Langbarðabandalagið

Langbarðabandalagið (ítalska Lega Lombarda) var bandalag borga á Norður-Ítalíu sem var stofnað árið 1167 gegn ofríkistilburðum Friðriks Barbarossa keisara hins Heilaga rómverska ríkis. Friðrik hafði krafist viðurkenningar á rétti sínum sem einvaldur á Ítalíu á þinginu í Roncaglia 1158. Þegar bandalagið var sem stærst voru nær allar borgir Norður-Ítalíu aðilar að því, eða borgirnar Mílanó, Piacenza, Cremóna, Mantúa, Crema, Bergamó, Brescia, Bologna, Padúa, Trevísó, Vicenza, Feneyjar, Veróna, Lodi, Reggio Emilia og Parma. Bandalagið vann sigur á keisaranum í orrustunni við Legnano árið 1176 og eftir sex ára vopnahlé gerðu bandalagið og keisarinn með sér friðarsamningana í Konstanz þar sem borgirnar hétu keisaranum trúnaði en héldu lögsögu yfir héruðum sínum.

Minningartafla frá 700 ára afmæli bandalagsins í Pontida.

Langbarðabandalagið var endurvakið nokkrum sinnum síðar gegn Friðriki 2. keisara á 13. öld. Bandalagið var leyst upp þegar Friðrik dó 1250.