Jody Williams

Bandarískur aðgerðasinni

Jody Williams (f. 9. október 1950) er bandarískur aðgerðasinni sem er þekkt fyrir störf sín í herferðum fyrir alþjóðlegu banni á jarðsprengjum. Hún hefur einnig talað fyrir mannréttindum og reynt að auka almenningsvitund á nútímaöryggismálum. Ásamt hreyfingunni Alþjóðlegri herferð fyrir jarðsprengjubanni (ICBL) var Williams sæmd friðarverðlaunum Nóbels árið 1997.

Jody Williams
Jody Williams árið 2010.
Fædd9. október 1950 (1950-10-09) (74 ára)
ÞjóðerniBandarísk
MenntunHáskólinn í Vermont
SIT Graduate Institute
Johns Hopkins-háskóli
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1997)

Menntun

breyta

Williams útskrifaðist með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá Paul H. Nitze-alþjóðasamskiptaháskólanum (sem er deild í Johns Hopkins-háskóla) í Washington, D.C. árið 1984, með meistaragráðu í spænskukennslu og ensku sem aukafagi frá SIT Graduate Institute í Brattleboro í Vermont árið 1976 og með bakkalársgráðu frá Háskólanum í Vermont árið 1972.

Aðgerðastefna

breyta

Williams var einn af skipuleggjendum og stofnendum Alþjóðlegrar herferðar fyrir jarðsprengjubanni (enska: International Campaign to Ban Landmines eða ICBL) og stýrði aðgerðum stofnunarinnar frá byrjun ársins 1992 fram í febrúar 1998. Áður en hún hóf störf fyrir ICBL hafði hún unnið í ellefu ár við ýmis störf sem tengdust stríðum í Níkaragva og El Salvador og hafði þar hætt lífi sínu við margvísleg störf í þágu mannréttinda.[1]

Williams vann ásamt ríkisstjórnum, stofnunum Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaráði rauða krossins sem skipuleggjandi og talsmaður ICBL og undir hennar stjórn fór herferðin frá því að vera aðeins persónuframtak hennar sjálfrar og varð umsvifamikil alþjóðahreyfing með um 1.300 undirdeildir í 90 löndum.

Williams og alþjóðaherferðin náðu fram markmiði sínu um alþjóðasáttmála um bann gegn jarðsprengjum á ráðstefnu í Ósló í september árið 1997. Þremur vikum síðar voru Williams og herferðin sæmdar friðarverðlaunum Nóbels. Williams var tíunda konan og þriðja Bandaríkjakonan sem hlaut friðarverðlaunin í tæplega hundrað ára sögu Nóbelsverðlaunanna.

Í nóvember árið 2004 stofnaði Williams samtökin Nobel Women's Initiative eftir viðræður við Nóbelsverðlaunahafana Shirin Ebadi frá Íran og Wangari Maathai frá Keníu. Samtökin hófu störf í janúar árið 2006 og Williams hefur upp frá því verið formaður þeirra. Samtökin, sem telja til sín sex konur sem hafa unnið til Nóbelsverðlauna, sækjast eftir því að nýta áhrif sín til að greiða veg kvenna sem sækjast eftir friði og jafnrétti um allan heim.

Í viðtali við tímaritið Real Leaders árið 2014 sagði Williams: „Ímyndin af friði sem táknuð er með dúfu sem flýgur yfir regnboga á meðan fólk helst í hendur og syngur saman fyrir neðan gefur forheimskandi mynd af fólki sem trúir því að hægt sé að ná fram varanlegum friði. Ef maður trúir því að með því að syngja og góna á regnboga sé hægt að kalla fram frið, þá er maður hvorki fær um merkingarþrungna hugsun, né um að skilja erfiðleikana sem steðja að heiminum í dag.“[2]

Menntaferill

breyta
 
Jody Williams á ráðstefnu í Portúgal árið 2017.

Frá árinu 2007 hefur Williams verið kennari í friðar- og samfélagsrétti við Háskólann í Houston. Hún hafði áður verið heiðursprófessor við skólann frá árinu 2003.

Viðurkenningar

breyta

Williams nýtur enn virðingar fyrir framlög sín til mannréttinda og alþjóðaöryggismála. Hún hefur hlotið fimmtán heiðursgráður og ýmsar aðrar viðurkenningar. Árið 2004 var hún nefnd meðal 100 voldugustu kvenna í heimi í talningu tímaritsins Forbes. Tímaritið Glamour hefur tvisvar valið hana sem „konu ársins“ ásamt konum á borð við Hillary Clinton, Katie Couric, Barböru Walters, og öðrum konum sem unnið hafa til Nóbelsverðlauna.

Ritverk

breyta

Williams er afkastamikill rithöfundur og hefur gefið út fjölda bóka. Hún hefur skrifað fjölda greina fyrir tímarit og dagblöð um allan heim (meðal annars Wall Street Journal, International Herald Tribune, The Independent, The Irish Times, The Toronto Globe and Mail, The LA Times, La Jornada, The Review of the International Red Cross, Columbia University's Journal of Politics and Society) og kafla í fjölda bóka (m. a. This I Believe: The Personal Philosophies of Remarkable Men and Women, A Memory, A Monologue, A Rant, and A Prayer, Lessons from our Fathers, Girls Like Us: 40 Extraordinary Women Celebrate Girlhood in Story, Poetry and Song og The Way We Will be 50 Years from Today: 60 of the World's Greatest Minds Share Their Visions of the Next Half-Century).

Williams var meðhöfundur bókar um jarðsprengjukreppuna árið 1995, After the Guns Fall Silent: The Enduring Legacy of Landmines. Nýlegasta fræðibók hennar var Banning Landmines: Disarmament, Citizen Diplomacy and Human Security, sem fjallaði um bannið gegn jarðsprengjum og áhrif þess á önnur öryggismálastörf. Í mars árið 2013 gaf hún út endurminningarnar My Name Is Jody Williams: A Vermont Girl's Winding Path to the Nobel Peace Prize.

Tilvísanir

breyta
  1. Ken Rutherford, "Landmines," Encyclopedia of Human Rights: Vol. 1. David P. Forsythe, ed. Oxford University Press, 2009; bls. 395 ISBN 0195334027
  2. „Jody Williams Admits, "I'm No Mother Theresa." (enska). Real Leaders.

Tenglar

breyta