Loftur Guðmundsson

Loftur Guðmundsson (18. ágúst 1892 - 4. janúar 1952) var íslenskur ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður. Loftur fæddist í Hvammsvík í Kjós. Foreldrar hans voru Guðmundur Guðmundsson, bóndi og síðar verslunarmaður í Reykjavík, og Jakobína Jakobsdóttir. Loftur var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Stefanía Elín Grímsdóttir og eignuðust þau fjögur börn. Eftir að hún lést bjó hann með Guðríði Sveinsdóttur. Loftur fluttist til Danmerkur 1921 og stundaði nám í orgelleik og lærði ljósmyndun og framhaldsnám hjá Peter Elfelt í Kaupmannahöfn 1925. Samhliða ljósmyndanáminu kynnti hann sér kvikmyndagerð og árið 1945 hélt hann til Bandaríkjanna til þess að kynna sér kvikmyndagerð frekar. Loftur var einn helsti ljósmyndari landsins á öðrum fjórðungi tuttugustu aldar. Hann var fyrst og fremst portrettljósmyndari en tók einnig myndir fyrir Leikfélag Reykjavíkur um árabil, auk þess nokkuð af atburða- og staðarmyndum á fyrstu starfsárum sínum.

Loftur stofnaði verslun ásamt öðrum og rak hana þar til hann tók við rekstri gosdrykkjagerðarinnar Sanitas árið 1913 af bróður sínum Guðmundi gerlafræðingi. Árið 1924 seldi hann hlut sinn og ári seinna stofnaði hann ljósmyndastofu í Nýja bíói í Lækjargötu í Reykjavík. Hún var starfrækt þar til 1943 en flutti þá að Bárugötu 5. Hann rak hana til dánardags en niðjar hans tóku við og ráku til ársins 1996. Loftur varð konunglegur sænskur hirðljósmyndari árið 1928 fyrir myndir sem hann sendi sænska konunginum að gjöf. Þá hlaut hann viðurkenningu frá Jupiterlicht verksmiðjunni í Þýskalandi fyrir uppfinningu á sérstaklega heppilegri notkun á ljósmyndalömpum.

Loftur var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Vals og lék með félaginu við góðan orðstír.[1] Þá var Loftur jafnframt fyrsti formaður Vals en hann var formaður félagsins árin 1911-1914.

Hann var einn af brautryðjendum íslenskrar kvikmyndagerðar en fyrsta mynd hans var stuttmyndin Ævintýri Jóns og Gvendar sem var sýnd árið 1923. Næstu árin gerði hann nokkrar heimildarmyndir, en árið 1949 var frumsýnd eftir hann fyrsta íslenska talmyndin í fullri lengd, Milli fjalls og fjöru. Árið 1951 gerði hann svo Niðursetninginn sem var síðasta kvikmynd hans. Loftur skrifaði sjálfur handrit kvikmynda sinna.[2]

Árið 2002 gaf Þjóðminjasafn Íslands út bókina Enginn getur lifað án Lofts. Bókin hefur að geyma þrjár greinar um Loft, ævi hans og störf, eftir Erlend Sveinsson, Ingu Láru Baldvinsdóttur og Margréti Elísabetu Ólafsdóttur.[3] Titillinn vísar til auglýsingar frá Lofti Guðmundssyni sem birtist árið 1945.[4]

  1. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 29. mars 2021.
  2. „Loftur Guðmundsson“. www.mbl.is. Sótt 29. mars 2021.
  3. „Enginn getur lifað án Lofts“. Þjóðminjasafn Íslands. Sótt 29. mars 2021.
  4. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 29. mars 2021.