Nólseyjar-Páll (11. október 17661808/1809; hvarf í hafi) eða Poul Poulsen Nolsøe var færeyskur sjómaður, bóndi, skipasmiður, framfarasinni og nú ein helsta þjóðhetja Færeyinga.

Nólseyjar-Páll á gömlum færeyskum fimmtíu krónu seðli.

Sæfari og kaupmaður breyta

Páll var fæddur í Nólsey, sonur Poul Joensen bónda þar og konu hans Súsönnu Djónadóttur frá Velbastað. Hann naut ekki skólagöngu en lærði þó snemma að lesa. Ungur fór hann í siglingar og varð skipstjóri á bandarískum kaupskipum, ferðaðist víða og kom til margra landa. Árið 1798 fékk hann skipstjórn á dönsku kaupskipi sem sigldi milli Færeyja og Danmerkur og bjó þá í Kaupmannahöfn. Hann flutti svo aftur til Færeyja árið 1800.

Árið 1804 keypti hann ásamt tveimur bræðrum sínum og tveimur vinum flak af ensku skipi og umbyggði það í fyrsta færeyska þilskipið. Hugðist hann bæði efla fiskveiðar í Færeyjum og nota skipið, sem hlaut nafnið Royndin fríða, til verslunarferða. Að vísu var einokunarverslun í Færeyjum en þær vörur sem ekki voru beinlínis nefndar í verslunartöxtunum mátti hann flytja inn og út en sækja um leyfi til að versla með aðrar vörur. Páll var ákafur baráttumaður fyrir fríverslun og lenti fljótt í útistöðum við yfirvöld, sem sökuðu hann um smygl.

Fuglakvæði breyta

 
Tjaldurinn er fugl Færeyja.

Árið 1806 var Páli stefnt fyrir rétt í Þórshöfn og var hann ákærður fyrir ólöglega verslun. Hann var dæmdur fyrir minniháttar afbrot en ekki fyrir smygl. Hann svaraði með því að kæra sýslumanninn á Straumey og fleiri málsmetandi menn fyrir smyglverslun en kærunni var ekki sinnt. Þá orti Páll frægasta kvæði sitt, Fuglakvæði, þar sem hann setur andstæðinga sína í hlutverk hinna ýmsu ránfugla en sjálfur er hann tjaldur. Viðlagið er:

Fuglin í fjøruni
við sínum nevi reyða
mangt eitt djór og høviskan fugl
hevir hann greitt frá deyða,
Fuglin í fjøruni.

Kvæðið er 229 erindi, auk þess sem viðlagið er sungið á eftir hverju erindi, en það barst hratt um allar eyjarnar og náði gífurlegum vinsældum. Tjaldurinn varð þjóðartákn Færeyinga og afkomandi Páls, Sverre Patursson, kom þvi til leiðar að farið var að halda upp á 12. mars, sem telst vera komudagur tjaldsins til eyjanna. Annað þekktasta kvæði Páls, Jákup á Mön, er gamankvæði um klaufskan biðil.

 
Síðasta sjóferð Nólseyjar-Páls.

Barátta gegn einokun breyta

Í ágúst 1806 stóð Páll fyrir fundi í Þórshöfn þar sem samþykkt var að senda nefnd á fund Friðriks krónprins, sem þá var ríkisstjóri, með bón um frjálsa verslun og nýjan verslunartaxta. Páll var formaður nefndarinnar.

Friðrik tók erindinu vel en í sama mund hófst stríð milli Englands og Danmerkur og höfðu Danir þá öðru að sinna. Páll komst þó heim á skipi sínu þótt mjög erfitt væri um siglingar til Færeyja vegna stríðsins. Enskir víkingar hertóku skip sem fluttu korn og önnur matvæli þangað og hungursneyð ríkti í eyjunum svo að kornfarmurinn sem Páll kom með bjargaði mörgum.

Sumarið 1808 sigldi hann af stað öðru sinni á Royndinni fríðu að sækja matvæli handa hungruðum Færeyingum en missti skip sitt þá í hendur enskra víkinga. Hann fór þá til London og rak erindi Færeyinga af svo miklu kappi við siglingamálayfirvöld þar að þau létu hann hafa nýtt skip og kornfarm til að flytja til Færeyja gegn loforði um að koma aftur með vörur þaðan vorið 1809.

Páll lagði svo af stað heim með farminn og sást síðast á siglingu á Thames 17. nóvember 1808. Hann kom aldrei til Færeyja og er ekki vitað hvort skip hans fórst á leiðinni eða hvort því var sökkt af sjóræningjum. Í Færeyjum gengu líka þær sögur að danskir einokunarkaupmenn hefðu látið skjóta skipið í kaf til að losa sig við keppinaut.

Nólseyjar-Páll er í miklum metum hjá löndum sínum sem einarður baraáttumaður fyrir framförum og bættum lífskjörum, jafnvel píslarvottur, og einnig sem eitt helsta skáld eyjanna. Hann var tvíkvæntur og á fjölda afkomenda. Einn þekktasti niðji hans kóngsbóndinn og stjórnmálamaðurinn Jóannes Patursson.

Heimildir breyta

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Nólsoyar Páll“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 7. apríl 2011.
  • „Nólseyjar-Páls þáttur. Tíminn, 7. september 1943“.
  • „Færeysk þjóðernisbarátta. Skírnir, 3. tölublað 1919“.