Melting
Melting er ferli í lífverum þar sem fæðu er breytt í orku með efnaskiptum í meltingarfærum. Melting felst í því að brjóta óuppleysanlega þætti fæðunnar niður í vatnsleysanleg efni sem geta borist inn í blóðvökva. Hjá sumum lífverum eru þessi efnasambönd tekin upp í blóðrásina úr smáþörmum. Melting er efnaskiptaferli sem er oft skipt í tvo hluta eftir því hvernig fæðan er brotin niður. Mölun felst í því að brjóta fæðuna niður með vöðvaafli og blöndun hennar við meltingarsafa þar sem meltingarensím komast í tæri við hana.[1] Mölun hefst með tyggingu í munni og heldur áfram með bylgjuhreyfingum í meltingarveginum. Hitt stig meltingar er efnamelting þar sem ensím brjóta fæðuna niður í lítil efnasambönd sem líkaminn getur nýtt sér.
Í meltingarkerfi mannsins fer fæðan inn í munninn þar sem hún er tuggin og blandast munnvatni. Munnvatnið kemur úr munnvatnskirtlum og inniheldur mjölvakljúf, ensím sem brýtur niður mjölva í fæðunni.[2] Munnvatnið inniheldur líka slím, sem smyr fæðuna; rafvakann vetniskarbónat (HCO-3), sem gefur blöndunni rétt sýrustig svo ensímið virki; og fleiri rafvaka (Na+, K+, Cl-).[3] Um 30% mjölvans brotnar niður í tvísykrur með vatnssundrun í munninum. Við þetta breytist fæðan í tuggu (bolus) sem ferðast niður vélindað og niður í maga með iðrahreyfingum. Maginn framleiðir magasafa þar sem prótínleysing fæðunnar hefst. Magasafinn inniheldur saltsýru og pepsín. Hjá ungabörnum inniheldur magasafinn líka rennín (hleypi) til að melta mjólkurprótein. Maginn framleiðir líka slím og bíkarbónat sem mynda himnu á magaveggnum til að verjast skaðlegum áhrifum sýrunnar og annarra efnasambanda.[4] Saltsýran skapar rétt sýrustig fyrir virkni pepsínsins. Um leið og melting próteina fer fram á sér stað mölun með bylgjuhreyfingum í magaveggnum sem blanda fæðumassann og meltingarensímin. Pepsín brýtur prótein niður í peptíð sem aftur eru brotin niður í tvípeptíð og amínósýrur með hjálp ensíma í smáþörmunum. Rannsóknir benda til þess að með því að tyggja matinn betur er hægt að auka framleiðslu meltingarhormóna og draga úr hungurtilfinningu.[5]
Við neðra magaop er hringvöðvi (portvörður) sem opnast og hleypir hálfmeltu fæðumauki (chymus) niður í skeifugörnina þar sem það blandast við meltingarensím úr brisi og gallvökva úr lifur. Þaðan fer maukið í gegnum smáþarmana þar sem meltingin heldur áfram. Þegar fæðumaukið er fullmelt eru næringarefnin tekin upp í blóðrásina. Um 95% af næringarefnum úr fæðunni koma inn í blóðrásina í smáþörmunum. Vatn og steinefni eru tekin upp í blóðrásina í digurgirninu þar sem sýrustigið er 5,6 ~ 6,9. Sum vítamín, eins og bíótín og K-vítamín (K2MK7), eru mynduð af bakteríum í digurgirninu og eru líka tekin inn í blóðrásina. Upptaka vatns, einfaldra sykra og áfengis fer líka fram í maganum. Úrgangsefni (saur) er skilað út um endaþarmsopið við hægðalosun.[6]
Tilvísanir
breyta- ↑ Þuríður Þorbjarnardóttir (11.11.2002). „Hvernig starfa líffæri meltingakerfisins saman og hvaða efnaskipti fara þar fram?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Avraham, Regina (1989). The Digestive System. Introduction by C. Everett Koop. New York: Chelsea House. bls. 49. ISBN 0-7910-0015-X. OL 2055854M. Sótt 20. mars 2024.
- ↑ Berne, Robert M.; Levy, Matthew N. (2000). Principles of Physiology (3rd. útgáfa). St. Louis: Mosby. bls. 373-374. ISBN 0-323-00813-5. OL 9840795M. Sótt 20. mars 2024.
- ↑ Allen, Adrian; Flemström, Gunnar (janúar 2005). „Gastroduodenal mucus bicarbonate barrier: protection against acid and pepsin“. American Journal of Physiology. Cell Physiology. 288 (1): C1–19. doi:10.1152/ajpcell.00102.2004. ISSN 0363-6143. PMID 15591243.
- ↑ Miquel-Kergoat, Sophie; Azais-Braesco, Veronique; Burton-Freeman, Britt; Hetherington, Marion M. (1. nóvember 2015). „Effects of chewing on appetite, food intake and gut hormones: A systematic review and meta-analysis“. Physiology & Behavior. 151: 88–96. doi:10.1016/j.physbeh.2015.07.017. ISSN 1873-507X. PMID 26188140.
- ↑ Maton, Anthea; Jean Hopkins; Charles William McLaughlin; Susan Johnson; Maryanna Quon Warner; David LaHart; Jill D. Wright (1993). Human Biology and Health. Englewood Cliffs, NJ: Prentice Hall. ISBN 978-0-13-981176-0. OCLC 32308337.