Notandi:Arnorkr/sandbox
Snið:User sandbox Gunnarshólmi er kvæði eftir Jónas Hallgrímsson. Það var ort eftir leiðangur Jónasar til Íslands sumarið 1837 þegar hann gisti hjá vini sínum og Fjölnismanni Tómasi Sæmundarsyni, presti á Breiðabólsstað í Fljótshlíð. Kvæðið birtist síðan í 4. árgang Fjölnis árið 1838.
Bygging
breytaKvæðið hefst á formála sem segir frá litlum grónum hólma á Markarfljótsaurum sem kallast Gunnarshólmi. Síðan koma tvær þríhendur sem eru 33 línur hvor. Sú fyrri er landlýsing skáldsins þar sem það stendur á Gunnarshólma en sú seinni byggir á 75. kafla Brennu-Njáls sögu. Gunnar á Hlíðarenda og bróðir hans Kolskeggur eru á leið til skips. Þeir hafa verið dæmdur til að fara af landi brott fyrir víg Þorgeirs Otkelssonar. Hestur Gunnars drepur fæti á leiðinni og verður Gunnari litið til hlíðarinnar og mælir sín fleygu orð: „Fögur er hlíðin svo að mér hefur hún aldrei jafn-fögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun ég ríða heim aftur og fara hvergi.“ Í lokin koma tvær átthendur. Sú fyrri er túlkun skáldsins á ákvörðun Gunnars. Sú seinni er eins konar niðurlag þar sem skáldið tekur saman þær breytingar sem orðið hafa á landi síðan Gunnar var uppi.
Gunnarshólmi
breytaSunnan á Íslandi, í héraði því sem gengur upp af Landeyjum millum Eyjafjalla og Fljótshlíðar, er allmikið sléttlendi og hefur fyrrum verið grasi gróið en er nú nálega allt komið undir eyrar og sanda af vatnagangi. Á einum stað þar á söndum fyrir austan Þverá stendur eftir grænn reitur óbrotinn og kallaður Gunnarshólmi því það er enn sögn manna að þar hafi Gunnar frá Hlíðarenda snúið aftur þegar þeir bræður riðu til skips, eins og alkunnugt er af Njálu. Þetta er tilefni til smákvæðis þess, sem hér er prentað neðan við.
Skein yfir landi sól á sumarvegi
og silfurbláan Eyjafjallatind.
Gullrauðum loga glæsti seint á degi.
Við austur gnæfir sú hin mikla mynd
hátt yfir sveit og höfði björtu svalar
í himinblámans fagurtæru lind.
Beljandi foss við hamrabúann hjalar
á hengiflugi undir jökulrótum
þar sem að gullið geyma Frosti og Fjalar.
En hinum megin föstum standa fótum,
blásvörtum feldi búin, Tindafjöll
og grænu belti gyrð á dalamótum.
Með hjálminn skyggnda hvítri líkan mjöll
horfa þau yfir heiðavötnin bláu
sem falla niður fagran Rangárvöll
þar sem að una byggðarbýlin smáu,
dreifð yfir blómguð tún og grænar grundir.
Við norður rísa Heklutindar háu.
Svell er á gnípu. Eldur geisar undir.
Í ógnadjúpi, hörðum vafin dróma.
Skelfing og Dauði dvelja langar stundir.
En spegilskyggnd í háu lofti ljóma
hrafntinnuþökin yfir svörtum sal.
Þaðan má líta sælan sveitarblóma,
því Markarfljót í fögrum skógardal
dunar á eyrum, breiða þekur bakka,
fullgróinn akur, fegurst engjaval,
Þaðan af breiðir hátt í hlíðarslakka,
glitaða blæju, gróna blómum smám.
Klógulir ernir yfir veiði hlakka
því fiskar vaka þar í öllum ám.
Blikar í lofti birkiþrastasveimur
og skógar glymja, skreyttir reynitrjám.
