Jón Hnefill Aðalsteinsson

íslenskur þjóðfræðingur (1927-2010)

Jón Hnefill Aðalsteinsson (29. mars 19273. mars 2010) var prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands og liggja eftir hann mörg rit, greinar og fyrirlestrar um efnið, auk ritsmíða um skáldskap og trúmál. Jón Hnefill var einnig guðfræðingur.

Æviágrip

breyta

Jón Hnefill fæddist að Vaðbrekku í Hrafnkelsdal. Foreldrar hans voru Aðalsteinn Jónsson (1895–1983) bóndi þar, og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir (1901–1987).

Jón Hnefill ólst upp á Vaðbrekku, lauk stúdentsprófi frá MA 1948, og fil. kand-prófi í trúarbragðasögu, trúarlífssálfræði og heimspeki frá Stokkhólmsháskóla 1958. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands vorið 1960 og var vígður sóknarprestur á Eskifirði sama ár. Hann var prestur þar næstu fjögur árin, en fór þá til Uppsala í Svíþjóð og lauk prófi í þjóðfræði frá Uppsalaháskóla 1966. Í ársbyrjun 1979 lauk hann doktorsprófi frá Uppsalaháskóla með doktorsritgerð sinni um kristnitökuna á Íslandi (Under the Cloak = Undir feldinum).

Upp úr 1980 hóf Jón Hnefill að kenna ýmis námskeið í þjóðfræði við Háskóla Íslands, og varð síðan dósent í þjóðfræði 1988, fyrstur manna. Hann varð prófessor í þeirri grein 1992, og skipulagði og byggði upp nám í þjóðfræði við skólann. Hann ritaði einnig mikið um þau efni, sbr. ritaskrána hér á eftir. Rannsóknir hans spanna vítt svið. Hann skrifaði m.a. um kristnitökuna, ásatrú, goðsögur, ævintýri, gátur, álfa, tröll, afturgöngur, galdra o.fl. Sérsvið hans var þjóðfræðileg greining á fornsögum og fornkvæðum. Jón Hnefill hefur verið nefndur faðir þjóðfræðinnar sem háskólagreinar hér á landi.

Starfsferill Jóns Hnefils var fjölbreyttur. Hann var um skeið blaðamaður á Morgunblaðinu, skólastjóri Iðnskólans á Eskifirði 1963–1964 og kennari við unglingaskólann þar 1961–1964. Hann var kennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð 1969–1988, stundakennari við guðfræðideild HÍ 1967–1968 og heimspekideild 1968–1988. Auk þess kenndi hann við Gagnfræðaskólann við Lindargötu og var stundakennari við Tækniskóla Íslands, Leiklistarskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands. Hann tók þátt í margskonar félagsstarfi, var formaður Þjóðfræðafélagsins, Sagnfræðingafélagsins, Félags menntaskólakennara og Hins íslenska kennarafélags, og sat í stjórn Átthagasamtaka Héraðsmanna og Nordiska Lärarrådet.

Veturinn 1983–1984 var hann Honorary Research Fellow við University College London. Hinn 15. desember 1992 var Jón Hnefill gerður að félaga í The Folklore Fellows, alþjóðlegum samtökum þjóðfræðinga sem Finnska vísindaakademían kom á laggirnar.

Eiginkona Jóns Hnefils (1955) var Svava Jakobsdóttir (1930–2004) rithöfundur og alþingismaður. Þau eignuðust einn son, en fyrir hjónaband átti Jón Hnefill tvo syni.

Ritstörf

breyta

Hér verða talin nokkur rit Jóns Hnefils, sem dæmi um ritstörf hans.

Hann var í ritstjórn Íslenskrar þjóðmenningar, en á árunum 1987–1990 komu út komu fjögur bindi af 9 sem voru áætluð.

Bækur

breyta
  • Kristnitakan á Íslandi, Almenna bókafélagið, Rvík 1971, 181 s. — Önnur útgáfa með viðauka, Háskólaútgáfan, Rvík 1999.
  • Hugmyndasaga, frá sögnum til siðskipta, 2. útg. aukin, Iðunn, Rvík 1978, 146 s. — Fyrsta útg., fjölrituð, MH 1975.
  • Under the cloak. The acceptance of Christianity in Iceland with particular reference to the religious attitudes prevailing at the time, Uppsala 1978, 151 s. — Doktorsrit. Studia ethnologica Upsaliensia 4.
  • Ágrip um trúarbrögð 1, MH, Rvík 1983, iv+97 s.
  • Drög að þjóðfræði, MH, Rvík 1984, 126 s.
  • Þjóðtrú og þjóðfræði, Iðunn, Rvík 1985, 157+13 s.
  • Strandarkirkja, helgistaður við haf, Háskólaútgáfan, Rvík 1993, 94 s.
  • Blót í norrænum sið. Rýnt í forn trúarbrögð með þjóðfræðilegri aðferð, Háskólaútgáfan, Rvík 1997, 263 s.
  • A piece of horse liver. Myth, ritual and folklore in old Icelandic sources, Háskólaútgáfan, Rvík 1998, 188 s. — Terry Gunnell og Joan Turville-Petre þýddu.
  • Under the cloak. A Pagan ritual turning point in the conversion of Iceland, Háskólaútgáfan, Rvík 1999, 233 s. — Kristnitakan á Íslandi á ensku. Terry Gunnell þýddi viðauka.
  • Þá hneggjaði Freyfaxi. Frá staðfræði til uppspuna í Hrafnkels sögu Freysgoða, Háskólaútgáfan, Rvík 2000, 225 s.
  • Trúarhugmyndir í Sonatorreki, Háskólaútgáfan, Rvík 2001, 184 s. — Studia Islandica 57.
  • Hið mystiska X, Háskólaútgáfan, Rvík 2009, 280 s.

Nokkrar greinar og bókarkaflar

breyta
  • „Sverðið úr Hrafnkelsdal.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1981, Rvík 1982:40–47. — Sérprentað.
  • „Þjóðfræði og þakkarskuld.“ Andvari, Rvík 1982:45–56. — Sérprentað. Fjallar m.a. um sænska þjóðfræðinginn Dag Strömbäck.
  • „Norræn trú.“ Íslensk þjóðmenning 5, Bókaútgáfan Þjóðsaga, Rvík 1988:1–73.
  • „Þjóðtrú.“ Íslensk þjóðmenning 5, Bókaútgáfan Þjóðsaga, Rvík 1988:341–400.
  • „Þjóðsögur og sagnir.“ Íslensk þjóðmenning 6, Bókaútgáfan Þjóðsaga, Rvík 1989:228–290.
  • „Gátur.“ Íslensk þjóðmenning 6, Bókaútgáfan Þjóðsaga, Rvík 1989:423–436.
  • „Spádómar.“ Íslensk þjóðmenning 7, Bókaútgáfan Þjóðsaga, Rvík 1990:193–215.
  • „Jökuldalsmenn og Hallfreðargata. Um staðfræði Hrafnkels sögu Freysgoða.“ Múlaþing 18, Egilsstöðum 1991:12–28.
  • „Aldrei hef ég þurft að þræða annarra spor. Ævi og starf Sigfúsar Sigfússonar þjóðsagnaritara.“ Sigfús Sigfússon: Íslenskar þjóðsögur og sagnir 11 (ný útgáfa), Þjóðsaga, Rvík 1993:123–198.
  • „Freyfaxahamarr.“ Skáldskaparmál 4, Rvík 1997:238–253.
  • „Blótminni í Landnámabók.“ Heiðin minni. Greinar um fornar bókmenntir, Heimskringla, Rvík 1999:257–282.

Þýðingar og útgáfur

breyta
  • John Stuart Mill: Frelsið, Hið íslenska bókmenntafélag, Rvík 1970, 220 s. — Jón Hnefill og Þorsteinn Gylfason þýddu. Lærdómsrit Bókmenntafélagsins. 2. útg. 1978, 3. útg. 2000.
  • Anna Birgitta Rooth: Öskubuska í austri og vestri, Iðunn, Rvík 1982, 157 s. — Svava Jakobsdóttir þýddi sögurnar, Jón Hnefill þýddi skýringar og ritaði formála.
  • Þorkell Björnsson frá Hnefilsdal: Af Jökuldalsmönnum og fleira fólki, Iðunn, Rvík 1981, 135 s. — Jón Hnefill gaf út og ritaði formála.

Afmælisrit

breyta
  • Þjóðlíf og þjóðtrú. Ritgerðir helgaðar Jóni Hnefli Aðalsteinssyni. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Rvík 1998, xvi+439 s. — Ritaskrá Jóns Hnefils, fram til 1998, er á bls. 433–439.

Heimildir

breyta
  • Minningargreinar í Morgunblaðinu 10. mars 2010.
  • Skrár Landsbókasafns.

Tenglar

breyta