Laugavegur 22 er timburhús á horni Laugavegs og Klapparstígs. Það var reist árið 1905 og hefur í gegnum tíðina m.a. hýst fjölda veitingahúsa og skemmtistaða. Nú um stundir eru þar reknir skemmtistaðirnir Kíkí Queer Bar og Bravó.

Saga breyta

Ýmis konar verslunar- og atvinnustarfsemi var rekin á Laugavegi 22 fyrstu áratugina. Má þar nefna skóbúðina B. Stefánsson, sem Björgvin Stefánsson opnaði þar árið 1922 og starfaði þar fram á miðjan sjötta áratuginn. Veitingastarfsemi hófst í húsinu árið 1959.

Rauða myllan breyta

Í desember 1959 opnaði kaffi- og veitingastofan Rauða myllan í húsinu. Í tilkynningu um opnunina kom fram að þar yrði boðið upp á hvers konar kaffiveitingar, svo sem: expressokaffi, smárétti og súpur sem Benny Sigurðardóttir húsmæðrakennari sæi um framreiðslu á. Málverkasýningar yrðu á veggjum kaffistofunnar.[1] Rekstur kaffihússins var í höndum ýmissa aðila, síðast mæðginanna Jakobínu Soffíu Grímsdóttur Snædahl og Gylfa Snædahl Guðmundssonar.[2] Á árinu 1977 breyttu þau nafni staðarins í Kirnan en Gylfi hafði árið áður stofnað veitingastaðinn Skrínuna við Skólavörðustíg.

Kirnan breyta

Veitingastaðurinn fékk nýtt nafn og innréttingar vorið 1977 og nefndist þá Kirnan. Staðnum var skipt upp í bása og var innréttingin sögð miða að því "að matargestum finnist þeir vera í gömlum sveitabæ" þar sem hvert borð væri í sérstökum bás og veggir meira og minna hljóðeinangraðir. Staðurinn var sagður rekinn í samvinnu við Skrínuna á Skólavörðustíg um mat og hráefni, en auk kaffiveitinga yrði áherslan lögð á "rétt dagsins", hamborgara og grillrétti.[3]

Eigandaskipti urðu á staðnum í ársbyrjun 1981 þegar Bragi Guðmundsson og Guðrún Gísladóttir tóku við rekstri Kirnunar. Staðurinn var endurnýjaður og matseðlinum breytt. Áfram var áhersla á kaffiveitingar, hamborgara og pizzur en að auki var víetnamskur kokkur fenginn til að bjóða upp á rétti í anda kínverskrar og víetnamskrar matargerðarlistar.[4] Asíumaturinn varð fljótlega einkennismerki staðarins og í ársbyrjun 1982 var skrefið stigið til fulls og nafninu breytt í Drekann.[5]

Drekinn breyta

Útliti veitingastaðarins var breytt við nafnabreytinguna, básarnir fjarlægðir en borðum fjölgað. Austurlensk matargerð var Íslendingum framandi en vakti mikinn áhuga. Lýsti Bragi Guðmundsson því síðar að gestir hafi í stórum stíl stolið matprjónum og borðbúnaði af staðnum og hafi því í sífelldu orðið að flytja inn meira postulín. Mikil áhersla var lögð á sjávarfang og kom staðurinn m.a. að útgerð báts sem sérhæfði sig í veiðum á trjónukrabba fyrir vinsæla krabbasúpu Drekans.[6] Árið 1984 seldi Bragi reksturinn nýjum aðilum og var nafninu fljótlega breytt í kjölfarið.

Keisarinn frá Kína & Ölkeldan breyta

Sigurður Tómasson veitingamaður tók við rekstri Drekans þegar vel var liðið á árið 1984. Hann tók sjálfur við eldamennskunni og endurskrifaði matseðilinn sem skiptist í austurlenskan mat og íslenskan grillmat. Staðurinn fékk nýtt heiti, Keisarinn frá Kína.[7] Um þessar mundir stóð bjórlíkistíminn í reykvísku skemmtanalífi sem hæst og ölkrár spruttu upp eins og gorkúlur. Á efri hæð Keisarans frá Kína var sett upp slík bjórstofa, Ölkeldan. Var hún opin til kl. 1 á virkum kvöldum og 3 um helgar, en fyrri staðir í húsinu höfðu lokað um miðnæturbil.