Þá er til ferðar fákum snúið tveimur
úr rausnargarði hæstum undir Hlíð
þangað sem heyrist öldufallaeimur
því hafgang þann ei hefta veður blíð
sem voldug reisir Rán á Eyjasandi
þar sem hún heyir heimsins langa stríð.
Um trausta strengi liggur fyrir landi
borðfögur skeið með bundin segl við rá.
Skínandi trjóna gín mót sjávargrandi.
Þar eiga tignir tveir að flytjast á
bræður af fögrum fósturjarðarströndum
og langa stund ei litið aftur fá.
Fjarlægum ala aldur sinn í löndum,
útlagar verða vinaraugum fjær.
Svo hafa forlög fært þeim dóm að höndum.
Nú er á brautu borinn vigur skær
frá Hlíðarenda hám því Gunnar ríður,
atgeirnum beitta búinn. Honum nær
dreyrrauðum hesti hleypir gumi fríður
og bláu saxi gyrður yfir grund.
Þar mátti kenna Kolskegg allur lýður.
Svo fara báðir bræður enn um stund.
Skeiðfráir jóar hverfa fram að fljóti.
Kolskeggur starir út á Eyjasund
en Gunnar horfir hlíðarbrekku móti.
Hræðist þá ekki frægðarhetjan góða
óvinafjöld þó hörðum dauða hóti.
„Sá eg ei fyrr svo fagran jarðargróða.
Fénaður dreifir sér um græna haga.
Við bleikan akur rósin blikar rjóða.
Hér vil eg una ævi minnar daga
alla sem guð mér sendir. Farðu vel,
bróðir og vinur!“ – Svo er Gunnars saga.
Því Gunnar vildi heldur bíða hel
en horfinn vera fósturjarðarströndum.
Grimmilegir fjendur, flárri studdir vél,
fjötruðu góðan dreng í heljarböndum.
Hugljúfa samt eg sögu Gunnars tel
þar sem eg undrast enn á köldum söndum
lágan að sigra ógnabylgju ólma
algrænu skrauti prýddan Gunnarshólma.
Þar sem að áður akrar huldu völl
ólgandi Þverá veltur yfir sanda.
Sólroðin líta enn hin öldnu fjöll
árstrauminn harða fögrum dali granda.
Flúinn er dvergur, dáinn hamratröll,
dauft er í sveitum, hnipin þjóð í vanda,
en lágum hlífir hulinn verndarkraftur
hólmanum þar sem Gunnar sneri aftur.
Greining
breytaÍ fyrri þríhendunni er fögur landlýsing þar sem öll náttúran er persónugerð. Sólin skreytir tind Eyjafjalla með geislum sínum, Eyjafjöll baða höfuð sitt í tærri lind himinsins og Seljalandsfoss hjalar við hamrabúann. Tindafjöllum er lýst eins og hetju í svörtum feldi, gyrð grænu belti og með hvítan og gljáfægðan hjálm á höfði. Þau standa föstum fótum og horfa yfir Rangárvöll líkt og Gunnar á Hlíðarenda gerði forðum. Persónugerving náttúrunnar er dæmigerð fyrir rómantíska tímabilið og heimspekingar þess tíma, s.s. Hinrik Steffens og Friðrik Schelling, töldu að öll náttúrunni væri lifandi og hefði anda og meðvitund. Steffens taldi að náttúran væri sýnilegur andi en andinn ósýnileg náttúra. Þessi hugmynd er sprottinn af hinum þýska ídealisma 19. aldar: Á bak við efnisheiminn er önnur og andleg tilvera, eilíf og óumbreytanleg.
