Alþjóðleg herferð fyrir jarðsprengjubanni

Alþjóðlega herferðin fyrir jarðsprengjubanni (e. International Campaign to Ban Landmines eða ICBL) er bandalag frjálsra félagasamtaka sem vinna saman að því að losa heiminn við jarðsprengjur gegn liðsafla og klasasprengjur, og við að hjálpa fólki sem hefur lifað af notkun þeirra að leita réttinda sinna og lifa gefandi lífum. Bandalagið var stofnað árið 1992 þegar sex félagasamtök með svipuð markmið (hin frönsku Alþjóðasamtök fatlaðra, hið þýska Medico international, hinn breski Ráðgjafarhópur um jarðsprengjur, og hin bandarísku Mannréttindasamtök lækna og Stofnun uppgjafarhermanna Víetnamstríðsins) féllust á að vinna saman til að ná þeim fram.[1] Herferðin hefur síðan stækkað í sniðum og í dag vinna meðlimir hennar í um 100 löndum. Meðal þeirra eru hópar sem starfa við málefni kvenna, barna, uppgjafarhermanna, trúarhópa, umhverfismála, mannréttinda, vopnaeftirlits, friðar- og þróunarmála. Meðal frægra stuðningsmanna herferðarinnar mátti nefna Díönu prinsessu af Wales.

Alþjóðleg herferð fyrir jarðsprengjubanni
Merki Alþjóðlegrar herferðar fyrir jarðsprengjubanni
SkammstöfunICBL
Stofnun1992; fyrir 32 árum (1992)
HöfuðstöðvarFáni Sviss Genf, Sviss
Hnit46°13′N 6°08′A / 46.22°N 6.14°A / 46.22; 6.14
LykilmennJody Williams (stofnandi)
Vefsíðawww.icbl.org

Herferðin og stofnandi hennar, Jody Williams, hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 1997 fyrir að hvetja til samþykktar Ottawa-samningsins. Undirritun samningsins (sem bannar notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutning jarðsprengna gegn liðsafla) er gjarnan álitin helsta afrek herferðarinnar. Meðstofnandi herferðarinnar, Rae McGrath úr Ráðgjafarhópnum um jarðsprengjur, og Tunn Channareth, kambódískur aðgerðasinni hjá herferðinni sem hefur lifað af sprengingu jarðsprengja, tóku við verðlaununum.

Herferðin hefur eftirlit með stöðu jarðsprengna og klasasprengna í heiminum og hvetur til samþykktar og framkvæmdar á samningnum um bann við jarðsprengjum. Jafnframt stýrir herferðin mannúðaraðgerðum fyrir samfélög sem hafa beðið skaða vegna jarðsprengna. Þá veitir herferðin fólki, fjölskyldum og samfélögum sem hafa lifað af sprengingar jarðsprengna hjálp og berst gegn framleiðslu, notkun og flutningi jarðsprengna, þar á meðal af hálfu einkaaðila. Fulltrúar herferðarinnar taka jafnframt þátt í árlegum fundum aðildarríkja Ottawa-samningsins. Herferðin hvetur einnig ríki sem ekki hafa undirritað samninginn til að fullgilda hann og óháða vígahópa til að virða ákvæði bannsins. Ýmsir viðburðir til að auka almenna meðvitund um vandann sem stafar af jarðsprengjum hafa verið haldnir á vegum herferðarinnar.

Skipulagning

breyta

Árið 2011 sameinaðist ICBL Klasasprengjubandalaginu[2] (en. Cluster Munition Coalition eða CMC) í ein samtök undir nafninu ICBL-CMC til þess að auka skilvirkni í starfi beggja stofnanana og hvetja til samstarfs á sameiginlegum sviðum. Herferðirnar sjálfar eru enn aðskildar og halda áfram að minna ríkisstjórnir á skuldbindingar sínar að samningunum sem banna báðar sprengjutegundirnar. Jarð- og klasasprengjuvakt samtakanna viðheldur eftirlitsstarfsemi á borgaralegu samfélagi til að fylgjast með mannúðar- og þróunarafleiðingum jarðsprengna, klasasprengja og annarra sprengifimra hergagna.

Aðgerðir ICBL-CMC eru studdar af sérstakri stjórnarnefnd sem hefur eftirlit með stefnumörkun, fjármálum og mannauði samtakanna. Sérstök ráðgjafarnefnd sér um að miðla ábendingum til starfsmanna um starfsemi herferðarinnar. Fjórir sendifulltrúar koma fram í umboði fyrir herferðina á málfundum og öðrum ráðstefnum á heimsvísu. Sendifulltrúarnir eru Jody Williams, Tun Channareth, Song Kosal og Margaret Arech Orech. ICBL hefur nú 14 starfsmenn á sínum snærum í Genf (þar sem aðalskrifstofa samtakanna er), Lyon, París og Ottawa. Samtökin ráða jafnframt til sín nokkra starfsnema á hverju ári.