Ölkeldan taldist ekki til fínni kráa bæjarins og var henni lýst sem "vafasömum stað". Seinni árin sem Ölkeldan starfaði tóku samkynhneigðir að sækja staðinn sérstaklega og varð hann athvarf þeirra. Árið 1988 var rekstri Ölkeldunnar hætt en nýir aðilar tóku við.[8]

Krákan breyta

Rekstur Ölkeldunnar reyndist lífseigari en Keisarans frá Kína, sem var lagður niður sumarið 1985. Sigfríð Þórisdóttir keypti þá staðinn og opnaði veitingahúsið Matkrákuna. Fljótlega kom þó í ljós að vikublaðið Helgarpósturinn átti vörumerkið og var nafninu þá breytt í Veitingahúsið Krákan.[9] Rekstur Krákunnar einkenndist af tilraunastarfsemi og kynningu á mat frá fjarlægum heimshornum. Indversk matargerð var áberandi á matseðlinum og þurfti veitingahúsið að framleiða sínar eigin kryddblöndur í því skyni. Matargerð frá Mexíkó og Karíbahafslöndum fékk sinn skerf, sem og Indónesía, Miðjarðarhafslönd, Rússland og Kína.[10] Veggir staðarins voru nýttir til myndlistarsýninga og bryddað upp á menningaruppákomum til að draga að gesti. Krákan var starfrækt til ársins 1988.

22 breyta

Veitingahúsið 22 opnaði á árinu 1988 og voru þá bæði rýmin í húsnæðinu sameinuð á ný í einn stað. Að deginum varð 22, eins og staðurinn var almennt kallaður, vinsælt kaffihús ungskálda og bóhema. Efri hæðin varð vinsæll skemmtistaður homma- og lesbíusamfélagsins, þau samskipti gengu þó misjafnlega og var samkynhneigðum um tíma stuggað burt af staðnum. Höfðu yfirvöld sett ýmsar íþyngjandi kröfur um rekstursins sem talin voru spretta af því að um skemmtistað hinseginfólks væri að ræða.[11]

Árið 2002 var ráðist í breytingar á húsnæðinu og nýju dansgólfi bætt við á þriðju hæð hússins. Með tímanum fjaraði þó undan rekstrinum. Skemmtistöðum sem gerðu út á hinseginfólk fór fjölgandi, sem leiddi af sér harðnandi samkeppni. Árið 2006 var skipt um rekstraraðila sem gáfu staðnum nýtt heiti, Barinn, með þeim orðum að nauðsynlegt hafi verið að "taka þetta nafn og grafa það".[12]

Ýmsir aðilar breyta

Ör eigenda- og nafnaskipti hafa einkennt skemmtistaðareksturinn á Laugavegi 22 í seinni tíð og er erfitt að halda utan um þær. Hefur húsið ýmist verið tvískipt með kaffihús á jarðhæð en skemmtistaði á efri hæðum eða rekið sem ein heild.

Barinn starfaði til ársins 2009, þegar hann varð gjaldþrota.[13] Skemmtistaðurinn Karamba opnaði í hluta húsnæðisins sama ár, en skellti í lás einu og hálfu ári síðar.[14] Um svipað leyti og Karamba hóf göngu sína opnaði Barbara, skemmtistaður hinseginfólks í hinum hluta húsnæðisins.[15] Á árinu 2010 opnaði hinseginkaffihúsið "Trúnó" í fyrrum húsnæði Karamba og var rekið í nánum tengslum við Barböru á efri hæðunum.[16]

Í ársbyrjun 2012 fluttist skemmtistaðurinn Bakkus úr Tryggvagötu í rýmið á efri hæðunum, en Barbara fluttist þá niður á jarðhæðina og rann saman við Trúnó.[17] Ekki reyndist Bakkus langlífur á Laugaveginum og sumarið 2013 var nýr skemmtistaður opnaður í öllu húsinu eftir talsverðar breytingar innanstokks. Hlaut hann nafnið Bravó.[18] Ári síðar var nýr hinseginskemmtistaður, Kiki Queer Bar, stofnaður á efri hæðunum á vegum sömu rekstaraðila.

Tenglar og tilvísanir breyta

  1. „Morgunblaðið 10. desember 1959“.
  2. „Tíminn 4. janúar 1976“.
  3. „Alþýðublaðið 20. maí 1977“.
  4. „Tíminn 4. febrúar 1981“.
  5. „Helgapósturinn 22. janúar 1982“.
  6. „Morgunblaðið B 30. des. 1989“.
  7. „NT 30. nóv. 1984“.
  8. „Morgunblaðið B 21. júlí. 1995“.
  9. „DV 4. sept. 1985“.
  10. „DV 23. nóv. 1985“.
  11. "Talin íkveikjuhætta af ölvuðu hinsegin fólki", RÚV 14. sept. 2019“.
  12. "22 breytist í Barinn", Morgunblaðið 19. maí. 2006“.
  13. "Fjögur veitingahús í þrot", Veitingageirinn 21. febrúar 2009“.
  14. "Há áfengisgjöld sliga Karamba", Vísir 15. júlí 2010“.
  15. "Nýr hinseginskemmtistaður opnar", Vefsíða Samtakanna 78, 5. mars 2009“.
  16. „Morgunblaðið 20. okt. 2010“.
  17. "Bakkus flytur á Laugaveg 22", Vísir, 19. janúar 2012“.
  18. "Bravó er barinn", Vísir, 18. júlí 2013“.