Í fyrri þríhendunni er sótt til goðafræðinnar. Frosti og Fjalar geyma gull undir Eyjafjallajökli. Dvergarnir Frosti og Fjalar eru taldir upp í Dvergatali Völuspár Í Skáldskaparmálum segir einnig að Fjalar og félagi hans Galar hafi myrt Kvasi, mann sem Æsir skópu úr griðamarki Ása og Vana, og safnað blóði hans í ker og bruggað úr því mjöð. Á Íslandi eru engar gullnámur en skáldskapurinn er gulls ígildi. Gullið sem dvergarnir geyma er því skáldskapurinn. Enn er sótt til goðafræðinnar þegar sagt er frá Skelfingu og Dauða vafin dróma undir Heklu. Drómi er annar fjöturinn sem Æsir reyndu á Fenrisúlfi. Lýsingin á fjötrum Skelfingar og Dauða er vísun í hlekki Loka en hann bundu Æsir inni í helli og hengdu eiturslöngu yfir. Sigyn, kona hans, heldur mundlaug yfir honum til að safna eitri slöngunnar í. Þegar mundlaugin fyllist fer Sigyn út og skvettir úr en á meðan drýpur eitrið á Loka og hann kippist svo hart við að öll jörð skelfur. Líkt og Loka er mætti Heklu haldið í dróma. Í eldgosum losnar mátturinn úr læðingi og jarðskjálftar, eldar og aska skelfa og deyða. Í lokin er búið að lýsa sviðinu og horfið frá hinum myrku öflum niður í fagran og frjósaman Fljótsdalinn.
Í annari þríhendunni er svo vikið að þeim bræðrum Gunnari á Hlíðarenda og Kolskeggi Hámundarsonum. Þeir halda af stað á fákum sínum frá rausnargarðinum á Hlíðarenda, Gunnar með atgeirinn sinn á lofti og Kolskeggur gyrður bláu saxi, til strandar þar sem þeirra bíður glæsilegt víkingaskip með útskorið drekahöfuð í stafni. Enn er sótt í goðafræðina en Rán er heiðin sjávargyðja og í þessu tilfelli persónugervingur hafsins. Einnig er sagt í kvæðinu að forlögin höfðu fært þeim fjörbaugsdóminn en ásatrúin var forlagatrú og forlögin skipa veigamikinn sess í Brennu-Njáls sögu.
Í lok seinni þríhendunnar er því lýst þegar Gunnar tekur þá afdrifaríku ákvörðun að ríða heim og fara hvergi. Skv. Njálu hafði Gunnar á þessum tíma ofmetnast og hélt hetjulegum lifnaðarháttum sínum áfram, reið skrautbúinn um héröð og hélt höfðingleg heimboð. Í Gunnarshólma birtist ný hugmynd. Gunnari þótti landið svo fagurt og gott að hann gat ekki hugsað sér að hverfa frá því og bauð óhræddur óvinum sínum og örlögum birginn. Ein af ríkjandi hugmyndum rómantíska tímabilsins var einstaklingshyggja og skáldin dáðust að hinum sérstaka snillinginn sem tróð sínar eigin slóðir. Í Gunnarshólma birtist Gunnar sem hugaður maður sem fylgir hjartanu og berst gegn straumnum.
Í fyrri átthendunni kemur fram túlkun Jónasar á Njálu. Hann telur að Gunnar hafi heldur viljað deyja en að flýja landið. Einnig undrast hann að hinn lági Gunnarshólmi standi enn eftir allan vatnagang Markarfljóts og Þverár. Halldór Laxness leit svo á að hólminn væri óbrotgjörn ímynd Íslands.
Í seinni átthendunni eru teknar saman þær breytingar sem orðið hafa á landinu. Fjöllin og fljótin eru enn til staðar en hagsæld manna hefur hrakað. Vættir lands eru flúnir, dauft er í sveitum og þjóðin hímir hnipin og ósjálfstæð í kotum. Hulinn verndarkraftur hlífir þó Gunnarshólma, minnisvarða um hetjudáð Gunnars og trygglyndi hans við landið.
Á 19. öld fór þjóðernisvitund vaxandi og þjóðernishyggja varð áberandi í stjórnmálum og listum. Í íslenskum bókmenntum birtist þjóðernishyggjan einkum í áhuga á fornnorrænum bókmenntum og hreintungustefnunni. Gunnarshólmi hefur bæði þessi einkenni. Kvæðið byggir á fornri íslendingasögu, vísanir í norræna goðafræði má finna í öllum erindum og málfarið er sérstaklega vandað.