Samningurinn um bann við jarðsprengjum

breyta

Ottawa-sáttmálinn er alþjóðasamningur sem bannar jarðsprengjur gegn liðsafla. Opinbert heiti samningsins á íslensku er Samningur um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra.[3] Samningurinn var gerður í Ósló í Noregi í september árið 1997 og undirritaður af 122 ríkjum í Ottawa, Kanada, þann 3. desember árið 1997. Í mars árið 2018 voru aðildarríki að samningnum 164 talsins.[4]

Sáttmálinn leggur aðildarríkjunum tilteknar skuldbindingar:

  1. Að nota aldrei jarðsprengjur gegn liðsafla né að „þróa, framleiða, verða sér úti um með öðrum hætti, safna birgðum af, varðveita eða flytja til einhvers, beint eða óbeint, jarðsprengjur gegn liðsafla“.
  2. Að eyða birgðum af jarðsprengjum gegn liðsafla innan fjögurra ára.
  3. Að hreinsa jarðsprengjusvæði sem heyra undir lögsögu ríkisins innan tíu ára.
  4. Að sjá um upplýsingagjöf um þá áhættu sem stafar af jarðsprengjum og sjá til þess að eftirlifandi fórnarlömbum þeirra, fjölskyldum þeirra og samfélögum sé veitt fullnægjandi aðstoð.
  5. Að bjóða öðrum aðildarríkjum aðstoð í framkvæmd sáttmálans, til dæmis í umönnun á fórnarlömbum jarðsprengna eða við hreinsun á jarðsprengjusvæðum.
  6. Að gera ráðstafanir innanlands á sviði löggjafar, stjórnsýslu og á öðrum sviðum til að koma í veg fyrir brot á samningnum innan aðildarríkis.

Jarð- og klasasprengjuvaktin

breyta

Jarð- og klasasprengjuvaktin (e. Landmine and Cluster Munition Monitor) er rannsóknar- og eftirlitsdeild ICBL-CMC. Deildin sér í reynd um að hafa eftirlit með framkvæmd og hlýðni við sáttmálann um jarðsprengjubann og sáttmálann um klasasprengjur frá árinu 2008. Auk þess að hafa eftirlit með framkvæmd samninganna metur deildin þau vandamál sem stafa af jarð- og klasasprengjum og öðrum ósprungnum stríðsleifum. Jarð- og klasasprengjuvaktin er fyrsta dæmið um að frjáls félagasamtök hafi komið saman til að hafa skipulegt eftirlit með mannúðarlögum eða afvopnunarsamningum og skrásetja reglulega framgang þeirra. Frá stofnun samtakanna árið 1998 hafa flestir starfsmenn Jarð- og klasasprengjuvaktarinnar verið rannsakendur frá þeim löndum þar sem rannsóknirnar fara fram, aðallega aðgerðasinnar á vegum ICBL-CMC. Allar niðurstöður þeirra sæta ritrýni hjá ritstjórn deildarinnar áður en þær eru birtar.

Tilvísanir

breyta
  1. „20 years in the life of a Nobel Peace Prizewinning campaign“. ICBL website. Sótt 10. nóvember 2018. „1992: (...) Six NGOs (HI, HRW, MI, MAG, PHR, and VVAF) meet in New York and agree to coordinate campaigning efforts“
  2. „Lög um framkvæmd samnings um klasasprengjur“. Alþingi. 10. júlí 2015. Sótt 16. janúar 2020. „[...] sem leggja áherslu á almenna samviskuskyldu til eflingar mannúðarhugsjóninni eins og hún birtist í ákalli um heim allan um endalok þjáninga af völdum klasasprengna og viðurkenna starf Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaráðs Rauða krossins, Klasasprengjubandalagsins og fjölmargra annarra frjálsra félagasamtaka í heiminum í þágu þess markmiðs,“
  3. „SAMNINGUR um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra“. Alþingi. 1998. Sótt 16. janúar 2020.
  4. AP Mine Ban Convention Implementation Support Unit Geneva International Centre for Humanitarian Demining. „Convention on the Prohibition of the Use, Stockpiling, Production and Transfer of Anti-Personnel Mines and on Their Destruction“. Sótt 16. september 2019.