Hannibal Barca (fæddur 247 f.Kr., dáinn milli 183 og 181 f.Kr.) var hershöfðingi frá Karþagó. Hann stjórnaði her Karþagómanna í öðru púnverska stríðinu og vann marga sigra á Rómverjum. Hannibal er af mörgum talinn einn mesti herforingi sögunnar. Hann lifði á tímum spennu í Miðjarðarhafinu þar sem Rómaveldi var rísandi norðan megin við Miðjarðarhafið á meðan Karþagó var rísandi sunnan megin við það. Bæði veldin börðust fyrir yfirráðum Miðjarðarhafsins. Í öðru púnverska stríðinu tók Hannibal her frá Íberíuskaganum yfir Pýreneafjöllin og Alpana, til Norður-Ítalíu.

Ljósmynd af Hannibal tekin úr Þjóðminjasafnið í Napólí

Á meðan á innrás hans stóð barðist hann oft við Rómverjana og fékk íbúa Rómaborgar sjálfrar til að skjálfa af hræðslu. Eftir frægustu orrustur hans, við Trebiu, Trasimene og Cannae, tók hann næst stærstu borg Ítalíu, Capua, en gat ekki ráðist á sjálfa Rómaborg því her hans var ekki nógu sterkur. Hann hafði her sinn í Ítalíu í áratug og Karþagómenn pirruðust yfir ákvörðun hans að ráðast ekki á Rómaborg. Rómversk innrás inn í Norður-Afríku neyddi Hannibal til að taka her sinn aftur til Karþagó þar sem hann var sigraður í orrustunni við Zama. Karþagómenn neyddust til að senda hann í útlegð. Eftir langa útlegð þar sem hann var ráðgjafi fáeinna manna, þar á meðal Antiokkosar þriðja, voru Rómverjarnir komnir á hæla hans og hann framdi sjálfsmorð frekar en að gefast upp fyrir Rómverjunum.

Enn er Hannibal talinn einn af mestu hershöfðingjum allra tíma og meira að segja Rómverjarnir notuðu herkænskubrögð hans. Theodore Ayrault Dodge kallaði hann „föður herkænskunnar“ af þeirri ástæðu og menn eins og Napoleon Bonaparte og Arthur Wellesley kölluðu hann „færan hershöfðingja“.

Bakgrunnur og byrjun ferils

breyta

Hannibal Barca („miskunn Baals“) var sonur Hamilcar Barca. Eftir ósigur Karþagó í fyrsta púnverska stríðinu ætlaði Hamilcar sér að bæta efnahag ríkisins. Til þess að geta þetta þurfti hann að fara til Spánar og gera Spánverjana að þegnum Karþagó, hvort sem þeir vildu það eða ekki. Sjóher Karþagó var í svo slæmu ástandi að hann gat ekki siglt beint til Íberíu frá Karþagó. Í staðinn þurfti Hamilcar að fara vestur að Súlum Herkúlesar og ferja herinn sinn yfir til Gíbraltar. Samkvæmt Hamilcar kom hinn ungi Hannibal að föður sínum þegar hann var að færa guðunum fórnir áður en hann fór til Íberíu og grátbað faðir sinn að fá að koma með. Hamilcar játaði og neyddi Hannibal til að sverja að svo lengi sem hann lifði þá yrði hann aldrei vinur Róm. Hannibal sagði þá við föður sinn „Ég sver að um leið og aldurinn leyfir... muni ég nota eld og stál til að handtaka örlög Róm.“ Sumir fræðimenn telja að Hannibal hafi svarið eið við altari Baals að vera aldrei vinur Rómar og að reiði Barca feðganna sé bara skoðun Rómverja eftir stríðið.

Þegar faðir Hannibals var drepinn í orrustu í Íberíu tók mágur Hannibals, Hasdrúbal, við völdunum yfir her Hamilcars. Hasdrúbal reyndi að styrkja stöðu Karþagó í Íberíu í staðinn fyrir að taka fleiri landsvæði og gerði meira að segja sáttmála við Rómaveldi um að Karþagó myndi ekki fara lengra en Ebro ánna svo lengi sem Rómaveldi færi ekki fyrir sunnan hana.

