Laxá (Dalasýslu)

(Endurbeint frá Laxá í Dölum)

Laxá (stundum kölluð Laxá í Laxárdal eða Laxá í Dölum) er bergvatnsá í Dalasýslu og ein af bestu laxveiðiám landsins. Áin kemur að hluta úr Laxárvatni á Laxárdalsheiði, sem er milli Hvammsfjarðar og Hrútafjarðar, og rennur um Laxárdal og til sjávar í Hvammsfirði, skammt sunnan við Búðardal. Margar litlar þverár og lækir falla í ána en hún er þó oft mjög vatnslítil.

Um 36 veiðistaðir eru í ánni og er hinn efsti við Sólheimafoss en af þekktum veiðistöðum má nefna hylinn Papa. Veiðifélag var stofnað um ána 1935 og er í hópi elstu veiðifélaga landsins. Síðan hefur áin verið leigð út. Bandarískir auðmenn voru lengi með hana á leigu, meðal annars forstjóri Pepsi-gosdrykkjafyrirtækisins, og komu margir heimskunnir menn að veiða í ánni, svo sem geimfarinn Neil Armstrong og kylfingurinn Jack Nicklaus.

Einhver fyrsta tilraun til laxaklaks á Íslandi var gerð við Laxá þegar Guttormur Jónsson í Hjarðarholti byggði klakhús í landi jarðar sinnar. Seinna var byggt klakhús í landi jarðarinnar Leiðólfsstaða, þar sem heitir Þrándargil. Þar hjá er nú veiðihús veiðifélagsins og heitir það einnig Þrándargil.

Heimildir

breyta
  • „Laxá í Dölum, ein þekktasta laxáin. Tíminn, 11. maí 1994“.

Tengill

breyta