Kristín Knútsdóttir
Kristín Knútsdóttir (um 1118/1120 – eftir 1139) var dönsk hefðarkona af konungsættinni, sonardóttir Eiríks góða, og drottning Noregs 1133.
Kristín var dóttir danska konungssonarins Knúts lávarðs, hertoga af Slésvík, og konu hans Ingibjargar af Kænugarði. Árið 1131, sama ár og Magnús sterki drap föður hennar, trúlofaðist hún Magnúsi Sigurðssyni Noregskonungi og mun Málmfríður af Kænugarði, móðursystir Kristínar og áður stjúpmóðir Magnúsar hafa haft milligöngu um það. Hún var þó talin of ung til að giftast en fór til Noregs 1133 og giftist Magnúsi.
Málmfríður giftist Eiríki eymuna, hálfbróður Knúts lávarðs, árið 1131 og tók þátt í baráttu hans gegn Níels Danakonungi og Magnúsi sterka syni hans Þau flúðu frá Danmörku 1133 og leituðu hælis hjá Magnúsi og Kristínu í Noregi. Kristín komst að því að Magnús hefði í hyggju að svíkja þau og þau gerðu þá bandalag við Harald gilla, meðkonung Magnúsar. Magnús rak þá Kristínu frá sér og hefur hún líklega farið heim til Danmerkur, að minnsta kosti þegar Eiríkur eymuni varð konungur sumarið 1134. Snemma árs 1135 lét Haraldur gilli svo blinda og gelda Magnús og setti hann af sem konung. Kristínar er ekkert getið eftir lát hans 1139 og hefur hún sennilega dáið ung.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Kristin Knutsdotter“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. september 2009.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Christine of Denmark“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. september 2009.