Þegar mágur hans dó (221 f. Kr.) var Hannibal gerður að foringja hersins. Rómverski fræðimaðurinn Titus Livius sagði þetta um hinn unga Hannibal: „Um leið og hann kom á staðinn... glöddust gömlu hermennirnir yfir því að fá ungan Hamilcar aftur; sama bjarta útlitið; sami eldurinn í augum hans, sami svipurinn og andlitsyfirbragðið. Aldrei var einn og sami andinn svo hæfur til að mæta andstöðu, til að hlýða eða til að skipa...“ Eftir að hann tók völdin eyddi hann tveimur árum í að styrkja stöðu sína í Íberíu fyrir sunnan Ebro ánna. Rómaveldi óttaðist vaxandi styrk Hannibals í Íberíu og gerði þess vegna samkomulag við borgina Sagantum sem lá ágæta lengd sunnan við Ebro ánna og sagði borgina verndarríki sitt. Hannibal taldi þetta brot á sáttmála Hasdrúbals og lagði umsát um borgina. Hún féll eftir átta mánuði. Róm tók þessu illa og taldi þetta vera brot á sáttmálanum og krafðist réttlætis frá Karþagó. En Hannibal var vinsæll og þess vegna bætti karþagóska ríkið ekki fyrir þetta eða neitaði aðild og við enda ársins fékk Hannibal stríðið sem hann vildi. Hannibal tók herinn sinn fljótlega í gegnum Íberíuskagann og yfir Suður-Gallíu (núverandi Frakkland).

Annað púnverska stríðið í Ítalíu (218–203 f.Kr.)

breyta

Ferðin til Norður-Ítalíu

breyta
 
Leiðin sem Hannibal fór.

Hannibal fór frá Nýju Karþagó (Spænsk borg stofnuð af Hasdrúbal um 230 f.Kr.) seint um vorið, 218 f.Kr. Hann barðist við og vann norðanverðu ættbálkana í Íberíu til að komast að Pýreneafjöllum. Hann skildi eftir 11.000 hermenn til að verja nýju löndin. Við Pýreneafjöll þurfti hann að skilja eftir 11.000 íberíska menn til viðbótar sem sýndu tregðu við að fara frá heimalandinu. Hannibal fór frá Íberíu inn í gallísk lönd með 50.000 hermenn á fótum og 9.000 riddara, það er að segja, menn á hestbaki.

Hannibal gerði sér grein fyrir því að hann ætti enn þá eftir að fara yfir Pýreneafjöllin, Alpana og margar ár og að auki þyrfti hann að sjá um mótstöðu frá Göllum en hann þurfti að ganga í gegnum löndin þeirra. Hann barðist í gegnum lönd Galla en hafði lítið á móti þeim og samdi frið við gallísku höfðingjana á leiðinni. Hann kom til Rhône árinnar í september áður en Rómverjarnir gátu gert neitt til að stöðva hann. Á þessum tíma var herinn hans 38.000 hermenn, 8.000 riddarar og 37 stríðsfílar.

Hann komst fram hjá þeim innfæddu við Rhône sem að höfðu reynt að hindra hann og hann forðaðist rómverskan her sem sendur var til að vinna gegn honum í Gallíu. Hann gekk áfram og þegar tók að hausta var hann kominn að rótum Alpanna. Ganga hans yfir Alpana er eitt af mestu afreksverkum hersögunnar. Hannibal komst yfir fjöllin þrátt fyrir margar hindranir eins og slæmt veður og landsvæði, óvæntar árásir innfæddra og það að stjórna margvíslegum her með mönnum með önnur tungumál og af öðrum þjóðernum. Hann missti helming manna sinna og marga fíla á leið sinni yfir Alpana en hann komst til Norður-Ítalíu á endanum. Hann virðist hafa vitað frá byrjun að hann gæti ekki treyst á hjálp frá Íberíu en sagnfræðingurinn Adrian Goldsworthy bendir á að tölurnar um hversu marga hermenn hann tók frá Íberíu séu ótraustar.

Orrustan við Trebia

breyta

Hættuleg herganga Hannibals tók hann inn í rómversk yfirráðasvæði og ónýtti tilraunir óvinarins til að leysa aðalvandamálið á erlendri grundu. Skyndileg koma hans til Pó dalsins gerði honum kleift að skilja Galla dalsins frá nýju bandalagi þeirra við Rómverja áður en Róm gat stöðvað uppreisnina.

 
Orrustan við Trebia. Blái liturinn stendur fyrir Karþverja en sá rauði fyrir Rómverja.

Ræðismaðurinn, Publius Cornelius Scipio, sem stjórnaði rómverska hernum sem sendur var til að stöðva Hannibal, bjóst ekki við því að Hannibal myndi reyna að fara yfir Alpana þar sem Rómverjarnir voru tilbúnir að heyja stríðið í Íberíu. Með of lítinn herafla enn þá í Gallíu gerði Scipio tilraun til að stöðva Hannibal. Hann ákvað snögglega að sigla her sinn til Ítalíu sem hann og gerði og var nógu snöggur til að stöðva Hannibal. Eftir litla hvílu til að leyfa hernum að ná sér tryggði Hannibal fyrst afturhluta sinn með því að sigra óvinveitta Taurini ættbálkinn. Herir Scipios og Hannibals hittust í fyrsta skiptið í smávægilegum bardaga við Ticinus þar sem meirihluti 6.000 riddara Hannibals börðust við allt riddaralið Scipios og hluta velites manna hans (velites hermenn börðust með léttum kastspjótum og ekki í návígi nema tilneyddir). Hannibal vann bardagann og Scipio særðist illa. Þetta neyddi Rómverjana til að fara af sléttum Lombardy. Þótt þessi sigur hafi verið smávægilegur áorkaði hann miklu, margir Gallar gengu í lið Hannibals og með Göllunum var her Hannibals núna 40.000 menn. Nú var Hannibal tilbúinn til að gera innrás í Ítalíu. Scipio hopaði yfir Trebia ánna og skipaði í herbúðir hjá Placentia bænum og beið eftir liðsauka.

