Grettis saga

ein af Íslendingasögunum

Grettis saga fjallar um Gretti Ásmundarson frá Bjargi í Miðfirði, sem kallaður var Grettir sterki. Sagan er ein af þekktustu og vinsælustu Íslendingasögunum.

Grettir.

Í sögunni er greint frá æsku og uppvexti Grettis, brekum hans og óláni, sem olli því að hann varð útlagi og þvældist um allt Ísland. Margir ofsóttu hann en einnig urðu margir til þess að hjálpa honum. Endalok Grettis urðu í Drangey í Skagafirði, en þar var hann loks drepinn.

Grettir er kynntur til sögunnar í 14. kafla en áður segir sagan frá forfeðrum hans, einkum þó Önundi tréfæti Ófeigssyni, langafa Grettis, sem var einn þeirra sem börðust við Harald hárfagra í Hafursfjarðarorrustu og missti þar annan fót sinn en fór síðar til Suðureyja og þaðan til Íslands. Hans er getið í Landnámabók sem landnámsmanns við Kaldbaksvík á Ströndum. Í síðasta hluta Grettis sögu segir frá Þorsteini drómundi, eldri hálfbróður Grettis, veru hans í Miklagarði, þar sem hann var í liði Væringja og hefndi Grettis með því að drepa Þorbjörn öngul, og síðan frá ástum hans og hefðarkonu sem Spes hét. Kallast sá hluti sögunnar Spesar þáttur.

Grettisfærsla Breyta

Grettisfærsla er horfið kvæði í Grettissögu. Eftir að rakin hefur verið viðræða ísfirskra kotkarla um það hver eigi að taka við Gretti, farast sögumanni orð á þessa lund: „Og eftir þessu viðtali þeirra hafa kátir menn sett fræði það er Grettisfærsla hét og aukið þar í kátlegum orðum til gamans mönnum“. Því miður er ekki hægt að gera sér fulla grein fyrir Grettisfærslu, enda var hún skafin af bókfellinu. Þó má sjá að þar hefur verið klám og harla lítill tepruskapur, eins og ráða má af því sem Ólafur Halldórsson hefur skrifað um færsluna, en hann hefur rýnt í skaddað handritið.

Í Nýjum félagsritum árið 1861 er ritgerð eftir er eftir Jón Sigurðsson sem nefnist „Um nokkrar íslendingasögur“. Þar stendur:

 
Fyrst eg er að tala um máð og útskafin skinnblaðaletur, þá verð ég enn að geta Grettisfærslu, sem allir þekkja að nafni, en enginn meir. Í einu handriti Grettlu frá 15. öld (A. M. 556. 4to) er kvæðið skrifað aftan við söguna á þrem blaðsíðum, en síðan (á 16. öld) hefur einhver skafið allt út, svo ekki verður lesið með berum augum. Líklega hefur kvæðið verið keskið og klámfengið. Ég reyndi til að lesa þetta, en gat hvergi deilt nema stafi á víð og dreif, fyrir utan upphafið, sem eg gat lesið, og sem er svo:
„Karl nam at búa
beint má því lýsa",

og síðan í sömu línu stendur „í afdali", meira gat eg ekki lesið fyrir víst; en svo lítið sem þetta er, þá er það þó nóg til að gefa hugmynd um brag og tegund þessa kvæðis, að það er alveg samkynja og t. d. Kötludraumur, Völsaþáttur, Snjárskvæði, Hyndluljóð nýju, Kringilnefjukvæði, og enn fleiri þesskyns ljóð. Kötludraumur byrjar svo: „Már hefir búit", og Völsaþáttur: „Karl hefir búit ok kona öldruð". Nú verður Grettisfærsla hið elsta kvæði þesskyns, sem menn hafa spurn um, og getur það ekki verið yngra en frá miðri 13. öld, eður öllu fremur eldra, því höfundur Grettlu (frá enda 13. aldar) þekkti kvæðið. Kvæðið hefur í skinnbókinni verið á þrem blaðsíðum, eður hérumbil lOO línur, og telst svo til, að það hafi verið sextugt, eins og elsti Kötludraumur, sem finnst á skinni og er sextugt kvæði, en síðan aukinn, svo hann er nú vanalega 88 erindi. þetta, sem nú er sagt um Grettisfærslu, sýnir, hversu gömul þessi kvæði þó eru, og að þau eru eldri en menn hingað til hafa hugsað, en þó verða að vera enn eldri ævintýri þau, sem kvæðin eru eftir ort.

 
 
— Ný félagsrit [1]

Tengt efni Breyta

Tilvísanir Breyta

  1. Um nokkrar íslendingasögur; grein í Nýjum félagsritum 1861

Tenglar Breyta

 
Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni


Íslendingasögurnar

Bandamanna saga · Bárðar saga Snæfellsáss · Bjarnar saga Hítdælakappa · Brennu-Njáls saga · Droplaugarsona saga · Egils saga · Eiríks saga rauða · Eyrbyggja saga · Finnboga saga ramma · Fljótsdæla saga · Flóamanna saga · Fóstbræðra saga · Færeyinga saga · Grettis saga · Gísla saga Súrssonar · Grænlendinga saga · Grænlendinga þáttur · Gull-Þóris saga · Gunnars saga Keldugnúpsfífls · Gunnlaugs saga ormstungu · Hallfreðar saga vandræðaskálds · Harðar saga og Hólmverja · Hávarðar saga Ísfirðings · Heiðarvíga saga · Hrafnkels saga Freysgoða · Hrana saga hrings · Hænsna-Þóris saga · Kjalnesinga saga · Kormáks saga · Króka-Refs saga · Laxdæla saga · Ljósvetninga saga · Reykdæla saga og Víga-Skútu · Svarfdæla saga · Valla-Ljóts saga · Vatnsdæla saga · Víga-Glúms saga · Víglundar saga · Vopnfirðinga saga · Þorsteins saga hvíta · Þorsteins saga Síðu-Hallssonar · Þórðar saga hreðu

   Þessi bókmenntagrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.