Ís

(Endurbeint frá Klaki)

Ís eða klaki er vatn í föstu formi. Hamskiptin eiga sér stað þegar vatn í vökvaformi er kælt niður fyrir 0 °C (273,15 K, 32 °F) við staðalþrýsting. Ís getur myndast við hærri hitastig við aukinn þrýsting, og helst sem vökvi eða gufa niður að -30 °C við lægri þrýsting. Ís sem myndaður er við hærri þrýsting hefur öðruvísi kristallagerð heldur en venjulegur ís.

Fjögra tonna ísblokk í Jökulsárlóni
Grýlukerti

Ís, vatn og gufa geta verið til saman við þrípunktinn, sem að fyrir þetta kerfi er 273,16 K og þrýstingur 611,73 Pa.

Óvenjulegt séreinkenni íss við eina loftþyngd er það að fasta formið er um 8% minna þétt en vatn í vökvaformi. Ís hefur eðlismassann 0,917 g/cm³ við 0 °C, en vatn 0,9998 g/cm³ við sama hitastig. Vatn er þéttast, nákvæmlega 1,00 g/cm³ við 4 °C og verður minna þétt er vatnssameindirnar byrja að mynda sexhyrnda ískristalla er hitastigið fellur niður í 0 °C (Til gamans má geta að orðið „kristall“ á uppruna sinn í gríska orðinu yfir frost). Þetta kemur af því að vetnistengingar myndast milli vatnssameindanna, sem að raða upp sameindunum á óhagkvæmilegri hátt (eftir rúmmáli) þegar vatnið er frosið. Þetta veldur því að ís flýtur á vatni, sem að er mikilvægur þáttur í veðurfari Jarðar.

Sem kristallskennt fast efni, er ís talinn sem steinefni.