Norðurvegur ehf. er félag sem stofnað var í febrúar 2005 í þeim tilgangi að undirbúa mögulega lagningu hálendisvegar til þess að stytta vegalengdina á milli höfuðborgarsvæðisins og Norðurlands. Stærstu hluthafar voru KEA (25%), Akureyrarbær (15%) og Hagar (10%) en mörg fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar á norður- og suðurlandi áttu einnig hlut. Í febrúar 2007 kynnti félagið kynnti áform um vegalagningu yfir Kjöl í einkaframkvæmd sem yrði fjármögnuð með veggjöldum. Ekkert varð úr þeim áformum og lítið hefur farið fyrir starfsemi félagsins frá árinu 2007.

Lega heilsársvegar yfir Kjöl.

Stórisandur

breyta
 
Upprunaleg hugmynd um legu Norðurvegar yfir Stórasand.

Upphaflega var félagið stofnað í kringum tillögu um veg sem lagður yrði á milli Borgarfjarðar og Skagafjarðar með það að markmiði að stytta vegalengdina á milli Reykjavíkur og Akureyrar um 42 kílómetra. Vegurinn yrði lagður upp úr Borgarfirði um Hallmundarhraun, Stórasand og sunnan Blöndulóns niður í Skagafjörð þar sem hann tengist núverandi Þjóðvegi 1 í Norðurárdal. Vegur frá Borgarfirði um KaldadalÞingvöllum myndi svo stytta leiðina um aðra 40 km eða 82 kílómetra alls.

Einn helsti stuðningsmaður framkvæmdarinnar og sá sem stakk upp á heitinu „Norðurvegur“ er Halldór Blöndal sem ásamt fleiri þingmönnum lagði fram þingsályktunartillögu um verkefnið um vorið 2004. Gert var ráð fyrir að lagning vegarins á milli Borgarfjarðar og Skagafjarðar yrði einkaframkvæmd og að veggjald yrði innheimt á þeim kafla en kostnaðurinn við þann kafla var áætlaður 4,5 milljarðar króna. Vegurinn um Kaldadal yrði hins vegar ríkisframkvæmd en sá vegur er nú þegar á vegaáætlun.

Áætlanir um veg um Stórasand voru umdeildar af umhverfisástæðum en sá vegur hefði legið í gegnum eitt stærsta ósnortna víðernið sem eftir er á hálendi Íslands auk þess sem hann hefði leitt mikla umferð í gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum. Einnig komu upp efasemdir um að rétt væri að leggja veg í eins mikilli hæð og þau áform gerðu ráð fyrir.

Kjölur

breyta

Á aðalfundi félagsins 24. mars 2006 var tilgangi þess breytt þannig að í stað vegar yfir Stórasand muni það beita sér fyrir vegalagningu úr Skagafirði, yfir Eyvindastaðarheiði og yfir Kjöl. Við breytinguna gerðust ýmis sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar á Suðurlandi hluthafar í félaginu.

Þann 4. febrúar 2007 efndi félagið til blaðamannafundar og kynnti áætlanir sínar um veginn. Samkvæmt þeim myndi vegurinn liggja frá þjóðvegi 1 nálægt Silfrastöðum í Norðurárdal í Skagafirði til suðurs upp á Eyvindastaðarheiði og áfram yfir Kjöl, vegurinn myndi svo tengjast Biskupstungnabraut (þjóðvegi 35) við Gullfoss. Ekki stendur til að byggja upp núverandi Kjalveg heldur væri þetta alveg nýr vegur langstærsta hluta leiðarinnar. Vegurinn yrði 145 kílómetra langur, 8,5 metra breiður, upphækkaður um 2-3 metra yfir nánasta umhverfi og færi mest í 720 metra hæð yfir sjávarmáli. Styttingin á milli Akureyrar og Reykjavíkur myndi nema 47 km (12,1% stytting) og á milli Akureyrar og Selfoss væri styttingin 141 km (32,8% stytting).

Ætlunin var að leggja veginn í einkaframkvæmd og fjármagna með veggjöldum. Kostnaðurinn var áætlaður vera í kringum 4,2 milljarða króna og gert er ráð fyrir því að veggjaldið nemi 2000 kr. fyrir staka ferð á fólksbíl en 8000 kr. fyrir þungaflutninga, afslættir væru í boði fyrir þá sem nota veginn oft samkvæmt svipuðu fyrirkomulagi og er í Hvalfjarðargöngum.