Öðrum ræðismanni, Semproniusi Longusi, var skipað að taka her sinn frá Sikiley til að hjálpa Scipio jafnvel áður en fréttir af ósigrinum við Ticinus bárust Róm. Til að geta komist til Scipio þurfti Sempronius að ganga eftir veginum á milli Placentiu og Ariminum. Þetta vissi Hannibal og settist þess vegna að á veginum og beið eftir Semproniusi en á sama tíma tók hann Clastidium til að ná í birgðir. Sempronius var fljótur að nýta sér þessa truflun og laumaðist fram hjá Hannibal og komst til Scipio. Þar sem Scipio var meiddur var Sempronius yfir báðum herjunum og þar sem það var ekki langt í kosningarnar var hann æstur í bardaga áður en Scipio batnaði og tæki völdin. Því miður fyrir Sempronius vissi Hannibal af þessum æsingi hans. Núna var kominn desember og snjórinn þakti jörðina. Undir skjóli nætur laumaði Hannibal 1.000 hermönnum og 1.000 riddurum, undir stjórn bróður síns Mago, að Trebia ánni, þar sem þeir földu sig. Morguninn eftir það sendi Hannibal riddaralið til að plata Sempronius út úr herbúðum sínum. Sempronius sendi fyrst riddaralið sitt á eftir þeim og á eftir þeim, allan herinn. Her Semproniusar var ekki búinn að borða morgunmat og eftir að hafa vaðið yfir Trebia ánna voru þeir svo þreyttir og kaldir að þeir gátu varla haldið á vopnunum. Her Hannibal var aftur á móti óþreyttur, ókaldur og saddur. Spjótkastarar beggja herja börðust fyrst lítillega en menn Semproniusar stóðu sig illa og hopuðu fljótlega fyrir aftan herinn. 36.000 hermenn, 4.000 riddarar og 3.000 Gallar voru í her Semproniusar, í her Hannibals voru 20.000 afrískir, spænskir (íberískir) og gallískir hermenn, 10.000 riddarar og 15 fílar. Eftir að riddarar og fílar Hannibals gjörsigruðu riddara Semproniusar skullu þeir á hliðum Rómverjanna og Mago skall á bakhlið þeirra. Það leið ekki á löngu fyrr en hungraðir og þreyttir Rómverjarnir brotnuðu niður og reyndu að flýja en flestum þeirra var slátrað, fyrir utan þá sem voru fremst, þeir komust í gegnum fremri her Hannibals og hopuðu til Placentia, þar á meðal var Sempronius sem var ekki kosinn ræðismaður aftur en kosningarnar voru ástæða hans fyrir æsingnum sem varð honum að falli.

Orrustan við Trasimene

breyta

Þessi sigur tryggði stöðu Hannibals í Norður-Ítalíu. Það næsta sem hann gerði var að láta þak yfir höfuð hersins og gera hann tilbúinn fyrir veturinn með Göllunum. Stuðningur Gallanna minnkaði og minnkaði þannig að vorið 217 f. Kr. ákvað Hannibal að finna áreiðanlegri starfsmiðstöð lengra suður. Cnaeus Servilius og Gaius Flaminius, nýju ræðismenn Rómar, bjuggust við því að Hannibal myndi halda áfram til Rómar þannig að þeir tóku heri sína til eystri og vestri leiðanna sem Hannibal yrði að ganga um ef hann ætlaði sér að fara til Rómar.

 
Orrustan við Trasimene.

Það var ein önnur leið til mið-Ítalíu, hjá mynni Arno. Þessi leið var risastór mýri og það flæddi úr henni meira en venjulega þessa árstíð. Það var mikið af vandamálum á þessari leið og það vissi Hannibal en samt var þetta öruggasta og fljótlegasta leiðin til mið-Ítalíu. Pólýbíos segir að menn Hannibals hafi, í fjóra daga og þrjár nætur, gengið leið sem var undir vatni og að þeir hafi þurft að þola gríðarlega þreytu og löngun til að sofa. Herinn komst óhindraður í gegnum Arnó ána, sem virtist ófær í fyrstu, og Apennínafjöllin (þar sem Hannibal missti annað auguð út af „conjunctivitis“ sjúkdómnum) en missti stóran hluta hersins, þar á meðal alla fílana sem eftir voru, á láglendum Arnó sem þakin voru mýrum.

