Kim Campbell

19. forsætisráðherra Kanada

Avril Phaedra Douglas „Kim“ Campbell (f. 10. mars 1947) er kanadískur stjórnmálamaður, erindreki, lögfræðingur og rithöfundur sem var 19. forsætisráðherra Kanada, í embætti frá 25. júní til 4. nóvember árið 1993. Campbell er fyrsta og hingað til eina konan sem hefur verið forsætisráðherra Kanada. Hún er einnig eini forsætisráðherra landsins sem fæddist í Bresku-Kólumbíu.[1] Campbell er í dag formaður ráðgjafarnefndar hæstaréttar Kanada.[2][3]

Kim Campbell
Kim Campbell árið 2012.
Forsætisráðherra Kanada
Í embætti
25. júní 1993 – 4. nóvember 1993
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
LandstjóriRay Hnatyshyn
ForveriBrian Mulroney
EftirmaðurJean Chrétien
Persónulegar upplýsingar
Fædd10. mars 1947 (1947-03-10) (77 ára)
Port Alberni, Bresku-Kólumbíu, Kanada
StjórnmálaflokkurFramsækni íhaldsflokkurinn
MakiNathan Divinsky (g. 1972; skilin 1983)
Howard Eddy (g. 1986; skilin 1993)
Hershey Felder (g. 1997)
HáskóliHáskólinn í Bresku-Kólumbíu
Hagfræðiskóli Lundúna
StarfStjórnmálamaður, ríkiserindreki, lögfræðingur
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Kim Campbell ólst upp í Vancouver og nam stjórnmálafræði við Háskólann í Bresku-Kólumbíu. Þar hlaut hún styrk til doktorsnáms í sovéskri stjórnmálafræði í Hagfræðiskóla Lundúna en hætti í náminu og útskrifaðist þess í stað úr lögfræðinámi árið 1983 úr Háskólanum í Bresku-Kólumbíu.[4] Árið 1984 hóf hún lögfræðistörf í Vancouver.

Campbell var árið 1986 kjörin á löggjafarþing Bresku-Kólumbíu. Hún gekk síðan árið 1988 á neðri deild kanadíska þingsins og sat þar til ársins 1993 fyrir Framsækna íhaldsflokkinn. Árið 1990 varð hún dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Brians Mulroney. Hún varð síðan varnarmálaráðherra Kanada í janúar árið 1993.[4]

Mulroney settist í helgan stein árið 1993 eftir níu ára stjórnarsetu. Þá hafði lengi verið litið á Campbell sem vænlegan arftaka hans, bæði á formanns- og forsætisráðherrastól. Á flokksþingi Íhaldsmanna í júní þetta ár bauð Campbell sig fram til að taka við af Mulroney sem formaður og sigraði Jean Charest í formannskjörinu. Þar með varð Campbell forsætisráðherra Kanada, fyrst kvenna. Kjör Campbells þótti boða sveiflu til hægri innan Íhaldsflokksins eftir miðhægrisinnaða stjórn Mulroney og var Campbell gjarnan líkt við Margaret Thatcher í Bretlandi.[4] Þegar Campbell tók við völdum var stutt í kosningar og því einkenndist stjórnartíð hennar fyrst og fremst af kosningabaráttu flokksins. Íhaldsflokkurinn bað afhroð í kosningunum sem haldnar voru í október þetta ár og því varð Campbell að segja af sér bæði sem forsætisráðherra og flokksformaður þann 4. nóvember. Jean Charest varð nýr formaður Íhaldsflokksins en Jean Chrétien, formaður Frjálslynda flokksins, varð forsætisráðherra.

Eftir forsætisráðherratíð sína kenndi Campbell stjórnmálafræði við Harvard-háskóla í nokkur ár. Hún var sendiherra Kanada í Los Angeles frá 1996 til 2000 en sneri aftur til Harvard-háskóla árið 2001 og kenndi þar til ársins 2004. Árið 2001 tók hún þátt í stofnun Madrid-klúbbsins, söfnuðar fyrrum þjóðhöfðingja og ríkisstjórnarleiðtoga sem vinna að því að ryðja braut lýðræðis á heimsvísu. Árið 2004 var hún útnefnd aðalritari hópsins.

Tilvísanir

breyta
  1. Skard, Torild (2014) "Kim Campbell" in Women of Power – Half a century of female presidents and prime ministers worldwide, Bristol: Policy Press.
  2. „Kim Campbell to chair Supreme Court advisory board“ (enska). Maclean's. 2. ágúst 2016. Sótt 31. janúar 2019.
  3. „Prime Minister announces Advisory Board to select next Supreme Court Justice“ (enska). Ríkisstjórn Kanada. 17. júlí 2017. Sótt 31. janúar 2019.
  4. 4,0 4,1 4,2 Kristján G. Arngrímsson (13. júní 1993). „Járnmadonnan eða fjölskyldumaðurinn“. Morgunblaðið. Sótt 31. janúar 2019.


Fyrirrennari:
Brian Mulroney
Forsætisráðherra Kanada
(25. júní 19934. nóvember 1993)
Eftirmaður:
Jean Chrétien