Le Maître des hosties noires

Le Maître des hosties noires (Meistari svartagaldursins) er ellefta bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2017 og er framhald sögunnar um Hlébarðastúlkuna frá 2014. Höfundur hennar er Yann en listamaðurinn Schwartz teiknaði.

Söguþráður

breyta

Árið er 1947. Svalur, Valur og Aniota eru komin til Léodoldville í Kongó en fá ekki leyfi yfirvalda til að halda áfram för sinni til héraðsins Urugondolo. Þokkafull blaðakona frá tímaritinu Time, sem er í sömu sporum, upplýsir að belgíska valdstjórnin vilji ekki viðurkenna að svæðið sé í höndum uppreisnarmanna. Á meðan Svalur og Aniota standa í stappi við embættismenn er Valur að læðupokast með dularfullan farangur. Hann kynnist framhleypnum smástrák, Youma, sem segist öllum hnútum kunnugur og býðst til að gerast leiðsögumaður þeirra í ferðinni.

Í Urugondolo eiga skuggalegir atburðir sér stað. Górilluvélmennin skringilegu fara ránshendi um þorp heimamanna og hneppa íbúana í þrældóm. Þrælarnir eru neyddir til að vinna fyrir stríðsherrann Joseph-Désiré, sem dreymir um að verða æðstráðandi í allri Afríku. Til að ná því markmiði hyggst hann smíða kjarnorkusprengju og leggja Brüssel í eyði til að hefna fyrir nýlendustefnu Evrópubúa. Í því skyni hafði hann látið ræna Helmut von Knochen og hópi annarra þýskra kjarneðlisfræðinga. Fram kemur að Joseph-Désiré eigi mátt sinn ekki hvað síst að þakka galdramanni sem vinnur fyrir hann, meistara svartagaldursins, en hann haldi górilluvélmennunum gangandi.

Svalur, Valur, Aniota og Youma halda til Urugondolo á fölsuðum skilríkjum. Þau lenda í vandræðum á leið yfir fljót., þar sem Svalur hyggst varpa hinum dularfulla farangri Vals útbyrðis til að létta á bátnum. Til átaka kemur, þar sem Svalur fellur í fljótið og Valur ásakar sig fyrir að hafa drepið besta vin sinn. Svalur sleppur þó naumlega og kynnist belgískum kristniboða, föður Lebouc.

Ferð Vals, Aniotu og Youma heldur áfram. Hinn dularfulli farangur Vals reynist vera hátalarakerfi, sem bjargar þeim frá villidýrum. Til að sleppa fram hjá Joseph-Désiré og mönnum hans dulbýr Aniota sig sem þokkafullu blaðakonuna frá Time. Upp um þau kemst, en þeim tekst þó að flýja undan hermönnunum. Þau eru handsömuð af ættbálki Hlébarðakvenna sem fagna því mjög að endurheimta töfrastyttuna sína.

Meðan á þessu stendur tilkynna þýsku vísindamennirnir Joseph-Désiré að útilokað sé að útbúa kjarnorkusprengjuna umbeðnu, en stinga upp á að dreifa í staðinn geislavirkum úrgangi yfir Brüssel. Stríðsherranum líst vel á þá áætlun og hefst þegar handa við undirbúning.

Með styttuna endurheimtu að vopni skorar töfralæknir Hlébarðakvennanna á meistara svartagaldursins í einvígi, sem hefst í þann mund sem Svalur og faðir Lebouc mæta á svæðið. Eftir dramatíska baráttu galdrafólksins tapar meistari svartagaldursins. Í kjölfarið glatar hann töframætti sínum og górilluvélmennin grotna niður. Þegar górilluvélmennanna nýtur ekki lengur við renna áform stríðsherrans út í sandinn, þar sem verkamennirnir gera uppreisn. Svalur og meistari svartagaldursins, sem reynist vera albinói í dulargervi, taka tal saman.

Svalur og Valur halda aftur til Evrópu en uppgötva að Youma hefur smyglað sér um borð. Svalur fær þá snjöllu hugmynd að kynna hann fyrir þeim Jean-Paul Sartre og Simone de Beauvoir, sem ákveða að ættleiða drenginn. Í bókarlok situr Svalur í herbergi sínu í Brüssel, hugsar um orð meistara svartagaldursins og berst við freistinguna að drekkja sorgum sínum í áfengi. Skyndilega fær hann vitrun og hleypur út í nóttina. Þar hittir hann æskuástina Audrey í myrkvuðu herbergi við draumkenndar aðstæður. Þau faðmast. Hún segist þurfa að hverfa á braut um langa hríð, en hann segist munu bíða hennar.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Talsverð rannsóknarvinna lá að baki sögunnar, þannig eru afrískar persónur óspart látnar nota slanguryrði og orðfæri eins og tíðkaðist meðal frönskumælandi íbúa Kongó. Fyrir vikið er allnokkuð um orðskýringar í bókinni og margt í textanum tapast við þýðingu á önnur tungumál.
  • Faðir Lebouc er augljóslega sama persóna og faðir Sebastían í bókinni Tinna í Kongó. Er það engan veginn eina dæmið um skírskotanir til þeirrar bókar í sögunni.
  • Nokkrar kunnar persónur úr belgíska myndasöguheiminum sjást í bakgrunni í sögunni. Má þar nefna Palla og Togga eftir Hergé.