðan meðal annars smyglurum frá Panama. Þetta mun vera óstaðfest og móðir hans þverneitaði þessu. Brátt komst hann í tæri við þjófa, sem fengust aðallega við að stela bílum. Escobar sýndi þá strax skipulagshæfileika, varð aðalmaðurinn í þjófagenginu og breytti starfsaðferðum þess frá tilviljanakenndum þjófnuðum í markvissa glæpi þar sem ránin voru framin samkvæmt fyrirframgerðum áætlunum, réttum aðilum var mútað og þýfinu komið í verð á kerfisbundinn hátt.

Áttundi áratugurinn

breyta

Um tvítugt eða þar um bil komst Escobar í tæri við kókaínviðskipti. Hann varð brátt umsvifamikill á þeim vettvangi og byggði upp slíkt veldi að um tíma var hann án efa valdamesti maður Kólumbíu. Sagt er að Escobar hafi byrjað ferilinn sem kókaínsali á því að fara til Perú, kaupa þar kókaíndeig fyrir 30 dollara, flytja það til Kólumbíu, hreinsa það þar og selja síðan.

Árið 1975 var helsti kókaínbarón Medellín myrtur og Escobar tók brátt við hlutverki hans og varð foringi samtaka sem kölluðust Medellínhringurinn (Cartel de Medellín). Samtök þessi fengust við margvíslega ólöglega starfsemi þar sem eiturlyfjaverslun var þungamiðjan. Þessi umsvif jukust síðan með ævintýralegum hraða en árið 1989 taldi Forbes Magazine Escobar sjöunda ríkasta mann í heimi og áætlaði eignir hans jafnvirði 24 milljarða dollara.

Í maí 1976 var Escobar handtekinn þegar hann ætlaði að smygla kókaíni frá Ekvador til Kólumbíu en efnið var falið í varadekki. Escobar bauð mútur, sem ekki voru þegnar en lögfræðingum hans tókst að fá málið fellt niður og hann var látinn laus eftir nokkra mánuði í haldi. Lögreglumennirnir sem handtóku Escobar voru myrtir 1977, lögreglustjórinn var myrtur 1981 og dómari, sem gaf út handtökuskipun á hendur Escobar vegna morða lögreglumannanna, var felldur í skotárás 1986. Hér eftir setti Escobar áhrifamönnum gjarnan tvo kosti: plata o plomo (bókstafleg merking: silfur eða blý) þ.e. þiggja mútur eða verða drepinn.

Níundi áratugurinn

breyta

Um og laust eftir 1980 má segja að Medellínhringurinn undir stjórn Escobar hafi verið orðinn nær allsráðandi í útflutningi eiturlyfja frá Suður–Ameríku og um það bil 80% allra eiturlyfja á bandarískum markaði voru þangað komin fyir tilverknað Escobar og félaga hans. Escobar beitti skefjalaust mútum og hótunum og ruddi öllum hindrunum úr vegi með góðu eða illu. Á velmektardögum Escobars var stjórnkerfi Kólumbíu gegnsýrt af spillingu en það hentaði honum prýðilega.

Talið er að Escobar hafi staðið fyrir fjölda hryðjuverka, meðal annars morðum þriggja forsetaframbjóðanda og árás á Hæstarétt Kólumbíu þar sem um það bil helmingur dómaranna féll. Erfitt er að staðfesta margt af þessu tagi meðal annars vegna þess að vinstri sinnuð skæruliðasamtök, kölluð M – 19, unnu hryðjuverk og sama er að segja um Calihringinn, sem fór að ryðja sér til rúms nokkru fyrir 1990 og varð keppinautur Medellínhringsins í eiturlyfjabransanum.

Escobar naut mikils velvilja meðal fátækra íbúa Medellín enda hrutu ýmsir molar af borðum hans til þessa fólks en hann útvegaði mörgum fátæklingum vinnu, matvæli og læknishjálp, lét byggja íbúðarhús og samkomusali og kom jafnvel dýragarði á laggirnar. Hann hafði mikinn áhuga á fótbolta og lét gera flóðlýsta knattspyrnuvelli og greiddi ýmsan kostnað fótboltaliða svo sem búninga og fleira.

