Árbækur Espólíns
Árbækur Espólíns eða Íslands árbækur í sögu formi er gríðarmikið sagnfræðirit í tólf bindum eftir sýslumanninn og áhugasagnfræðinginn Jón Espólín. Það rekur sögu Íslands frá gildistöku Gamla sáttmála til daga höfundar. Það kom út í Kaupmannahöfn á árunum 1821 til 1855.
Hið íslenska bókmenntafélag hóf göngu sína með útgáfu Sturlunga sögu og Árna sögu biskups. Árbækurnar voru hugsaðar sem framhald þessara verka. Markmið höfundar var að steypa saman öllum þekktum frumheimildum um sögu Íslands, sem var tröllaukið verkefni. Verkið er um 1.900 síður að nafna- og atriðisorðaskrám meðtöldum. Það skiptist upp í tíu hluta sem prentað var í tólf bindum eða deildum. Komu níu þeirra út á meðan höfundur var enn á lífi en þrjár að honum gengnum.
Árbækurnar eru ritaðar á annálaformi þar sem atburðir á borð við embættaveitingar, árferði, fréttir, slysfarir o.fl. eru raktar í tímaröð þar sem öllu ægir saman. Ritið er fyrir vikið sundurlaust og þykir um margt óáreiðanlegt. Áhrif þess voru þó mikil, enda eina eiginlega yfirlitsritið um sögu Íslands allt til loka nítjándu aldar.
Árið 1946 voru Árbækur Espólíns endurútgefnar í ljósprenti.