Loftur Guðmundsson

„Loftur Guðmundsson“ getur einnig átt við Loft Guðmundsson, leikskáld og rithöfund.

Loftur Guðmundsson (18. ágúst 1892 - 4. janúar 1952) var íslenskur ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður. Hann var einn helsti ljósmyndari landsins á öðrum fjórðungi tuttugustu aldar. Hann var fyrst og fremst portrettljósmyndari en tók einnig myndir fyrir Leikfélag Reykjavíkur um árabil, auk þess nokkuð af atburða- og staðarmyndum á fyrstu starfsárum sínum. Hann var einn af brautryðjendum íslenskrar kvikmyndagerðar en fyrsta mynd hans var stuttmyndin Ævintýri Jóns og Gvendar sem var sýnd árið 1923. Næstu árin gerði hann nokkrar heimildarmyndir, en árið 1949 var frumsýnd eftir hann fyrsta íslenska talmyndin í fullri lengd, Milli fjalls og fjöru. Árið 1951 gerði hann svo Niðursetninginn sem var síðasta kvikmynd hans. Loftur skrifaði sjálfur handrit kvikmynda sinna.