Náttúruminjasafn Íslands

(Endurbeint frá NMÍ)

Náttúruminjasafn Íslands er eitt þriggja höfuðsafna Íslands. Hlutverk þess er að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi. Náttúruminjasafnið er afsprengi Hins íslenska náttúrufræðifélags, sem stofnað var 16. júlí 1889, en bygging myndarlegs náttúrugripasafns í Reykjavík var eitt helsta markmið stofnenda félagsins, og nú, heilli öld síðar og 20 árum betur, er það enn baráttumál félagsins að þjóðin eignist slíkt safn. Annað afsprengi Hins íslenska náttúrufræðifélags er rannsóknastofnunin Náttúrufræðistofnun Íslands. Sú stofnun hafði umsjón með Náttúrugripasafni Íslands fram til vorsins 2008, en þá var sýningarsölunum tveimur að Hlemmi lokað. Náttúrufræðistofnun Íslands er ekki safn, því hlutverki sinnir Náttúruminjasafnið.

Með setningu Safnalaga (lög nr. 106/2001) var tekið skref í þá átt að þjóðin eignist almennilegt safn í náttúrufræðum sem hæfir landi og þjóð. Í lögunum er ríkisstofnunin Náttúruminjasafn Íslands gerð að einu þriggja höfuðsafna landsins. Annað skref var stigið árið 2007 með setningu laga um Náttúruminjasafn Íslands (lög nr. 35/2007) þar sem kveðið er á um hlutverk og skipan í starfsemi stofnunarinnar.

Húsnæðismál safnsins

breyta

Náttúrugripasafn Íslands breyttist árið 1965 í Náttúrufræðistofnun Íslands. Sýningar voru 1967-2008 í tveimur sölum á jafnmörgum hæðum að Hlemmi 3-5. Safn í eigu Akureyrarbæjar var opið nokkur ár en hefur nú verið lokað í rúman áratug. Safninu á Hlemmi var lokað vorið 2008. Umræður um nýtt húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnun annar vegar og Náttúruminjasafnið hins vegar hafa lengi staðið nokkurn tíma, en safnið er enn á hrakhólum meðan stór hluti safnkostsins er í vörslu Náttúrufræðistofnunar. Umræður voru um það árið 2004 að Náttúrugripasafn Íslands væri vel staðsett í Skagafirðinum[1], en þær hugmyndir fengu lítið brautargengi. Sama er að segja um aðra staði út um land, enda safninu best fyrir komið í Reykjavík. Árið 1989 var ákveðið að byggja nýtt hús yfir stofnunina í Vatnsmýrinni en árið 2007 var þeirri lóð úthlutað til Listaháskóla Íslands sem fljótlega skipti á lóðinni og annarri lóð við Laugaveg í eigu eignarhaldsfélagsins Samson Properties. 2006 komst safnið enn til umræðu þegar rafmagn var óvart tekið af geymslum sem hýstu safngripi með þeim afleiðingum að 2000 gripir eyðilögðust og í desember sama ár gaf sig heitavatnslögn í húsnæðinu við Hlemm með þeim afleiðingum að heitt vatn flæddi um sýningarrýmið. Eftir það var einn verðmætasti gripur safnsins, uppstoppaður geirfugl, fluttur á Þjóðminjasafn Íslands.

2007 leit loks út fyrir að húsnæðisvandinn myndi leysast þegar samið var við Ístak um byggingu nýs húss í Urriðaholti í Garðabæ. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra tók fyrstu skóflustungu að húsinu 1. júlí það ár og áætlað var að stofnunin myndi flytja í nýtt húsnæði haustið 2009. Dráttur varð á byggingunni en Náttúrufræðistofnun flutti inn í nýtt húsnæði í október 2010.

Náttúruminjasafn Íslands var tímabundið til húsa að Brynjólfsgötu 5, 107 Reykjavík. Núverandi forstöðumaður NMÍ er dr. Hilmar J. Malmquist.

Árið 2018 fékk safnið rými í Perlunni og var opnuð þar fyrst sýningin Vatnið í náttúru Íslands þann 1. desember. [2]

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta