Árskógsströnd
Árskógsströnd er strandlengja og byggðarlag við vestanverðan Eyjafjörð sem nefnt er eftir býlinu Stærra-Árskógi. Þar er kirkja sveitarinnar. Á ströndinni sem liggur á milli eyðibýlisins Hillna í suðri og nær að Hámundastaðahálsi í norðri eru tvö sjávarþorp: Litli-Árskógssandur (þaðan sem ferja siglir til Hríseyjar) og Hauganes. Árskógsströnd var sjálfstæður hreppur, Árskógshreppur, á milli 1911 og 1998 þegar hún sameinaðist Dalvíkurbyggð. Upp af Árskógsströnd skerst Þorvaldsdalur inn á milli fjallanna. Áður voru nokkrir bæir í dalnum. Þorvaldsá kemur úr Þorvaldsdal og fellur til sjávar milli Litla-Árskógssands og Hauganess. Hitaveita Dalvíkur fær mest af vatni sínu úr borholum við Birnustaðaborgir upp af Hauganesi.
Á Árskógsströnd hvílir Hrærekur konungur, einn konunga í íslenskri mold, utan og ofan við Kálfskinnsbæina. Hrærekshóll er nú friðaður. Um hann kvað Davíð Stefánsson þjóðskáldið frá Fagraskógi, eitt af sínum kunnu ljóðum.
Í Kálfskinni bjó líka Þorkatla sú hin illræmda, sem sveitungar hennar treystust ekki til að ráða af dögum en fengu til þess utansveitarmenn. Hún var dysjuð við hól þann, sem enn ber hennar nafn og heitir Kötluhóll, norðan í Kötlufjalli.
í Landnámu segir að Helgi magri sá er fyrstur nam land við Eyjafjörð, hafi komið að landi innan við Svarfaðardal en utan við Hrísey. Þar er víðast klungur við sjó og á sumum stöðum klettar en skárra þó er innar dregur með firðinum allt að Reitsvík. Talið er að Helgi hafi haft vetursetu á þessum slóðum, líklega í Hámundarstaðalandi. Um vorið gekk hann upp á Sólarfjöll og sýndist búsældarlegra sunnar með firðinum, flutti sig og byggði bæ og nefndi Kristnes.
Heimildir
breyta- Erlingur Davíðsson ritstjóri: „Árskógsströnd“, Dagur 75. tbl., 26. október 1966, bls. 2- 5.