Einvígi er bardagi tveggja manna án afskipta þriðja aðila.

Einvígi milli Paul Déroulède og Georges Clemenceau þann 21. desember árið 1892.

Einvígi voru þekkt aðferð til að leysa deilumál víða í Evrópu allt fram á 20. öld, og tóku á sig ýmsar myndir. Algengt var að tveir menn útkljáðu deilumál sín með skotvopnum eða sverðum, og var þá farið að ákveðnum reglum. Margir þekktir menn hafa verið drepnir í einvígum, t.d. rússneska skáldið Alexander Púskín sem dó úr sárum sínum árið 1837 eftir einvígi við elskhuga eiginkonu sinnar.

Einvígi hafa einnig verið stunduð víða annars staðar í heiminum, t.d. í Villta vestrinu.

Einvígi eru algeng í evrópskum miðaldabókmenntum, t.d. riddarasögum og Íslendingasögum. Í Íslendingasögum eru þau jafnan kölluð hólmgöngur og um þær giltu ákveðnar reglur. Dæmi um hólmgöngur má til dæmis finna í Egils sögu þar sem segir frá Ljóti hinum bleika, hólmgöngumanni, og víða annars staðar.

Þekktustu einvígin í bókmenntasögunni er hins vegar að finna í Skyttunum þremur eftir Alexandre Dumas, þegar D'Artagnan skuldbatt sig til að heyja þrjú einvígi í röð við skytturnar þrjár, Athos, Porthos og Aramis.