Breska-Kólumbía

fylki í Kanada

Breska-Kólumbía er fylki suðvestast í Kanada. Það var sjötta fylkið til að ganga í fylkjasambandið (sjöunda ef yfirráðasvæðin eru tekin með). Fjöll og skógar eru áberandi í landslagi fylkisins.

Breska-Kólumbía
Fáni Bresku-Kólumbíu Skjaldarmerki Bresku-Kólumbíu
(Fáni Bresku-Kólumbíu) (Skjaldarmerki Bresku-Kólumbíu)
Kjörorð: Splendor Sine Occasu (Óskertur Ljómi)
Kort af Bresku-Kólumbíu
Önnur kanadísk fylki og yfirráðasvæði
Höfuðborg Victoría (Bresku-Kólumbíu)
Stærsta borgin Vancouver
Fylkisstjóri Salma Lakhani
Forsætisráðherra Danielle Smith (Sameinaði íhaldsflokkurinn)
Svæði 944,735 km² (5. Sæti)
 - Land 925,186 km²
 - Vatn 19,549 km² (2,1%)
Fólksfjöldi (2019)
 - Fólksfjöldi 5.000.000 (námundað) (3. Sæti)
 - Þéttleiki byggðar 4,8 /km² (7. Sæti)
Aðild í ríkjabandalagið
 - Dagsetning 20. júlí 1871
 - Röð Sjöunda
Tímabelti UTC-8 & -7
Skipting á þingi
 - Neðri málstofa 36
 - Öldungadeild 6
Skammstafanir
 - Póstur BC
 - ISO 3166-2 CA-BC
Póstfangsforskeyti V
Vefur www.gov.bc.ca
Helstu þéttbýlisstaðir.
Upphleypt kort af Bresku-Kólumbíu.
Mount Robson í Klettafjöllum.

Söguágrip

breyta

Á því landsvæði sem nú er Breska-Kólumbía nær saga frumbyggja yfir a.m.k. 10.000 ár. Evrópskir landkönnuðir fóru þar um undir lok 18. aldar, en landnám í stórum stíl hófst á fyrri hluta 19. aldar. Hudson Bay félagið sem verslaði með skinn nefndi svæðið eftir Kólumbíufljóti árið 1858. Árið 1871 varð það 6. hérað Kanada. Lokið var við síðasta legg Kyrrahafslestarinnar (Pacific Rail) til Vancouver árið 1885 og með tilkomu hennar urðu efnahagslegar framfarir. Skógarhögg varð æ mikilvægari grein.

Landafræði og náttúrufar

breyta

Breska-Kólumbía er 944,735 km2 að flatarmáli. Fylkið á landamæri að Alberta í austri, Júkon, Norðvesturhéruðunum og bandaríska fylkinu Alaska í norðri og bandarísku fylkjunum Washington, Idaho og Montana í suðri.

Þrír fjórðu hlutar fylkisins eru fjalllendi í yfir 1000 metra hæð, þar á meðal Klettafjöll í austri, Strandfjöll í vestri og Fossafjöll í suðri. Hæsta fjallið er Mount Fairweather, nálægt landamærum Alaska, 4.663 metrar yfir sjávarmáli. Í miðju fylkinu er háslétta þar sem rignir lítið, hún er fremur gróðursnauð og telst að hluta eyðimörk. Hins vegar er vesturhluti Vancouvereyju úrkomusamasti staður Norður-Ameríku. Ströndin er mjög vogskorin og með mörgum fjörðum og eyjum. Stærstu eyjarnar fyrir utan Vancouvereyju eru í eyjaklasanum Haida Gwaii. Columbia-fljót á upptök sín í fylkinu og rennur til Kyrrahafsstrandar Bandaríkjanna.

Um 60% fylkisins eru skógi vaxin. Finna má mörg hundruð ára gömul tré af tegundum eins og risalífviði, marþöll, degli og sitkagreni í tempruðu regnskógunum við vesturströndina. Mikið er af blágreni, hvítgreni og fjallaþini inni í landi. Aðeins um 5% svæði fylkisins eru hentug til ræktunar.

Mörg vernduð svæði og þjóðgarðar eru innan Bresku-Kólumbíu. 12,5% fylkisins eru verndað land. Meðal þjóðgarða eru Glacier-þjóðgarðurinn, Kootenay-þjóðgarðurinn, Yoho-þjóðgarðurinn, Pacific Rim-þjóðgarðurinn og Mount Revelstoke-þjóðgarðurinn.

Sumarið 2021 mældist hæsti hiti í Kanada í þorpinu Lytton í fylkinu eða tæpar 50 gráður.

Samfélag

breyta

Fólksfjöldi í fylkinu var rúmlega 5 milljónir árið 2019. Vancouver er stærsta borg fylkisins og þriðja stærsta borg Kanada. Borgin Victoria á Vancouvereyju er næststærsta borgin og höfuðborg fylkisins. Stærsta borgin í norðri er Prince George. Flestir íbúa fylkisins búa innan marka Vancouver, Victoria og nálægra svæða.

Um 72% vinnandi fólks starfar í þjónustugeiranum. Ferðaþjónusta, skógarhögg og fiskveiðar eru meðal atvinnugreina. Asískir innflytjendur eru um fjórðungur íbúa Bresku-Kólumbíu.

Heimild

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „British Columbia“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 21. nóv. 2016.

Tenglar

breyta