João Figueiredo

30. forseti Brasilíu (1918-1999)

João Baptista de Oliveira Figueiredo (15. janúar 1918 – 24. desember 1999) var brasilískur herforingi og stjórnmálamaður sem var forseti Brasilíu frá 1979 til 1985. Figueiredo var síðasti forsetinn á tíma brasilísku herforingjastjórnarinnar og forsetatíð hans einkenndist af hægfara þróun aftur til lýðræðis sem lauk með stofnun nýrrar stjórnar árið 1985.

João Figueiredo
João Figueiredo árið 1979.
Forseti Brasilíu
Í embætti
15. mars 1979 – 15. mars 1985
VaraforsetiAureliano Chaves
ForveriErnesto Geisel
EftirmaðurJosé Sarney
Persónulegar upplýsingar
Fæddur15. janúar 1918
Rio de Janeiro, Brasilíu
Látinn24. desember 1999 (81 árs) Rio de Janeiro, Brasilíu
ÞjóðerniBrasilískur
StjórnmálaflokkurViðreisnarbandalagið (1978–1979)
MakiDulce Castro (m. 1942)
Börn2
HáskóliRealengo-herskólinn
Undirskrift

Æviágrip

breyta

João Figueiredo var sonur liðsforingja í brasilíska hernum og fetaði í fótspor föður síns með því að ganga í herinn. Þegar brasilískir herforingjar frömdu valdarán gegn borgaralegum stjórnvöldum árið 1964 var Figueiredo skipaður yfirmaður leyniþjónustunnar í Rio de Janeiro. Hann var síðan skipaður yfirmaður herlögreglunnar í São Paulo og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir brasilísku herforingjastjórnina á næstu árum. Árið 1974 skipaði Ernesto Geisel, forseti Brasilíu, Figueiredo yfirmann allrar leyniþjónustu ríkisins.[1]

Figueiredo var lítið áberandi sem meðlimur í ríkisstjórn Geisels og var stundum kallaður „þögli ráðherrann“. Þrátt fyrir að herforingjastjórninn hefði frá upphafi lofað því að snúið yrði aftur til lýðræðis þegar aðstæður væru réttar gagnrýndi Figueiredo vestrænt lýðræði opinberlega. Vegna óvarlega ummæla Figueiredos var sérstakt auglýsingafyrirtæki fengið til að kenna honum hvernig hann átti að koma fram.[1]

Ernesto Geisel féll vel að vinna með Figueiredo og tók hann því fram yfir aðra herforingja í stjórninni við val á eftirmanni sínum. Í byrjun ársins 1978 tilkynnti Geisel að Figueiredo myndi taka við af honum sem forseti Brasilíu við lok kjörtímabilsins næsta ár. Þrátt fyrir að herforingjarnir réðu vali á forsetanum hélt Figueiredo uppi virkri kosningabaráttu og ferðaðist vítt og breitt um Brasilíu til að kynna sig fyrir þjóðinni.[1]

Figueiredo tók við af Geisel sem forseti Brasilíu þann 15. mars 1979 og sagðist við það tilefni ætla að sjá til þess að staðið yrði við loforð hersins um afturhvarf til lýðræðis. Þegar Figueiredo tók við völdum var efnahagsfarsældinni sem hafði einkennt fyrri ár herforingjastjórnarinnar lokið. Verðbólga nam rúmum fjörutíu prósentum, erlendar skuldir landsins voru háar og landbúnaður Brasilíu átti í vanda af náttúruvöldum, auk þess sem ójöfnuður í landinu hafði aukist gríðarlega.[1]

Við upphaf forsetatíðar sinnar hélt Figueiredo áfram „slökunarstefnu“ sem Geisel hafði viðhaldið frá árinu 1977. Herforingjastjórnin naut enn stuðnings flestra kaupsýslumanna, íhalds- og hægrimanna en brasilískir launþegar voru flestir andsnúnir henni auk þess sem rómversk-kaþólska kirkjan í landinu tók afstöðu gegn stjórninni.[2]

Árið 1983 upphófust fjöldamótmæli gegn herforingjastjórninni vegna versnandi efnahagsástands. Atvinnuleysi nam þá um 40%, verðbólga 230% og meðallaun almennra verkamanna voru aðeins um 4.300 kr. á mánuði. Glæpatíðni fór hækkandi og milljónir landsmanna voru vannærðir. Háværar kröfur mótmælenda um að beinar kosningar yrðu haldnar um næsta forseta leiddi til þess að Figueiredo lét lýsa yfir takmörkuðu neyðarástandi í höfuðborginni Brasilíu og nærliggjandi héruðum í apríl 1984. Tilskipunin um neyðarástandið espaði mjög upp mótmælendur í höfuðborginni og leiddi til þess að hundruð stúdenta ruddust inn í þinghús borgarinnar.[3] Árið 1984 felldi brasilíska þingið tillögu stjórnarandstæðinga um að kallað yrði til beinna forsetakosninga en í staðinn var kölluð saman kjörmannasamkunda sem falið var að kjósa nýjan forseta þann 15. janúar næsta ár.[4]

Þann 15. janúar 1985 kaus kjörmannasamkundan stjórnarandstöðuleiðtogann Tancredo Neves nýjan forseta Brasilíu.[5] Neves veiktist hins vegar og lést áður en hann gat tekið við embætti og því var það José Sarney, sem hafði verið kjörinn varaforseti af kjörmannasamkundunni, sem tók við af Figueiredo sem forseti Brasilíu þann 15. mars 1985. Figueiredo neitaði að vera viðstaddur embættistöku eftirmanns síns þar sem Sarney var liðhlaupi úr gömlum stjórnarflokki herforingjanna og var því álitinn svikari eða tækifærissinni.[6]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Þórarinn Þórarinsson (21. mars 1979). „Nýr forseti kominn til valda í Brasilíu“. Tíminn. bls. 6.
  2. „Nýr forseti Brasilíu á við mikinn vanda að stríða“. Tíminn. 8. apríl 1979. bls. 6.
  3. Magnús Torfi Ólafsson (26. apríl 1984). „Herforingjastjórn Brasilíu reynir skipulegt undanhald“. Helgarpósturinn. bls. 6.
  4. Guðmundur Halldórsson (11. maí 1984). „Hægfara þróun til lýðræðis í Brazilíu“. Morgunblaðið. bls. 22.
  5. „Umskipti í Brasilíu“. Þjóðviljinn. 22. janúar 1985. bls. 15.
  6. Jóhanna Kristjónsdóttir (28. apríl 1985). „Hann axlar byrði sem annar sóttist eftir“. Morgunblaðið. bls. 63.


Fyrirrennari:
Ernesto Geisel
Forseti Brasilíu
(15. mars 197915. mars 1985)
Eftirmaður:
José Sarney