Janis Lyn Joplin (f. 19. janúar 1943, d. 4. október 1970) var bandarísk söngkona, tónskáld og útsetjari, sem hafði mikil áhrif á rokktónlist í samtíma sínum og síðar. Hún varð fræg sem söngkona með hljómsveitinni Big Brother and the Holding Company. Hún var ein áhrifamesta og vinsælasta söngkona á sjöunda áratug síðustu aldar og er talin í hópi bestu rokksöngkvenna sögunnar, en hún söng einnig blús, kántrí og djass. Árið 2004 hafði tímaritið Rolling Stone hana í 46. sæti á lista yfir 50 mestu listamenn allra tíma.

Janis Joplin (1970)

Janis Joplin var eiturlyfjasjúklingur og notaði bæði amfetamín og heróín auk fleiri efna. Hún lést af afleiðingum of stórs skammts af heróíni og var auk þess drukkin.

Frægasta plata hennar er Pearl sem kom út árið 1971 að henni látinni. Á plötunni voru lögin Me and Bobby McGee eftir Kris Kristofferson og Mercedes Benz eftir Joplin sjálfa og textahöfundana Michael McClure og Bob Neuwirth, en það lag söng hún án undirleiks. Þessi tvö lög urðu frægust þeirra 10 laga sem voru á plötunni.

Síðasta upptaka hennar var lagið Happy Trails eftir Dale Evans, sem hún söng inn á segulband 1. október 1970 og sendi John Lennon (f. 9. október) í afmælisgjöf. Hann sagði síðar svo frá, að segulbandið hafi borist sér eftir andlát hennar.