Oddsdalur er syðsti dalurinn inn úr Norðfirði á Austfjörðum. Inn úr Norðfirði ganga þrír dalir: Fannardalur er nyrstur, þá Seldalur og syðstur er Oddsdalur. Föst búseta hefur verið í Fannardal og Seldal í aldanna rás, en ekki í Oddsdal. Oddsdalur er umlukinn tignarlegum fjallahring.

Hengifoss í Hengifossá. Áin fellur úr Oddsdal niður í Seldal. Hátún í bak.

Samgönguæð breyta

Samgöngur á landi hafa gegnum aldirnar farið um Oddsdal. Fyrrum fóru ferðamenn fótgangandi eða á hestum úr Norðfirði, upp Hátún, yfir Oddsskarð, niður í Sellátradal og þaðan til Eskifjarðar. Eftir að bílvegur var lagður yfir Oddsskarð 1949 hefur vegurinn legið eftir endilöngum Oddsdalnum. Árið 1976 voru Oddsskarðsgöng tekin í notkun. Göngin eru í meira en 600 metra hæð.Göngin eru 605 metra löng.

Fugla- og dýralíf breyta

Á Oddsdal verpa fjölmargir fuglar. Fyrst ber þar að nefna rjúpu, einnig verpa þarna algengustu spörfuglar eins og þrestir, mikið er einnig um mófugla: spóa, heiðlóu og hrossagauk. Grágæsir verpa þar til fjalla. Hrafnar verpa í klettum og giljum. Hreindýr fara mikið um Oddsdal á vetrum og á vorin. Þau dvelja þar á beit. Dalurinn er einnig farleið milli hálendisins og svæða á fjörðum þar sem dýrin dvelja langdvölum t.d. Vaðlavík og Sandvík.

Steinaríki breyta

Margar steina tegundir eru í Oddsdal og nágrenni. Á svæðinu finnast meðal annars jaspisar og geislasteinar.

Gróðurfar breyta

Oddsdalurinn er grösugur neðan til, en lítið er um birkikjarr, kjarr er aðeins neðst í dalnum og er mun minna en í Fannardal og Seldal. Sjaldgæfar plöntur eins og jöklaklukka og lotsveifgras finnast í Oddsdal.

Skíðasvæði/Gamli skíðaskálinn breyta

Upp úr 1950 reistu Norðfirðingar skíðaskála í Oddsdal. Þar var skíðasvæði Norðfirðinga þar til skíðamiðstöðin í Oddsskarði var byggð 1978. Gamli skíðaskálinn stendur neðst á framhlaupi í svokölluðum Grashólum neðarlega í Oddsdal. Gamli skálinn þjónaði Norðfirðingum til 1978. Skálinn er nú í einkaeign. Eigandi er Brynja Garðarsdóttir í Neskaupstað.

Gönguleiðir breyta

Á Oddsdal eru fjölbreyttar gönguleiðir og gott gönguskíðaland. Hægt er að ganga á fjallatinda og einnig fara fjallvegi bæði til Hellisfjarðar og Viðfjarðar sem og yfir til Reyðarfjarðar.

Um Op frá Kambabrekkum í Reyðarfjörð:

Gengið upp í Op með Lakahnaus á hægri hönd.Farið upp í um 650 metra hæð. Gengið fyrir botn Hellisfjarðar, niður í Helgustaðardal, komið við í Helgustaðarnámunni. Náman var vel þekkt silfurbergsnáma. Þetta er gömul verslunarleið Norðfirðinga yfir í Breiðuvík.

Frá Geithúsaá um Vegahnjúka til Hellisfjarðar.

Gengið frá bílastæði við Geithúsaá. Gengið upp með ánni að austan, upp á brún Kolahlíðar og þaðan tekin stefnan yfir eða framhjá Heystæðismýri gengið að Vegahnjúkum.

Gamla þjóðleiðin, frá Seldalsá að Oddsskarði.

Gengið frá mótum Seldalsár og Hengifossár, upp að Hengifossi í átt að Hátúni. Gengið ofan við Blóðbrekkur að Oddsskarði.

Ár og fossar breyta

Áin sem rennur eftir Oddsdal nefnist Hengifossá. Einnig nefnd Oddsdalsá. Í hana rennur síðan minni á er nefnist Geithúsaá. Margir fossar eru í Hengifossá en aðeins tveir eru nafngreindir, Svartifoss og Hengifoss.

Örnefni breyta

Blóðbrekkur
Mýrarbrekkur undir Hátúni.
Brattabrekka
Brekka á þjóðleiðinni upp Hátúnið.
Bröttubrekkuhjalli
Hjalli ofarlega á þjóðleiðinni upp Hátúnið.
Geithúsaá
Þverá sem rennur í Hengifossá.
Goðatindur
Tindur sunnanmegin í Oddsdal og Sellátradal.
Grashólar
Fremsti hluti framhlaups, þar stendur gamli skíðaskálinn.
Grænafell
Ljóst fjall sunnanmegin í dalnum.
Hátún
Formfagurt fjall milli Oddsdals og Seldals.Hátúnið er 747 metra hátt.
Hengifoss
Foss neðst í Oddsdal.
Hengifossá
Vatnslítil á sem rennur eftir Oddsdal.(Oddsdalsá)
Huldukonusteinn
Áningasteinn framarlega í Hátúninu.
Höllusteinn
Stór steinn í Blóðbrekkum sem tengist þjóðsögu.
Höllusteinsbrekka
Brekkan þar sem Höllusteinn er.
Kambabrekkur
Brekkurnar ofan við Svartafoss.
Kolahlíð
Hlíðin milli Geithúsaár og Gamla skíðaskála.
Lakahnaus
Eldfjallatappi innst í Oddsdal.
Lágdalsmýri
Mýri neðst í Oddsdal, ræst fram þegar akvegurinn var gerður.
Magnúsarklettar
Klettar innst í Oddsdal.
Magnúsarskarð
Skarð milli Oddsdals og Sellátradals.
Magnúsartindur
Tindur milli Oddsskarðs og Magnúsarskarðs.
Oddsskarð
Skarð milli Oddsdals og Sellátradals, gamla þjóðleiðin.
Oddsdalsá
Heiti árinnar vestan Geithúsaár.
Op
Skarð milli Lakahnauss og Grænafells.
Svartafjall
Hæsta fjall við Oddsdal.
Svartifoss
Foss í Oddsdal miðjum.
Vegahnjúkur
Fell milli Norðfjarðar og Hellisfjarðar.
Viðarhólar
Grösugir hólar ofan við Grashóla.
Þorgerðarbotnar
Grösugir botnar fyrir ofan Viðarhóla.