Klapparstígur er gata í austurbæ Reykjavíkur, sem liggur milli Skólavörðustígs og Skúlagötu. Þar eru bæði fyrirtæki og íbúðarhús.

Klapparstígur

Saga breyta

Klapparstígur var fyrsta gatan í Skuggahverfi. Íbúar í hverfinu fóru síðla árs 1877 fram á að lagður yrði vegur niður að Klapparvör, sem var mikilvægur útróðrarstaður. Lofuðu þeir vinnuframlagi við vegalagninguna og gekk bæjarstjórn að tilboðinu. Veturinn 1877 til 1878 var lagður stígur sem hlaut í fyrstu nafnið Skuggahverfisvegur. Um 1883 var farið að kalla götuna Klapparveg eða Klapparstíg, en það heiti er dregið af tómthúsbýlinu Klöpp.

Í fyrstu náði Klapparstígur aðeins upp að Laugavegi (sem þá nefndist raunar Vegamótastígur), en árið 1882 var gatan lengd svo hún náði alla leið upp að Skólavörðustíg, líkt og nú er.

Vindheimastígur er annað heiti á Klapparstíg, sem stundum var notað. Vísaði það til torfbæjarins Vindheima sem stóð við norðvesturenda götunnar, en var rifinn rétt eftir aldamótin 1900. Skúlagata var einnig í fyrstu kennd við Vindheima.

Tenglar breyta

   Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.