Jefferson Davis

Bandarískur stjórnmálamaður og fyrrum forseti Suðurríkjasambandsins (1808-1889)

Jefferson Davis (f. Jefferson Finis Davis;[1] 3. júní 1808 – 6. desember 1889) var bandarískur stjórnmálamaður sem gerðist forseti Suðurríkjasambandsins í Þrælastríðinu á árunum 1861 – 1865. Hann var meðlimur í Demókrataflokknum og var þingmaður þeirra frá Mississippi á öldungadeild og fulltrúadeild Bandaríkjaþings áður en hann gekk til liðs við Suðurríkjasambandið. Hann hafði einnig verið 23. stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórn Franklins Pierce Bandaríkjaforseta.

Jefferson Davis
Jefferson Davis árið 1861.
Forseti Suðurríkjasambandsins
Í embætti
18. febrúar 1861 – 5. maí 1865
VaraforsetiAlexander H. Stephens
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurEmbætti lagt niður
Stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna
Í embætti
7. mars 1853 – 4. mars 1857
ForsetiFranklin Pierce
ForveriCharles Magill Conrad
EftirmaðurJohn B. Floyd
Öldungadeildarþingmaður fyrir Mississippi
Í embætti
4. mars 1857 – 21. janúar 1861
ForveriStephen Adams
EftirmaðurAdelbert Ames (1870)
Í embætti
10. ágúst 1847 – 23. september 1851
ForveriJesse Speight
EftirmaðurJohn J. McRae
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir Mississippi
Í embætti
8. desember 1845 – 28. október 1846
ForveriTilghman Tucker
EftirmaðurHenry T. Ellett
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. júní 1808
Fairview, Kentucky, Bandaríkjunum
Látinn6. desember 1889 (81 árs) New Orleans, Louisiana, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiSarah Knox Taylor (g. 1835; d. 1835)
Varina Howell (g. 1845)
HáskóliTransylvania University
West Point
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Davis fæddist í Fairview, Kentucky, inn í sæmilega efnaða bændafjölskyldu, og var alinn upp á bómullarplantekrum bróður síns, Josephs, í Mississippi og Louisiana. Joseph Davis sá til þess að bróðir hans fengi aðgöngu í hernaðarháskóla Bandaríkjanna. Eftir að hann útskrifaðist gegndi Jefferson Davis herþjónustu í sex ár sem liðsforingi í bandaríska hernum og barðist þá í stríði Bandaríkjanna við Mexíkó (1846–1848) sem ofursti sjálfboðaliðadeildar. Fyrir Þrælastríðið átti Davis mikla bómullarplantekru í Mississippi og átti allt að 74 þræla.[2] Þótt Davis væri á móti aðskilnaði við Bandaríkin árið 1858[3] taldi hann að aðskilnaðarréttur fylkjanna væri órjúfandi.

Fyrsta eiginkona Davis, Sarah Knox Taylor, lést úr malaríu eftir aðeins þriggja mánaða hjónaband og sjálfur glímdi hann nokkrum sinnum við sjúkdóminn.[4] Heilsa hans var léleg mestalla ævi hans. Þegar hann var 36 ára kvæntist hann hinni 18 ára gömlu Varinu Howell frá Natchez í Mississippi. Hún hafði stundað nám í Philadelphiu og átti ýmis fjölskyldutengsl í norðurríkjunum. Hjónin eignuðust sex börn, en aðeins tvö lifðu lengur en faðir þeirra og aðeins eitt þeirra giftist og eignaðist börn.

Margir sagnfræðingar kenna lélegri forystu Davis um veikleika Suðurríkjasambandsins.[5] Hann þótti upptekinn af smáatriðum, tregur til að deila ábyrgðarverkum, vanrækinn gagnvart borgaralegum málefnum, hallur undir gamla vini sína, ófær um að vinna með fólki sem var honum ósammála og ómóttækilegur fyrir almannaáliti.[6][7] Sagnfræðingum kemur saman um að hann hafi verið mun lakari stríðsleiðtogi en hliðstæða hans í norðurríkjunum, Abraham Lincoln. Þegar Davis var handsamaður árið 1865 var hann sakaður um landráð gegn Bandaríkjunum og fangelsaður í Monroe-virki. Aldrei var þó réttað yfir honum og honum var sleppt eftir tvö ár. Davis naut enn virðingar meðal suðurríkjamanna en Robert E. Lee hershöfðingi var orðinn mun vinsælli en Davis meðal fyrrverandi aðskilnaðarsinna. Davis skrifaði endurminningar sínar, The Rise and Fall of the Confederate Government og lauk við hana árið 1881. Seint á níunda áratugnum fór hann að hvetja til sáttar milli ríkjanna og sagði suðurríkjamönnum að vera hliðhollir alríkinu. Fyrrverandi aðskilnaðarsinnar fóru að líta á Davis sem föðurlandsvin Suðurríkjanna og hetju „glataða málstaðarins“.[8]

Tilvísanir

breyta
  1. Davis, William C. (1996). Jefferson Davis: The Man and His Hour. Louisiana State University Press. Bls. 6.
  2. Johnson, Paul (1997). A History of the American People. New York, New York: HarperCollins. bls. 452.
  3. „The Anti-Secessionist Jefferson Davis“. National Park Service. Sótt 27. júlí 2015.
  4. Cooper, William J. (2000). Jefferson Davis, American. Knopf Doubleday Publishing Group, bls. 70–71.
  5. Cooper (2000), bls. 3–4.
  6. Wiley, Bell I. (janúar 1967). „Jefferson Davis: An Appraisal“. Civil War Times Illustrated. 6 (1): 4–17.
  7. Escott, Paul (1978). After Secession: Jefferson Davis and the Failure of Confederate Nationalism. Baton Rouge: Louisiana State University Press, bls. 197, 256–74.
  8. Strawbridge, Wilm K. (desember 2007). „A Monument Better Than Marble: Jefferson Davis and the New South“. Journal of Mississippi History. 69 (4): 325–47.