Escobar kom sér upp víðlendum búgarði við Magdalenafljót. Hann kallaði búgarðinn Nápoles en hann var þá kominn í samband við ítölsku mafíuna. Á búgarði þessum var flest eins gerist í ævintýrum. Ekkert var til sparað í innanstokks- og skrautmunum og ekki var skortur á farartækjum, svo sem þyrlum og flugvélum af ýmsum gerðum. Sagt var að hann ætti tvo fjarstýrða kafbáta sem hann notaði til kókaínflutninga.

Frá Nápoles stjórnaði Escobar viðskiptaveldi sínu og þar tók hann á móti gestum. Staðfest er að á árinu 1983 kom einræðisherra Panama, Manuel Noriega, í heimsókn en Noriega þáði rausnarlegar greiðslur fyrir að láta afskiptalausan flutning á kókaíni sem flutt var til Panama og þaðan til Bandaríkjanna.

Tíundi áratugurinn

breyta
 
Kólumbísk árásarsveit stendur sigri hrósandi yfir líki Escobars árið 1993.

Um og eftir miðjan níunda áratuginn fóru stjórnvöld í Kólumbíu að láta undan þrýstingi Bandaríkjamanna hvað varðaði framsal kókaínbaróna til Bandaríkjanna þar sem réttað var í málum þeirra. Escobar reyndi í fyrstu að beita áhrifum sínum við kólumbíska ráðamenn en þegar honum varð ljóst að það dygði ekki til bauðst hann til að fara í fangelsi í Kólumbíu gegn loforði um að hann yrði ekki framseldur. Boðinu var tekið. Escobar fór í fangelsi árið 1991 og leist illa á aðbúnað í fangelsinu. Hann hófst því handa um breytingar og brátt urðu vistarverur hans líkari höll en fangelsi og Escobar lifði við munað. Fangelsið var rammlega víggirt til þess að óboðnir gestir gengju ekki í bæinn. Aftur á móti tók hann á móti fjölda gesta meðal annars viðskiptafélögum og vændiskonum. Sumir komu nauðugir eins og til dæmis tveir fyrrum viðskiptafélagar, sem hugðust ryðja sér til rúms meðan Escobar væri fjarri góðu gamni. Þessir tveir fóru ekki út úr fangelsinu að heimsókn lokinni, að minnsta kosti ekki lifandi, enda stjórnaði Escobar kókaínhringnum úr þessu svokallaða fangelsi. Hann brá sér líka hindrunarlaust af bæ ef honum bauð svo við að horfa meðal annars til að fylgjast með kappleikjum í knattspyrnu. Víða um heim var gert gys að stjórnvöldum í Kólumbíu sem létu þetta sjónarspil viðgangast.

Í júlí árið 1992 var ákveðið að flytja Escobar í tryggara fangelsi og koma í veg fyrir að hann gæti haldið áfram sinni fyrri iðju. Hann komst á snoðir um þessar fyrirætlanir og flúði í tæka tíð. Víðtæk leit var gerð að honum og lögðu Bandaríkjamenn þar hönd á plóg og félagar í Calihringnum voru líka hjálplegir en þeir sáu fram á að losna við skæðan keppinaut.

Leitin að Escobar stóð í sextán mánuði og kostaði mörg mannslíf bæði lögreglumanna og skósveina Escobars. Á afmæli sínu 1. desember 1993 hringdi hann í fjölskyldu sína en hafði samtölin svo stutt að þeir, sem hleruðu, gátu ekki rakið símtölin. Daginn eftir urðu honum á þau mistök að tala of lengi við konu sína, aðsetur hans fannst og sautján manna árásarsveit var send á vettvang. Escobar fór út á þak og hugðist flýja en til hann sást og hnitmiðuð skothríð varð honum að bana á húsþaki í Medellín.

Escobar var kvæntur og átti einn son og eina dóttur.

Umfjöllun

breyta

Ýmsir hafa fjallað um ævi Escobars í máli og myndum. Meðal annarra ritaði bróðir hans bók um ævi hans. Bókin heitir The Accountants Story.

Heimildir

breyta
  • Montefiore, Simon Sebag: Monsters History's most evil Men and Women. London: Quercus, 2009.
  • Strong, Simon: Whitewash Pablo Escobar and the Cocaine Wars. London: Pan Books, 1996.
   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.