Sigurður Ormsson (d. 1235) var íslenskur goðorðsmaður á 12. og 13. öld. Hann var af ætt Svínfellinga, sonur Orms Jónssonar (um 1115 - 1191) og Helgu Árnadóttur. Hann tók við búi í Svínafelli í Öræfum 1179 þegar faðir hans gerðist munkur og þótti mikill höfðingi. Hann átti í deilum við Þorlák helga í staðamálum fyrri og sagði þá meðal annars að „norrænir menn og útlendir mega eigi játa undan oss vor réttindi“. Hann lét þó undan en Jón Loftsson veitti biskupi svo harða mótspyrnu að honum varð lítið ágengt. Sigurður var mikill vinur Kolbeins Tumasonar og mægður honum og þegar Guðmundur Arason tók við biskupsembætti á Hólum flutti Sigurður frá Svínafelli norður í land og tók við staðarforráðum á Hólum að beiðni Kolbeins og Guðmundar. Fljótlega kastaðist þó í kekki með þeim biskupi annars vegar og Sigurði og Kolbeini hins vegar og haustið 1208 gerðu þeir biskupi aðför. Í Víðinesbardaga, 9. september, féll Kolbeinn en Sigurður hörfaði undan með liðið. Hann bjó lengi á Möðruvöllum en var síðustu árin munkur í Munkaþverárklaustri og dó þar.

Sigurður var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Sigríður systir Kolbeins Tumasonar en eftir lát hennar gekk hann að eiga stjúpmóður hennar, Þuríði Gissurardóttur. Kolbeinn og Arnór Tumasynir og Halldóra systir þeirra, kona Sighvatar Sturlusonar, voru því stjúpbörn hans. Tumi eldri Sighvatsson, dóttursonur Þuríðar, ólst upp hjá þeim og einnig dætur Arnórs, Sigríður (móðir Þorgils skarða) og Herdís.

Bróðir Sigurðar var Sigmundur goðorðsmaður á Valþjófsstað (d. 1198). Jón sonur hans tók við goðorðum Svínfellinga og síðan Ormur Svínfellingur sonur hans.