65°11′00″N 14°36′00″V / 65.18333°N 14.60000°V / 65.18333; -14.60000

Lagarfljót og Fellabær í bakgrunni.
Vatnið með skóginum

Lagarfljót er fljót sem nær frá Brekku Fljótsdal og rennur út FljótsdalHéraðsflóa. Í Lagarfljót rennur jökulá sem sem nefnis Jökulsá í Fljótsdal sem á upptök sín úr Eyjabakkajökli. Hún rennur niður Eyjabakka, niður í Norðurdal í Fljótsdal þaðan niður eftir dalnum og út í Lagarfljót[1][2]. Lagarfljót, sem er í daglegu tali heimamanna kallað Fljótið, er 35 km langt, þekur 53 km², og er dýpi þess allt að 112 metrar. Fljótið telst þriðja stærsta og sjötta dýpsta stöðuvatn Íslands. Ósar Lagarfljóts eru við Héraðsflóa og hefur fljótið þar fallið um 140 km langa leið frá upptökum sínum. Lagarfljót er sjötta lengsta á Íslands. Helstu þverár Lagarfljóts eru Kelduá, Grímsá og Eyvindará. Samkvæmt þjóðsögum lifir vatnaskrímslið Lagarfljótsormurinn í fljótinu.

Við Lagarfljót standa meðal annars Egilsstaðir, Fellabær, Hallormsstaður og Eiðar. Hringvegurinn liggur yfir Lagarfljót við Egilsstaði um 301 metra langa brú. Var þessi brú sú lengsta á Íslandi frá því hún var byggð[3] árið 1958 og fram til ársins 1973.

Fljótið er stíflað á tveimur stöðum til raforkuframleiðslu. Fyrst neðan Eyjabakkafoss með 38 metra hárri stíflu sem nefnist Ufsarstífla og er hluti Kárahnjúkavirkjunar og einnig neðar við Lagarfossvirkjun. Með Kárahnjúkavirkjun var rennsli Jökulsár á Brú einnig að mestu veitt yfir í Jökulsá í Fljótsdal sem hefur haft mikil áhrif á rennsli, grugg og hitastig í Lagarfljóti.

Lagarfljót eða Lögurinn?

breyta

Árni Böðvarsson, íslenskufræðingur, skrifaði í handbók sinni, Íslenskt málfar, um heitið Löginn, sem sumir nota yfir Lagarfljót. Í bókinni telur hann styttingu þessa vera verk aðkomufólks og einkum hafða um þann hluta þess sem mest líkist stöðuvatni. Hann vitnar þar í bréf Jóns Þórarinssonar tónskálds sem hann skrifar 23. júní 1987. Jón bætti við í bréfinu:

Þessi nafngift er alveg úr lausu lofti gripin og á sér að ég ætla enga stoð í rituðu máli fornu né í málvenju heimamanna.

Heimildir

breyta
  1. „Kort of Íslandi | Map of Iceland“. www.map.is. Sótt 7. apríl 2021.
  2. Vatnajökulsþjóðgarður. „Kort“. Vatnajökulsþjóðgarður. Sótt 7. apríl 2021.
  3. „LAGARFLJÓT“. Nat.is [á vefnum]. [skoðað 28-01-2016].
  • Þorsteinn Jósepsson; Steindór Steindórsson; Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, L-R. Örn og Örlygur.

Tenglar

breyta