Er hann kom til Etrúríu um vorið 217 f. Kr. ákvað Hannibal að ginna rómverska herinn sem Flaminius stjórnaði í orrustu á skilmálum Hannibals með því að leggja í eyði svæðið sem Flaminius átti að vernda. Pólýbíos segir okkur að „hann [Hannibal] taldi að ef hann færi fram hjá herbúðunum og niður í héraðið fjær, gæti Flaminius (að hluta til vegna ótta við minnkun vinsælda og að hluta til vegna pirrings) ekki horft á eyðileggingu landsins aðgerðarlaus heldur myndi hann elta hann sjálfkrafa... og gefa honum tækifæri til árásar.“ Á sama tíma reyndi hann að spilla hollustu bandamanna Rómverja með því að sanna að Róm gæti ekkert gert til að vernda þá. Þrátt fyrir allt þetta var Flaminius enn með allan herinn í Arretium. Þar sem hann gat ekki ginnt Flaminius í orrustu með eyðileggingu marseraði Hannibal djarflega á vinstri hlið óvinarins og gerði Flaminiusi ókleift að komast til Rómar, eða Róm að komast til hans (með þessu framkvæmdi Hannibal fyrstu stefnubreytingu óvinahers sögunnar). Hannibal gékk áfram eftir hálendi Etrúríu og æsti Flaminius út í hraða eftirför. Hannibal gat núna gert fyrirsát og með því að kveikja elda á hæð langt í burtu plataði hann Flaminius og fékk hann til að halda að Hannibal væri mun lengra í burtu en hann í raun var. Er Flaminius gékk eftir þröngum vegi við bakka Trasimene árinnar réðst Hannibal á óviðbúinn herinn og slátraði honum og Flaminiusi sjálfum líka. Nú var enginn her eftir sem gat hindrað för hans til Rómaborgar en hann vissi að án réttu tækjanna (svo sem slöngvivélum) gæti hann ekki tekið höfuðborgina. Í staðinn ákvað hann að nýta sér sigur sinn með því að fara til mið- og Suður-Ítalíu og hvetja til uppreisnar gegn Róm. Eftir orrustuna við Trasimene sagði Hannibal, „Ég er ekki kominn til að berjast við Ítali, heldur fyrir Ítali gegn Róm.“

Rómverjarnir gerðu Fabíus Maximus að alræðismanni (dictator) og hann tók upp fabíanska stjórnarstefnu sem var fráhvarf frá rómverskum siðum. Hann neitaði að heyja orrustu við andstæðing sinn og lét marga rómverska heri nálægt Hannibal til að takmarka hreyfingu hans.

Eftir að hafa eyðilagt Apúlíu án þess að takast að ginna Fabíus til orrustu ákvað Hannibal að ganga í gegnum Samnium til Campaníu sem var með ríkustu og frjósömustu héruðum Ítalíu. Hann vonaði að eyðilegging svæðisins myndi fá Fabíus til að slást. Fabíus elti eyðileggingarslóðina sem Hannibal skildi eftir sig en neitaði enn að berjast og hélt áfram að vera í varnarstöðu. Þessi stjórnarstefna Fabíusar var óvinsæl hjá mörgum Rómverjum sem töldu þetta vera bleyði.

Þegar leið á árið ákvað Hannibal að það væri óviturt að eyða vetrinum í eyðilögðu láglendi Campaníu en Fabíus hafði lokað öllum leiðum út úr Campaníu. Til að forðast þetta, plataði Hannibal Rómverjana til að halda að karþagóski herinn ætlaði að flýja í gegnum skóginn. Þegar Rómverjarnir færðu sig í átt að skóginum tók her Hannibals skarðið undir sig og komst í gegnum það án mótsöðu. Fabíus var nógu nálægt til að ráðast á Hannibal en í þetta skipti var gætni hans honum ekki til góðs. Fabíus fann keim af herbragði og varð þess vegna kyrr. Hannibal fann þægilegt hýbýli fyrir herinn á sléttum Apúlíu þar sem hann var yfir veturinn. Adrian Goldsworthy sagði, um það sem Hannibal gerði til að leysa úr flækjum hersins, þetta: „sígild fornmennsk hershöfðingjalist, sem rataði í nærri því hverja einustu sögulegu frásögn stríðsins og var seinna notað í kennslubókum“. Álit almúgans á Fabíusi dvínaði eftir þetta og fljótlega eftir á lauk alræðisstjórn Fabíusar.

Heimildir

breyta