Jessi Jamm og Jæja

Jessi Jamm og Jæja (franska: Jesse James) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 35. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1969, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Pilote fyrr á sama ári. Bókin hefur ekki komið út í íslenskri þýðingu.

Kápa spönsku útgáfu bókarinnar.

Söguþráður breyta

Hinn alræmdi Jesse James veldur miklum usla í Missouri með banka- og lestarránum sem hann fremur í slagtogi með bróður sínum, Frank, og frænda, Cole Younger. Einkaspæjarastofnunin Pinkerton leitar liðsinnis Lukku Láka til að klófesta bófana sem eru flúnir til Texas. Þar sem Jesse og félagar hafa ekkert brotið af sér í Texas verður Lukku Láki þó að bíða átekta og fylgjast með ferðum þeirra. Bófarnir stefna til bæjarins Einskisgils (e. Nothing Gulch) og Lukku Láki stendur fyrir borgarafundi þar sem hann varar bæjarbúa við aðsteðjandi ógn. Jesse og félagar hafa hins vegar í hyggju að koma sér í mjúkinn hjá bæjarbúum og vinna traust þeirra áður en þeir láta til skarar skríða gegn banka bæjarins. Jesse sendir Lukku Láka fölsk skilaboð til að lokka hann burt úr bænum og á meðan rænir Jesse bankann. Í kjölfarið reynir Jesse að ræna lestina, en Lukku Láki kemur í veg fyrir það og hefur hendur í hári Cole Younger. Réttað er yfir Cole í Einskisgili, en lafhræddir bæjarbúar þora ekki öðru en að sýkna hann af öllum ákæruatriðum. Jesse og félagar ákveða þá að ráðast aftur á bæinn áður en þeir halda á brott.

Fróðleiksmolar breyta

 
Jesse James. Ljósmyndin er sennilega tekin árið 1876.
  • Einn frægasti byssubófi Villta Vestursins, Jesse James (1847-1882), er hér í aðalhlutverki, en hann hafði áður komið stuttlega við sögu í Óaldarflokki Jússa Júmm og Billa barnunga. Jesse James var frægasti meðlimur hins svonefnda James-Younger gengis, flokki óbótamanna sem rændu banka, lestir og póstvagna í Missouri, Texas og fleiri fylkjum Bandaríkjanna á árunum 1866-1876. Litríkur glæpaferill gerði Jesse James að alþýðuhetju í lifanda lífi, nokkurs konar Hróa Hetti Villta Vestursins, og í bókinni er gert stólpagrín að þeirri ímynd útlagans.
  • Bókin er ein af sárafáum í bókaflokknum um Lukku Láka þar sem minnst er á Þrælastríðið sem háð var á árunum 1861-1865, en Jesse James barðist þar með her suðurríkjanna. Þrátt fyrir að sögusvið bókaflokksins séu Bandaríkin á seinni hluta 19. aldar er nánast alveg sneitt hjá umfjöllun um stríðið.
  • Bróðir Jesse, Frank James (1843-1915), var raunverulega áhugamaður um William Shakespeare, en í bókinni vitnar hann sífellt í ýmis stórvirki enska skáldsins. Vitni að einu lestarráni bræðranna árið 1873 sögðu frá því að einn ræninginn hefði farið með línur eftir Shakespeare á meðan á ráninu stóð.
  • Pinkerton stofnunin, sem kemur við sögu í bókinni, reyndi að hafa hendur í hári Jesse James. Árið 1875 réðust fulltrúar hennar á heimili James fjölskyldunnar í Missouri og lést ungur hálfbróðir Jesse í þeirri árás. Þessi misheppnaða aðgerð aflaði Jesse mikillar samúðar meðal almennings.
  • Skafti og Skapti, leynilögreglumennirnir seinheppnu úr Tinnabókunum, eru greinilega fyrirmynd fulltrúanna Pínk og Púnk sem leita aðstoðar Lukku Láka í sögunni.