Gagnrýni

breyta

Hugmyndir um uppbyggðan Kjalveg hafa mætt nokkurri mótstöðu vegna umhverfissjónarmiða. Í leiðara Morgunblaðsins 5. febrúar 2007 var hugmyndum Norðurvegar ehf. harðlega mótmælt en Styrmir Gunnarsson ritstjóri hefur lengi talað gegn uppbyggingu hálendisvega. Sagði þar m.a:

 
Átökin um vegina um hálendið eru að hefjast. Núna. Þetta er síðasta orustan um hin ósnortnu víðerni milli jöklanna, þar sem hvítir jöklar, svartir sandar og fagurbláar ár kallast á. Verði malbikaður vegur lagður um Kjöl er orustan töpuð.[1]
 

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, hefur lýst því yfir að samtökin séu andvíg uppbyggingu hálendisvega.[2] Ferðaklúbburinn 4x4 hefur einnig ályktað gegn veginum.[3]. Einnig hefur Ómar Ragnarsson lýst yfir andstöðu við veginn.[4] Stjórn Ferðafélags Íslands hefur ályktað gegn byggingu vegarins.[5]

Rökin sem nefnd hafa verið gegn lagningu vegarins eru fyrst og fremst þau að hann sé of umfangsmikil framkvæmd á svæði sem hefur verið nokkurn veginn laust við mannvirki hingað til. Því er haldið fram að vegur sem byggður er upp um 2-3 metra og ber mikla umferð, þar á meðal þunga flutningabíla eigi eftir að valda miklum skaða vegna sjón- og hávaðamengunar enda sé kyrrðin á svæðinu þess helsti kostur.

Bent hefur verið á að unnt sé að stytta þjóðveg 1 frá Norðurlandi til höfuðborgarsvæðisins töluvert á láglendi, 25 kílómetrar hafa verið nefndir í því sambandi.[6] Í tillögu að samgönguáætlun 2007-2018 eru tveir möguleikar nefndir í þessu sambandi, annars vegar 3,5 km stytting með nýrri legu þjóðvegarins í Skagafirði en hins vegar 15,5 km stytting með nýrri legu vegarins sunnan Blönduóss.[7] Sundabraut kemur einnig til með að stytta leiðina um 7-9 km.[8] Varðandi styttingu fram hjá Blönduósi er það þó forsenda að sveitarstjórnir í Austur-Húnavatnssýslu falli frá andstöðu sinni við breytta legu vegarins þar og samþykki að breyta sameiginlegu svæðisskipulagi í þá veru. Beiðni Vegagerðarinnar um að svæðisskipulaginu yrði breytt í þá veru að leyfa vegagerðina var hafnað í maí 2005,[9] sú ákvörðun var kærð en var endanlega staðfest af umhverfisráðherra 23. mars 2006.[10]

Tenglar

breyta

Heimildir

breyta
  • „Tillaga til þingsályktunar um vegagerð um Stórasand“. Sótt 27. nóvember 2006.
  • „Norðurvegur ehf. stofnaður“. Sótt 27. nóvember 2006.
  • „Norðurvegur fellur frá hugmyndum um Stórasandsveg“. Sótt 27. nóvember 2006.
  • „Umræður á Alþingi um Vegagerð um Stórasand“. Sótt 9. febrúar 2007.
  1. Morgunblaðið, 5. febrúar 2007, bls. 22
  2. „Frýjunarorð Morgunblaðsins“. Sótt 10. febrúar 2007.
  3. „Félagsmenn í 4x4 mótmæla áformum um uppbyggingu Kjalvegar“. Sótt 10. febrúar 2007.
  4. „NÝR KJALVEGUR? EKKI NÚNA“. Sótt 10. janúar 2007.
  5. „Ályktun stjórnar Ferðafélags Íslands vegna Kjalvegar“. Sótt 10. febrúar 2007.
  6. „Vegagerð um Stórasand, Jóhann Ársælsson (andsvar)“. Sótt 10. janúar 2007.
  7. „Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007 - 2018“ (PDF). Sótt 10. febrúar 2007.
  8. „Hvaða áhrif hefur sameining hafna við Faxaflóa á vegakerfi svæðisins?“ (PDF). Sótt 10. febrúar 2007.
  9. „Andstaða við styttingu þjóðvegarins fram hjá Blönduósi“. Sótt 10. febrúar 2007.
  10. „Vegstyttingu framhjá Blönduósi hafnað“. Sótt 10. janúar 2007.