Listi yfir fleygar íslenskar setningar

Þetta er listi yfir fleygar íslenskar setningar:

  • Ber er hver að bakinu nema sér bróður eigi og gafst Björn mér vel“ (oft stytt í „ber er hver að baki“).
    Þessi orð eru úr Brennu-Njálssögu. Kári Sölmundarson mælti þessi orð um Björn hvíta Kaðalsson í Mörk eftir að hann aðstoðaði hann við vígin á nokkrum brennumönnum.
  • „Drepa mann og annan“
    Þessi orð eru úr Egils sögu. Orðin koma fyrir í vísu sem Egill kveður ungur að aldri og er þannig: Þat mælti mín móðir, /at mér skyldi kaupa / fley ok fagrar árar / fara á brott með víkingum, / standa upp í stafni, / stýra dýrum knerri, / halda svá til hafnar, / höggva mann ok annan.
  • Eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og leita hefnda (stundum aðeins haft: Eigi skal gráta Björn bónda)
    Björn ríki Þorleifsson, sem var hirðstjóri, var veginn 1467 af Englendingum á Rifi á Snæfellsnesi. Var hann höggvinn í stykki og sendur Ólöfu Loftsdóttur, konu sinni, sem hafði sama viðurnefni og maður sinn, þ.e. Ólöf ríka. Þegar hún fékk þessa sendingu mælti hún þessi orð. Byrjaði hún á því að borga son sinn úr prísund Breta, en fór síðan á konungsfund, og segir sagan að tiltæki Breta hafi kostað 5 ára styrjöld milli Dana og Breta.
  • Heldur tekur nú að saxast á limina hans Björns míns
    Samkvæmt einni af þjóðsögum Jóns Árnasonar eru þetta orð Steinunnar, konu Axlar-Björns þegar hann hafði verið beinbrotinn á öllum útlimum á Laugarbrekkuþingi á Snæfellsnesi árið 1596 fyrir að hafa drepið átján menn. Ungur maður sem hét Ólafur og var náskyldur Birni var fenginn til að beinbrjóta hann og höggva. Voru leggirnir brotnir með trésleggju og haft lint undir, svo kvölin yrði því meiri. Björn varð karlmannlega við dauða sínum og pyntingum, viknaði hvorki né kveinkaði sér. Einu sinni, meðan bein hans voru brotin, sagði hann: „Sjaldan brotnar vel bein á huldu, Ólafur frændi." Þegar allir útlimir Bjarnar voru brotnir, sagði kona hans við aðra þá, sem við vora staddir: „Heldur tekur nú að saxast á limina hans Björns míns." Gegndi þá Björn til og sagði: „Einn er þó enn eftir, og væri hann betur af," og var hann þá höggvinn. (Ath. Hið raunverulega nafn konu Axlar-Björns var Þórdís Ólafsdóttir).
  • „Að liggja vel við höggi“
    Þessi orð eru óbeint úr Fóstbræðra sögu, en í henni segir frá Þorgeiri Hávarssyni sem hjó saklausan sauðamann fyrir þá sök eina að hann studdist fram á staf sinn. Hann útskýrði síðan morðið með því segja að maðurinn hafi staðið „svo vel til höggsins“. [1]
  • Þar launaði ég þér lambið gráa
    Þessi setning er úr Íslendingasögunni Heiðarvíga sögu. Árið 1000 hafði Styr drepið bóndann Þórhall (sem kom frá Jörfa) og hafði Þórhallur átt tvö börn; Áslaug og Gest. Gestur hafði verið veikur og treggáfað barn og því ekki líklegur til að hefna dauða föður síns; en þrátt fyrir það gaf Styr Gesti gráan heimalning til að bæta fyrir föðurmorðið. Hinsvegar um árin 1007-1008 læðist Gestur upp að Styr á meðan hann snæðir og heggur með fullum krafti í höfuð hans með exi. Hann hæfir bakvið hægra eyra Styrs svo að sést í heilann og mælir Gestur; „þar launaði ég þér lambið gráa“, og hleypur út um bakdyrnar og læsir þeim.
  • Þau tíðkast hin breiðu spjótin
    Þessi orð mælti Atli Ásmundsson þegar Þorbjörn öxnamegin rak hann í gegn með fjaðraspjótinu í Grettis sögu. Segir þannig frá því í sögunni: Í því bili snaraði Þorbjörn fram fyrir dyrnar og lagði tveim höndum til Atla með spjótinu á honum miðjum svo stóð í gegnum hann. Atli mælti við er hann fékk lagið: "Þau tíðkast hin breiðu spjótin," segir hann. Síðan féll hann fram á þröskuldinn. Þá komu fram konur er í stofunni höfðu verið. Þær sáu að Atli var dauður. Þá var Þorbjörn á bak kominn og lýsti víginu á hendur sér og reið heim eftir það.
  • Öxin og jörðin geymir þá best (stundum ritað „öxin og jörðin geyma þá best“)
    Þessa setningu mælti séra Jón Bjarnarson aðspurður hvernig geyma skyldi Jón Arason og syni hans Björn og Ara. Orð fyrir orð stendur skrifað í annálum Jóns Eigilssonar (1548-1634):
    Síra Jón Bjarnarson ansar þá til: „Eg em fávísastur af yður öllum, og kann eg ráð til að geyma þá.“ Þeir sögðust það vilja heyra. Hann sagði þá: „Öxin og jörðin geymir þá best.“


Tilvísanir

breyta
  1. Vísindavefurinn