José Villalonga Llorente (12. desember 1919 - 7. ágúst 1973) var sigursæll spænskur knattspyrnuþjálfari. Hann stýrði bæði Real Madrid til sigurs í spænsku deildinni, Atlético Madrid til sigurs í Evrópukeppni og gerði landslið SpánarEvrópumeisturum.

Villalonga tók við liði Real Madrid á miðri leiktíðinni 1954-55 af hinum úrúgvæska Enrique Fernández Viola, þá aðeins 35 ára gamall og án þjálfunarreynslu. Lið Real Madrid var ríkjandi meistari og skipað stórstjörnum á borð við Alfredo di Stefano, Hector Rial og Raymond Kopa. Undir hans stjórn tókst liðinu að verja titilinn, auk þess að sigra í Copa Latino, skammlífri keppni sem líta má á sem forvera Evrópukeppnanna.

Árið eftir urðu Villalonga og Real Madrid fyrstu sigurvegararnir í Evrópukeppni meistaraliða og er hann enn í dag yngsti þjálfarinn sem náð hefur þeim árangri. Síðustu leiktíðina hjá Real, 1956-57, vann liðið þrefalt: deildina, Evrópukeppnina og Copa Latino.

Frá Real lá leiðin til nágrannaliðsins Atlético Madrid sem Villalonga stýrði frá 1959-62. Uppskeran var dágóð. Liðið varð tvívegis spænskur bikarmeistari, náði öðru sæti í deildinni og vann árið 1962 Evrópukeppni bikarhafa.

Í kjölfar þessarar velgengni var Villalonga ráðinn landsliðsþjálfari. Kom hann liði sínu í fjögurra liða úrslitin í Evrópukeppninni 1964. Úrslitakeppnin sjálf fór fram á Spáni og unnu heimamenn þar 2:1 sigur á Sovétmönnum í úrslitaleiknum. Ekki tókst að fylgja eftir þessum góða árangri á HM 1966 í Englandi og lét Villalonga af störfum eftir mótið og einbeitti sér upp frá því að kennslu þjálfaraefna. Hann lést árið 1973, aðeins 53 ára að aldri.